Hugsanlegt að ríkið komi að uppbyggingu

Svanhildur Hólm aðstoðarmaður ráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Björn H. Jónsson …
Svanhildur Hólm aðstoðarmaður ráðherra, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Björn H. Jónsson bæjarstjóri Hornafjarðar, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Reynir Gunnarsson verkstjóri Vegagerðarinnar, Sigurður Egilsson ráðherrabílstjóri, Einar Sigurjónsson lögregluvarðstjóri, Oddur Árnason yfirlögregluþjónn, Elín Freyja Haraldsdóttir fulltrúi björgunarsveita og Sæmundur Helgason bæjarfulltrúi fóru yfir stöðu mála á fundi síðdegis í dag. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að það hafi komið sér á óvart hversu umfangsmikið flóðasvæðið á Suðausturlandi er. Hann ræddi stuttlega við blaðamann mbl.is eftir fund sinn með bæjarstjórn Hornafjarðar þar sem farið var yfir stöðu mála ásamt lögreglu, vegamálastjóra, verkstjóra Vegagerðarinnar og fulltrúa björgunarsveita.

Bjarni segir að það hafi verið mikilvægt að fara á staðinn til þess að vita nákvæmlega hver staðan væri. Hann segir að hugsanlegt sé að ríkið verði að koma að aðgerðum á staðnum vegna þess uppbyggingarstarfs sem er fram undan.

Fyrr í dag flaug Bjarni ásamt Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra yfir svæðið í þyrlu og kynntu þeir sér aðstæður á Mýrum og í Suðursveit.

Síðdegis munu þeir heimsækja Björgunarfélag Hornafjarðar, en í húsnæði þeirra hefur verið komið upp stjórnstöð sem heldur úti og stýrir öllum aðgerðum á flóðasvæðunum á Suðaust­ur­landi.

Að sögn blaðamanns mbl.is sem er á staðnum snúast helstu aðgerðir nú um verkleg úrlausnarefni sem ganga út á að halda uppi samgöngum á þeim 30 kílómetra kafla sem er lokaður á þjóðvegi 1, á milli Steinavatna í vestri og Hólmsár í austri.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum lítur út fyrir að brúin yfir Hólmsá geti orðið fær á sunnudag. Óvíst er hins vegar hvenær hægt verður að hleypa umferð um bráðabirgðabrú yfir Steinavötn. Efni í nýja brú er til­tækt og til stendur að koma því á staðinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert