Óskað verður eftir endurupptöku á málum Hanyie Maleki og Mary Lucky hjá kærunefnd útlendingamála. Þetta staðfesta lögmenn þeirra beggja við mbl.is. Alþingi samþykkti í nótt frumvarp um breytingar á útlendingalögum. Samþykktar voru tvenns konar breytingar til bráðabirgða sem taka til barna sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir gildistöku laganna og hafa ekki þegar yfirgefið landið.
„Mál skjólstæðinga minna mun fá efnislega meðferð hér á landi. Í því felst og þau verða ekki endursend til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í efnislegu mati á umsögn þeirra verður í fyrsta skipti skoðuð ástæða flótta þeirra frá Afganistan og hvort þau séu flóttamenn í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og einnig eftir atvikum hvort þau eiga rétt á viðbótarvernd samkvæmt útlendingalögunum,“ segir Claudie Ashonie Wilson, lögmaður afgöngsku fegðinanna Abrahim og Hanyie Maleki.
Claudie segir að vissulega hefði verið heppilegra ef útlendingalögin sem voru samþykkt í gær hefðu einnig tekið til þeirra barna sem komu síðar til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd. „Þetta eru samt sem áður jákvæðar breytingar sem munu leiða til þess að hagsmunir þeirra barna sem vitað er um verða hafðir að leiðarljósi,“ segir Claudie.
Fjallað var um útlendingalögin í Háskóla Íslands í júní í fyrra. Á þeim fundi var Claudie einn af frummælendum hans. Hún deildi áhyggjum sínum af því hvernig lögunum yrði beitt í framkvæmd sérstaklega þegar kemur að börnum, hvort sem þau væru í fylgd með foreldrum sínum eða ekki. „Það er leiðinlegt að þetta hafi reynist rétt og áhyggjurnar voru ekki að ástæðulausu,“ segir Claudie.
Hún bendir á að samkvæmt útlendingalögunum eru ýmis ákvæði allt of matskennd. „Útlendingastofnun er alfarið látin meta hagsmuni barna án afskipta barnaverndaryfirvalda sem eru að mínu mati betur í stakk búin til að meta þessa hluti,“ segir Claudie.
Hún bindur vonir við að næsta ríkisstjórn komi á laggirnar nefnd sem muni skoða framkvæmd útlendingalaga sérstaklega þegar kemur að málefnum barna sem sækja hér um alþjóðlega vernd.
„Sem talsmaður þeirra kemur frumvarpið þeim vel og gefur von um jákvæða niðurstöðu í þeirra máli,“ segir Halldór Þorsteinsson hdl. og lögmaður fjölskyldunnar frá Nígeríu, þeirra Joy, Sunday og dóttur þeirra Mary sem er 8 ára gömul.
Eins og fyrr segir mun einnig verða óskað eftir endurupptöku á máli fjölskyldunnar frá Nígeríu. Það verður gert á næstu 14 dögum.