Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Jón Gunnarsson samgönguráðherra eru lentir á Höfn í Hornafirði. Þeir hyggjast í dag kynna sér aðstæður á flóðasvæðunum á Suðausturlandi.
Verkfræðingar vegagerðarinnar byrjuðu strax í gærkvöldi að hanna nýja bráðabirgðabrú yfir Steinavötn í Austur-Skaftafellssýslu. Ljóst er að brúin sem þar er fyrir er mikið löskuð eftir vatnsflóð síðustu daga – og óökufær. Efni í nýja brú er tiltækt og verður hafist handa við að flytja á staðinn strax í dag. „Ég ætla ekki að dæma núverandi brú úr leik strax en hún er mjög illa löskuð,“ sagði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í samtali við mbl.is á Hornafjarðarflugvelli nú í morgun.
Hvað framkvæmdirnar, sem fram undan eru, varðar segir Hreinn að stórt úrlausnarefni felist í því að flytja austur stóran slaghamar sem rekur niður brúarstólpa.
Efni í nýja brú er tiltækt og er í geymslu á ýmsum starfsstöðvum Vegagerðarinnar um landið. Þung krafa er á Hornafirði um að einangrun svæðisins verði rofin sem fyrst. Viðmælendur mbl.is á svæðinu benda þar á ferðaþjónustuna. Um tugur hótela er á svæðinu og vegna vegaskemmdanna er varla gesta von.
Eins og fyrr segir eru tveir ráðherrar mættir á svæðið, þeir Bjarni og Jón, auk fylgdarliðs. Þeir lentu á flugvellinum í Hornafirði um klukkan tíu. Þeir munu í dag, ásamt fleirum, fljúga með þyrlu Landhelgisgæslunnar um flóðasvæðið til að kanna aðstæður.
„Lífæðarnar þurfa að vera í lagi,“ segir Jón Gunnarsson samgönguráðherra í samtali við mbl.is. Hann segir veruleikann einfaldlega þann að víða í vegakerfinu séu mannvirki sem þurfi að bæta. Brýr séu einbreiðar og vegir ekki í lagi.
Hann á von á því að vegagerðarmenn verði fljótir að bregðast við þeim búsifjum sem orðið hafi í flóðunum nú. Það hve fljótir menn voru að reisa brú, í stað þeirrar sem fór í Múlakvísl sumarið 2008, sé dæmi um hverju áorka megi á skömmum tíma.