Beiðni stjórnar United Silicon um að kyrrsetja eignir Magnúsar Garðarssonar, stofnanda og fyrrverandi forstjóra United Silicon, hefur verið samþykkt hjá sýslumanni.
Stjórn United Silicon sendi kæru til embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar fyrr í mánuðinum. Rúv greinir frá því að bótakrafa stjórnarinnar á hendur Magnúsi hljóði upp á 4,2 milljónir evra, sem samsvarar um 540 milljónum króna. Magnús hefur ekki haft aðkomu að rekstri eða stjórnun félagsins síðan í mars.
„Þetta er einn angi af því að gæta hagsmuna fyrirtækisins,“ segir Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi United Silicon, í samtali við mbl.is.
Kyrrsetningin tekur einungis til eigna Magnúsar hér á landi og þarf United Silicon því að leita út fyrir landsteinana til að fullnusta kyrrsetningu eigna Magnúsar. Karen sagðist ekki geta tjáð sig um það á þessu stigi málsins hvort stjórnin muni grípa til þess ráðs.
United Silicon hefur verið í greiðslustöðvun frá 4. september og hafa Arion banki og fimm lífeyrissjóðir tekið yfir 98,13% hluta fyrirtækisins. Ákvörðunin var tekin á hlutahafafundi félagsins 19. september. Héraðsdómur Reykjaness veitti fyrirtækinu greiðslustöðvun í þrjá mánuði, eða til 4. desember.