Töluvert hefur verið um jarðvegsskriður í kjölfar mikilli vatnavaxta á Suðaustur- og Austurlandi síðustu daga. Í gær féllu til að mynda skriður í Hamarsfirði og Skriðdal. Búast má við fleiri skriðuföllum á þessu svæði næstu daga.
Í frétt Veðurstofunnar kemur fram að skriðan í Hamarsfirði átti upptök ofarlega í fjallinu þar sem jarðvegur var orðinn vatnsmettaður og óstöðugur. Hún náði niður á tún og olli fjárskaða.
„Í landslagi þar sem eru fjöll og firðir getur verið mikill munur á úrkomu innan lítils svæðis og erfitt er að spá fyrir um nákvæmlega hvar hún verður mest. Jafnvel þótt úrkoma verði ekki eins mikil og síðustu daga, þá er hætt við að fleiri jarðvegsskriður falli vegna þess hversu blautur jarðvegurinn er fyrir. Þetta getur einnig gerst utan hefðbundinna skriðusvæða,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Útlit er fyrir áframhaldandi rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum í kvöld og á morgun, en annað kvöld styttir upp á þessum slóðum.