OR undirbýr rannsókn á örplasti í vatni

Sýni verða tekin úr vatninu á nokkrum stöðum, m.a. í …
Sýni verða tekin úr vatninu á nokkrum stöðum, m.a. í vatnsbólum Orkuveitunnar, úr dreifikerfum Veitna og svo á nokkrum stöðum hjá neytendum. mbl.is/Heiddi

Orkuveita Reykjavíkur vinnur nú að því að undirbúa mælingar á því hvort örplast leynist í neysluvatni Íslendinga. Þetta staðfestir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.

Mbl.is greindi frá því byrjun þessa mánaðar að Orkuveitan hefði sett sig í samband við rannsakendur Orb Media, sem stóðu fyrir stórri rannsókn á örplasti í neysluvatni ríkja í Evr­ópu, Am­er­íku, Afr­íku og Asíu. Fyrst var greint var frá rannsókninni á vef Guar­di­an, sem sagði örplast hafa fund­ist í neyslu­vatni í 83% tilvika. Reyndist ástandið verst í Banda­ríkj­un­um þar sem plast fannst í 94,4% til­vika, en þar sem það mæld­ist best í Evr­ópu fannst örplast engu að síður í drykkj­ar­vatni í 72% til­vika.

„Þegar við frétt­um af þess­ari rann­sókn [...] þá settu okk­ar vís­inda­menn sig í sam­band við rann­sak­end­urna og við erum að und­ir­búa það að senda sýni héðan til að at­huga hvort að örplast sé að finna í vatn­inu í Reykja­vík,“ hafði mbl.is eftir Ei­rík­ur Hjálmarssyni upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar á þeim tíma.

Ólöf segir Orkuveituna nú hafa skoðað málin vel og hafa ákveðið standa fyrir sínum eigin mælingum á því hvort örplast leynist í íslensku neysluvatni. „Við erum búin að vera í samskiptum við þá [Orb Media] og erum núna að vinna að því að afla okkur búnaðar og annars til að geta mælt þetta hér,“ segir hún.

Útlit sé fyrir að mælingarnar verði gerðar í nóvember og niðurstöður liggi væntanlega fyrir fyrir áramót.

Sýni verða tekin á nokkrum stöðum, m.a. í vatnsbólum Orkuveitunnar, úr dreifikerfum Veitna og svo á nokkrum stöðum hjá neytendum að sögn Ólafar. „Þetta er væntanlega mismunandi eftir hverfum, því að vatnslagnirnar eru misgamlar og því munum við væntanlega taka nokkur sýni hjá notendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert