Strætó greiði 100 milljónir í skaðabætur

Strætó þarf að greiða tveimur fyrirtækjum skaðabætur vegna ólögmæts útboðs.
Strætó þarf að greiða tveimur fyrirtækjum skaðabætur vegna ólögmæts útboðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur dæmdi á fimmtudaginn í síðustu viku fyrirtækið Strætó bs til að greiða Allrahanda ehf. 100 milljónir króna í skaðabætur, ásamt vöxtum, vegna ólögmæts útboðs af hálfu Strætó árið 2010. 

Í febrúar 2010 birti Strætó útboðslýsingu vegna verksins en þar kom fram að það næði til aksturs almenningsvagna á 13 leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Var sjö fyrirtækjum boðið að taka þátt í útboðinu í samræmi við undangengið forval og var Allrahanda þar á meðal.

Fram kom í útboðslýsingunni að verkinu væri skipt upp í fjóra verkhluta og að fyrirtækjum væri boðið að gera tilboð í ákveðna verkhluta eða nánar tilgreindar fléttur af verkhlutum. Var Allrahanda boðið að gera tilboð í alla verkhluta og verkfléttur. Í útboðslýsingunni var vísað til þess að í forvalinu hefðu komið fram lágmarkskröfur til strætisvagna og að bjóðendur hefðu verið metnir með tilliti til gæða vagnanna. Þá kom þar fram að bjóðendur skyldu nota þá vagna sem metnir hefðu verið í forvalinu, en óheimilt væri að nota aðra vagna nema að fengnu samþykki Strætó.

Gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar

Strætó ákvað að taka tilboði Hagavagna hf. Í verkfléttu 1, 2 og 3 og tilboði Kynnisferða ehf. í verkhluta 4. Kom fram að það væri hagstæðasta tilboðið að frátöldu tilboði Allrahanda í verkhluta 1 og Teits Jónassonar ehf. í verkhluta 2, 3 og 4.

Síðar hafi hins vegar komið í ljós að vagnar Hagavagna hf. hafi ekki uppfyllt körfur forvals- og útboðsgagna og afhenti strætó fyrirtækinu vagna svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar.

Upphaflega krafðist Allrahanda um 530 milljóna króna í skaðabætur samkvæmt mati dómkvadds matsmanns. Yfirmatsmaður mat tjónið hins vegar upp á tæplega 290 milljónir króna. Héraðsdómur mat tjónið hins vegar upp á 100 milljónir og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu.

Teitur Jónasson höfðaði einnig mál á hendur Strætó og var komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði brotið gegn meginreglu við umrætt útboð. Var því viðurkenndur réttur Teits Jónassonar til skaðabóta úr hendi Strætó vegna missis hagnaðar sem hann hefði notið ef tilboði hans hefði ekki verið hafnað. Upphæð bóta hefur ekki verið ákveðin í því máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert