Lokun hringvegarins vestan við Höfn í Hornafirði hefur lamandi áhrif á ferðaþjónustu á Austurlandi öllu og ferðamenn afbóka gistipláss í hrönnum. Á Breiðdalsvík hafa vart sést ferðamenn síðustu daga og Friðrik Árnason, eigandi Hótel Bláfells, segir tjónið hlaupa á milljónum.
„Það áttu að vera tuttugu herbergi bókuð í nótt, en það er búið að afbóka öll nema eitt. Það er búið að afbóka alla fjóra hópana í næstu viku og þetta er milljóna króna tjón fyrir okkur. Við höfum ekki séð ferðamenn á bílaleigubíl hérna í tvo-þrjá daga. Það hefur bara ekki komið bíll inn í plássið,“ segir Friðrik í samtali við mbl.is.
„Fyrir lítið fyrirtæki er þetta gríðarlegt fjárhagslegt tjón. Við getum örugglega hvergi sótt neinar bætur fyrir þetta.“
Á Héraði er sömu sögu að segja. Miklar afbókanir hafa verið hjá hótelum og gistiheimilum. Ófeigur Pálsson á Hótel Eyvindará segir rof hringvegsins vera „geysilega mikið högg fyrir Austurland allt og alveg suður í Öræfi.“
Á Hótel Eyvindará er nánast tómt, að sögn Ófeigs. „Það var heilmikið bókað og þetta hefur heljarmikil áhrif hérna.“
Hann segir að ferðamenn sem hafi ætlað að koma að norðan snúi við á Mývatni og sæki ekki Austurland heim. „Fólk sem er að fara hringinn, það kemst auðvitað ekki suðurleiðina og snýr við þar og þeir sem koma að norðan fara ekki lengra en í Mývatn. Það er bara þannig.“
Óvenju vel bókað er á Hótel Eyvindará í október að sögn Ófeigs. „Vonandi lagast þetta fljótt svo að við missum ekki af því.“
Gunnlaugur Jónsson á Gistihúsinu á Egilsstöðum segir að ferðamenn afbóki á fullu. „Hlutfallslega hefur þetta alveg jafn mikil áhrif á okkur og Hafnar-svæðið. Það er mikið af afbókunum á hverjum degi. Í gær voru bókuð tíu herbergi og það endaði í tveimur.“
Hann segist hafa heyrt svipaðar sögur frá öðrum ferðaþjónustuaðilum á svæðinu og vonar að ástandið lagist sem fyrst.
„Þegar það hættir að rigna verða þeir fljótir að laga þetta. Þetta er landið okkar – svona er þetta bara.“