Búið er að opna veginn um Hólmsá á Mýrum vestan Hafnar. Vegagerðarmenn hafa unnið hörðum höndum í allan dag til að hægt væri að opna hringveginn um Hólmsá.
„Við erum að opna veginn núna,“ segir Reynir Gunnarsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Höfn í Hornafirði, í samtali við mbl.is. Hann segir veginn færan þó allri vinnu í tengslum við hann sé ekki lokið.
Reynir segir veðrið vera að skána og aðeins hafi minnkað í vötnum. Ekki var hægt að meta ástand brúarinnar yfir Steinavötn í dag, vegna þess hve mikið vatn er í ánni í kjölfar mikilla rigninga í nótt. Vegagerðin segir í tilkynningu að reiknað er með að ástandið verði metið á morgun og að því loknu er mögulegt að umferð gangandi fólks verði leyft yfir brúna.
„Það var ansi mikið við Steinavötn en vonandi verður eitthvað minna í fyrramálið,“ segir Reynir.