„Málinu er lokið með því að við greiðum 2,5 milljónir í málskostnað og miskabætur,“ segir Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins, í samtali við mbl.is. RÚV mun greiða Guðmundi Spartakusi tvær og hálfa milljón vegna ummæla í sjö fréttum í miðlum RÚV í fyrra.
Guðmundur krafðist samtals 10 milljóna króna í bætur frá þremur fréttamönnum RÚV og Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra vegna umfjöllunar um fíkniefnasmygl í Brasilíu og Paragvæ og meinta aðild Guðmundar.
Frétt mbl.is: RÚV greiðir Guðmundi Spartakusi bætur
Ummælin sem um ræðir tengjast sjöfréttum á miðlum RÚV þar sem haft var eftir paragvæska dagblaðinu ABC og blaðamanni þess að Guðmundur væri talinn valdamikill fíkniefnasmyglari þar í landi. Í stefnu, sem tekin var fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. september, var krafist að 28 ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk. Til aðalmeðferðar kom ekki enda sömdu aðilar málsins.
„Samkomulag Guðmundar S. Ómarssonar við RÚV vegna málshöfðunar gerði ráð fyrir trúnaði um innihald þess en í ljósi óska fjölmiðla hefur lögmaður Guðmundar heimilað RÚV að upplýsa um þá fjárhæð sem félagið greiðir vegna málsins. Um er að ræða málskostnað og miskabætur, samtals að upphæð 2,5 milljónir króna,“ segir Margrét í skriflegu svari til mbl.is.