Óvissustig á Austurlandi

Gífurlegt vatn flæddi yfir túnin við bæinn Valþjófsstað 2 á …
Gífurlegt vatn flæddi yfir túnin við bæinn Valþjófsstað 2 á Fljótsdalshéraði. Á þriðja tug lamba drukknaði og ekki er vitað um afdrif svipaðs fjölda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, lýsti í gær yfir óvissustigi almannavarna vegna úrkomu og vatnavaxta á Austurlandi. Lítil úrkoma var á svæðinu í gær en gera má ráð fyrir rigningu og vatnavöxtum á Suðausturlandi og Austfjörðum fram eftir laugardegi.

Áætlað er að for­sæt­is­ráðherra, Bjarni Bene­dikts­son og sam­gönguráðherra, Jón Gunn­ars­son auk vega­mála­stjóra Hreins Har­alds­son­ar fari aust­ur í fyrra­málið til að kynna sér aðstæður á Suðaust­ur­landi og Aust­fjörðum, að því gefnu að það viðri til flugs að því er fram kemur á Face­book-síðu lög­regl­unn­ar á Suður­landi.

Vatnsyfirborð hækkaði mikið í gær en vöxturinn var hægur og rólegur seinni hluta dagsins. Að sögn lögregluvarðstjóra vantar talsvert upp á að fljótið nái sambærilegum vexti og árið 2002. Ekki er því búist við að flæði yfir Lagarfljótsbrú eins og staðan var í gærkvöldi.

Að sögn Friðriks Inga Ingólfssonar, bónda á Valþjófsstað 2 í Fljótsdal, var ástandið skelfilegt í fyrradag en þar drukknaði á þriðja tug lamba og talsverðar skemmdir urðu á girðingum. Þá drápust tugir kinda þegar stór aurskriða féll í Hamarsfirði.

Þjóðvegur 1 áfram lokaður

Þjóðvegurinn verður áfram lokaður við Hólmsá á Mýrum en vegurinn hefur verið grafinn í sundur á þremur stöðum til að koma í veg fyrir frekara tjón. Ekki er útlit fyrir að hann opnist allra næstu daga. Miklar skemmdir hafa orðið á samgöngumannvirkjum og Steinavatnabrú í Suðursveit er lokuð vegna skemmda. Vegagerðin vinnur að því að koma upp bráðabirgðabrú. Talsverður fjöldi strandaglópa er á svæðinu en lögreglan á Suðurlandi sagði í tilkynningu í gær að dæmi væru um að bílaleigur sýndu ferðamönnum ekki skilning á þeirri neyð sem þeir búa við vegna flóðanna, en einhverjir ferðamenn hafa þurft að skilja bílaleigubíla eftir á flóðasvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert