Brú milli íslenskra fyrirtækja og Costco

Um 2% vörunúmera eru íslensk í Costco.
Um 2% vörunúmera eru íslensk í Costco. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í Costco eru um 2% af vörunúmerum íslensk. Það hljóta að vera fleiri tækifæri að selja fleiri íslensk vörunúmer í Costco hér og líka fyrir íslensk fyrirtæki að koma vörum sínum í búðir Costco í útlöndum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Samtökin héldu tvo fundi með fulltrúum Costco nýverið. Fyrri fundurinn var haldinn á skrifstofu SI með framkvæmdastjóra Costco á Íslandi, Brett Vigelskas. Síðari fundurinn var haldinn í verslun Costco í Garðabænum með innkaupafólki Costco. „Við erum að reyna að mynda brúa á milli Costco og íslenskra framleiðenda,“ segir Sigurður um markmið fundanna. 

Costco hefur skýra innkaupastefnu sem byggir á því að bjóða gæðavörur á hagstæðu verði. Það eigi vel við íslenska framleiðslu sem er gæðavara, að sögn Sigurðar. „Það getur verið gagnlegt fyrir íslenska framleiðendur að skilja betur þeirra þarfir. Þeir gætu því átt auðveldara með að koma sínum vörum að í verslunum Costco,“ segir Sigurður. 

Í byrjun nóvember verður haldinn fundur með félagsmönnum SI og forsvarsmönnum Costco þar sem rætt verður m.a. um innkaupastefnu Costco.  

„Við finnum fyrir miklum velvilja hjá Costco um samstarf við innlenda framleiðendur,“ segir Sigurður.

Í Costco í Garðabænum eru nú þegar seldar vörur frá íslenskum framleiðendum, þar á meðal er kjötvara, mjólkurvara, brauð og sælgæti. 

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert