Sigurður Bogi Sævarsson
Þyrlur Landhelgisgæslunnar halda nú uppi eins konar loftbrú frá Hornafirði til byggða í Suðursveit og á Mýrum. Það er í raun eina færa leiðin til þess að halda uppi samgöngum við þetta svæði. Nú í hádeginu voru vegagerðarmenn að bera ýmsan varning um borð í þyrluna TF-GNA, svo sem viðvörunarskilti sem komið verður fyrir á lokunarpóstum.
Einnig er fólk sem býr á svæðinu milli ófærra fljóta flutt til síns heima með þyrlum.
Tvær af þremur þyrlum landhelgisgæslunnar og báðar þær sem eru á landinu eru nú gerðar út frá Hornafirði en sú þriðja er í leiguverkefni erlendis.
„Ég geri ráð fyrir því að við verðum hér talsvert mikið næstu daga,“ segir Björn Brekkan þyrluflugstjóri í samtali við mbl.is. Hann segir flugið austur í morgun hafa sloppið til þrátt fyrir að á Hornafirði sé þungskýjað, nokkuð hvasst og gangi á með skúrum.