B.O.B.A. sprakk á Íslandi

JóiPé og Króli.
JóiPé og Króli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

JóiPé og Króli slógu í gegn með lag­inu „B.O.B.A.“ sem er vin­sæl­asta lag lands­ins um þess­ar mund­ir. Þeir hafa aðeins gert tónlist sam­an í nokkra mánuði en sam­starfið hófst eft­ir að Krist­inn sendi Jó­hann­esi ít­rekað skila­boð á Face­book. Núna eru þeir bestu vin­ir og hafa sent frá sér tvær plöt­ur. Þeir hafa báðir önn­ur áhuga­mál en Jó­hann­es er á kafi í hand­bolt­an­um á meðan Krist­inn er smitaður af leik­list­ar­bakt­erí­unni.

Þeir eru komn­ir með yfir millj­ón hlust­an­ir á Spotify og lagið „B.O.B.A.“ var komið með 430 þúsund spil­an­ir á YouTu­be á föstu­dag. JóiPé og Króli bjuggu til al­gjöra bombu. „Þetta sprakk svo­lítið um leið og við sett­um þetta á netið. Fólk fór mikið að hlusta og deila. Þetta kom okk­ur svo­lítið að óvör­um en þetta var mjög gam­an,“ seg­ir Krist­inn Óli Har­alds­son, eða Króli.

Plat­an Gervi­Gl­ing­ur kom út fyrr í mánuðinum og þegar viðtalið var tekið um miðja vik­una sátu öll átta lög plöt­unn­ar á topp 20 yfir vin­sæl­ustu lög­in á Spotify á Íslandi. „B.O.B.A.“ er á toppn­um rétt eins og á Vin­sældal­ista Rás­ar 2 og Vin­sældal­ista Íslands á K100.

Tvær plöt­ur á hálfu ári

Þrátt fyr­ir að hafa aðeins starfað sam­an frá árs­byrj­un er Gervi­Gl­ing­ur önn­ur plata þeirra fé­laga. „Við kynnt­umst í lok des­em­ber þegar Kiddi send­ir á mig skila­boð á Face­book, seg­ir að ég sé að gera góða hluti í tónlist. Ég var að gera tónlist með fé­laga mín­um Daní­eli í grúpp­unni Rík­is­stjórn­in. Hann hrós­ar mér bara og vill gera tónlist með mér. Mánuði eft­ir að við hitt­umst fyrst vor­um við komn­ir með plöt­una An­an­as, sem er fyrsta plat­an okk­ar,“ seg­ir JóiPé, Jó­hann­es Dami­an Pat­reks­son, en þeir náðu vel sam­an frá upp­hafi.

Hvernig fannst þér að hann hefði sam­band við þig á Face­book? Ákvaðstu strax að hitta hann?

„Nei, alls ekki,“ seg­ir Jó­hann­es en hon­um fannst gam­an að fá hrós. Hann vissi hver Krist­inn væri en þeir höfðu ekki hist. „En svo sendi hann mörg skila­boð á mig eft­ir þetta. Næst­um á hverj­um degi, alltaf að biðja mig að hitta mig og taka stúd­íósessjón. Í lok­in leyfi ég hon­um að koma í hitt­ing og það endaði bara mjög vel,“ seg­ir hann.

En hvernig viss­ir þú, Krist­inn, að þið mynduð passa svona vel sam­an?

„Ég var frek­ar hungraður í að gera tónlist, sá tæki­færi þarna og greip það bara, tók af skarið og það borgaði sig,“ seg­ir Krist­inn.

Þeir smullu sam­an og hafa gert tvær plöt­ur á um hálfu ári sem eru mik­il af­köst. „Þetta er mik­il vinna, mikið hark sem fer í þetta,“ seg­ir Krist­inn. „En við höf­um bara gam­an af þessu,“ skýt­ur Jó­hann­es inn í.

„Það var tíma­bil sem maður var að reyta af sér hárið af pirr­ingi,“ seg­ir Krist­inn en þó að sam­starfið hafi verið áreynslu­laust segja þeir síðari plöt­una hafa verið meiri vinnu, hún sé fag­mann­legri í alla staði.

„Það bara kost­ar sitt, sinn tíma og sína vinnu en það borgaði sig,“ seg­ir Krist­inn.
Hver er ykk­ar leið inn í tónlist? „Við vor­um báðir að bít­boxa á sín­um tíma, ég tók þátt í Hæfi­leika­keppni Íslands og hann í Ísland Got Talent. Það gekk mis­vel hjá okk­ur,“ seg­ir Jó­hann­es. „Ég komst ekki áfram,“ seg­ir Krist­inn og held­ur áfram: „Ég var að bít­boxa og svo var ég í Sönglist. Ann­ars hef­ur hipp hopp og rapp ekki verið lengi part­ur af lífi mínu, ég fór ekki að gera hipp hopp fyrr en í des­em­ber eða janú­ar. Ann­ars hef ég alltaf eitt­hvað verið að söngla eða leika mér á sviði,“ seg­ir Krist­inn.

„Ég byrjaði í rappi eða hipp hoppi í tí­unda bekk, eft­ir að ég sá mynd­ina Straig­ht Outta Compt­on í bíó. Eft­ir það langaði mig að byrja að rappa og byrjaði með vini mín­um Danna, við vor­um eitt­hvað að leika okk­ur,“ seg­ir Jó­hann­es en hann og Krist­inn kynnt­ust síðan eft­ir að þeir byrjuðu í mennta­skóla en Jó­hann­es er í Fjöl­brauta­skól­an­um í Garðabæ og Krist­inn í Flens­borg­ar­skól­an­um í Hafnar­f­irði þar sem hann er mikið í fé­lags­líf­inu.

Mynd­bandið end­ur­spegl­ar per­sónu­leik­ana

Í mynd­band­inu við „B.O.B.A.“ er Krist­inn á sí­felldri hreyf­ingu, kvik­ur og létt­ur á meðan Jó­hann­es kem­ur inn með krafti með djúpri rödd sinni, hagg­ast ekki eins og klett­ur. Skyldi mynd­bandið end­ur­spegla per­sónu­leika þeirra, er Jó­hann­es ró­legri? „Klár­lega, ég er mjög ró­leg­ur. Hann er mik­ill flippkisi. Orku­bolti. Við erum gjör­ólík­ir,“ seg­ir Jó­hann­es.
„Já, ég er orku­bolti og hef vana­lega meiri orku í mér held­ur en Jó­hann­es. Við erum and­stæður í öllu, hegðun og tals­máta, seg­ir Krist­inn. „Þetta eru svona jin og jang-áhrif, svart og hvítt,“ seg­ir hann og vís­ar til þess að þeir passi mjög vel sam­an þrátt fyr­ir að vera ólík­ir.

Hvernig er lífið í Flens­borg?

„Bara æðis­legt. Þetta er þriðja árið mitt. All­ir góðir vin­ir. Ég elska þenn­an skóla og er að gera mjög skemmti­lega hluti þarna. Ég er í Morf­ís. Hef verið varamaður í Gettu bet­ur. Ég hef verið formaður í víd­eóráði. Ég er vara­for­seti núna. Þetta er allt mjög gam­an.“

Báðir hefja þeir nám eft­ir að fram­halds­skóla­nám var stytt um eitt ár. „Ég var fyrsta árið sem lenti í þessu en Flens­borg er nátt­úr­lega fjöl­braut og var ekki að bú­ast við að all­ir kláruðu á þrem­ur árum,“ seg­ir Krist­inn sem ætl­ar sér ekki að klára á þrem­ur árum.

Hvað finnst ykk­ur um þessa stytt­ingu? „Ég var í ung­mennaráði Sam­fés þegar þetta átti sér stað og mót­mælti þessu mikið því þetta er brot á Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna. Þú breyt­ir ekki vinnustað barna eða ung­linga á þess að þau komi að því. Það var ekk­ert hlerað hvað krökk­un­um þætti um þetta,“ seg­ir Krist­inn.

„Þetta meik­ar ekki sens, mennta­skól­inn er þetta breik frá grunn­skóla yfir í há­skóla, þú átt að vera að skemmta þér þarna og aðeins að finna þig. Ég gæti verið að klára eft­ir eitt ár en ætla ekki að gera það. Ég er per­sónu­lega ekki til­bú­inn til að fara út í at­vinnu­lífið, ég er ekki til­bú­inn að læra eitt­hvað sem ég ætla að gera rest­ina af líf­inu, ég verð þá enn þá bara átján ára.“

Geng­ur ykk­ur best þegar þið hafið nóg að gera? Læt­ur eitt­hvað und­an?

„Það er alltaf eitt­hvað sem sit­ur á hak­an­um. En mér líður best ef það er eitt­hvert plan í gangi. Þó að maður taki frí stund­um er best að geta verið með putt­ana í öllu,“ seg­ir Krist­inn.
„Það er gam­an að hafa nóg að gera,“ seg­ir Jó­hann­es sem fyr­ir utan skól­ann og tón­list­ina æfir hand­bolta með 3. flokki Hauka.

Hann svar­ar því ját­andi að það sé mikið að gera en hann er að fara á æf­ingu eft­ir viðtalið, þá fyrstu í nokkra daga.

„Ég þurfti að taka mér tveggja vikna pásu frá hand­bolt­an­um af því að það er búið að vera svo mikið að gera út af plöt­unni og ég er að byrja aft­ur á eft­ir,“ sagði hann.

Þekkja ekki hann og pabba hans í sund­ur

Eitt í text­an­um í lag­inu „B.O.B.A.“ vek­ur at­hygli en það er þegar Krist­inn syng­ur „og þekk­ir mig og pabba minn ekki alltaf í sund­ur“, lína sem blaðamaður hef­ur mjög gam­an af. Hef­ur þetta gerst?

„Það á ekki að ger­ast, það væri fá­rán­legt ef það myndi ger­ast. Það er kó­mík­in í þessu. Þetta er bara al­gjört bull og lé­leg­ur brand­ari,“ seg­ir Krist­inn.

Kannski er lík­legra að ein­hver myndi rugl­ast á Jó­hann­esi og pabba hans, Pat­reki Jó­hann­es­syni hand­bol­takappa. Þeir eru lík­ir í út­liti. „Núna alla vega með skall­ann, ég var að raka mig bara í gær. Ég er oft kallaður Patti, sér­stak­lega af þjálf­ar­an­um mín­um, hann kall­ar mig það bara óvart.“

Hvernig er að hafa hann sem fyr­ir­mynd í hand­bolt­an­um? „Bara frá­bært. Hann sýn­ir mér stuðning í öllu sem ég geri, hvort sem það er hand­bolti eða tónlist.

Er ein­hver pressa frá hon­um að ein­beita þér að hand­bolt­an­um um­fram tónlist?
„Nei alls ekki. Það er hann sem stakk upp á pás­unni núna, sem er bara frá­bært,“ seg­ir hann um hléið sem hann tók í kring­um plötu­út­gáf­una.

Stutt í húm­or­inn

Í text­an­um í „B.O.B.A.“ er önn­ur setn­ing sem vek­ur at­hygli blaðamanns, „ég fíla stelp­ur sem að strauja kortið mitt“ en í mennta­skóla eiga flest­ir frek­ar lít­inn pen­ing. „Ég átti eig­in­lega ekk­ert kort í allt sum­ar. Þetta er bara djók lína, að eiga kær­ustu sem er alltaf að eyða pen­ing­um manns,“ seg­ir Krist­inn en það er nóg af húm­or í lag­inu og ákveðinn létt­leiki.

„Þetta lag er aðallega eitt­hvert djók, brand­arakon­sept, þó að lagið sé al­vöru og við ger­um tónlist af al­vöru, þá er skemmti­legra að vera nett létt­ur á því,“ seg­ir Krist­inn.

Annað sem er hægt að hafa gam­an af í texta lags­ins er lín­an „fyrsta deiti, púlla upp í i30 Hyundai“ en þetta er ekki beint al­geng­asta bíla­teg­und­in í rap­p­lög­um. Reynd­ar er það svo sam­kvæmt frétta­veit­unni Bloom­berg að í vin­sæl­ustu rap­p­lög­um síðustu þriggja ára í Banda­ríkj­un­um er oft­ast minnst á Rolls-Roys þegar rappað er um vörumerki. Ferr­ari er í öðru sæti; Porsche, Chevr­olet, Lam­borg­hini, Bentley, Ca­dillac og Mercedes Benz eru líka á topp tólf. Hyundai er ekki á list­an­um. Sú bíla­teg­und samt er lík­lega mun nær veru­leika ís­lenskra ung­menna held­ur en hinar.

Tón­leik­ar á laug­ar­dags­kvöld

Næst á dag­skrá eru tón­leik­ar, í dag laug­ar­dag. „Við erum að fara að halda tón­leika í sam­starfi við Coca Cola og Mid Atlantic Entertain­ment í Gamla bíói. Þar verða góðir gest­ir sem ætla að hjálpa okk­ur. Við héld­um út­gáfu­tón­leika á Prik­inu en okk­ur fannst svo leiðin­legt að það voru eig­in­lega fleiri fyr­ir utan staðinn sem komust ekki inn held­ur en inni á staðnum. Við vild­um halda eitt­hvað á stór­um stað þar sem marg­ir kom­ast að og geta dansað og sungið,“ seg­ir Krist­inn en þeir von­ast til þess að sem flest­ir komi og skemmti sér með þeim í kvöld. Plat­an Gervi­Gl­ing­ur verður tek­in í heild sinni ásamt eldra efni. Enn frem­ur koma fram Herra Hnetu­smjör, Landa­boi$ og DJ Snorri Ástráðs.

Þetta er hluti af ít­ar­legu forsíðuviðtali við JóaPé og Króla sem birt­ist í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina.

mbl.is/​Eggert
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert