Ferðamenn breyta áætlunum sínum

Brúin yfir Steinavötn er skemmd og ekki verður hægt að …
Brúin yfir Steinavötn er skemmd og ekki verður hægt að meta ástand hennar í dag. Eggert Jóhannesson

Ferðaþjónustuaðilar í sveitarfélaginu Hornafirði verða fyrir miklu fjárhagstjóni vegna lokana hringvegarins, sem búist er við að geti varað í allt að viku. Mikið hefur verið um afbókanir á hótelum og gistiheimilum austan lokananna, en einnig hefur verið töluvert rót vestan þeirra, enda margir ferðamenn sem þurfa að breyta sínum áætlunum.

Vegagerðarmenn „dreymir“ um að opna þjóðveginn að Mýrum seint í kvöld, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Enn er þó gert ráð fyrir að það gæti tekið viku að reisa bráðabirgðabrú yfir Steinavötn.

Arnór Már Fjölnisson, sem hefur umsjón með ferðaþjónustunni að Hala í Suðursveit, vestan lokunar, segir töluverða hreyfingu hafa verið á bókunum síðan hringvegurinn var tekinn í sundur.

„Það hefur nú bókast í það aftur sem losnar hjá okkur, því að vegurinn er opinn til okkar, vestan frá. Eitthvað af fólki er að afbóka, kannski út af misskilning um það hvar við erum staðsett og einhverjir eru að afbóka vegna þess að þeir eru að koma að austan.“

Hann segir að upplýsingar til ferðamanna séu ekki nógu greinilegar, varðandi það hvar lokunin nákvæmlega er. „Það er hringt og spurt, fólk sem er á leiðinni er ekki visst hvort við séum innan lokana eða ekki. Þetta er ekki vel merkt, til dæmis á korti Vegagerðarinnar,“ segir Arnór.

Hann segir að upplausn korts Vegagerðarinnar sé ekki nægileg til að ferðafólk átti sig nákvæmlega á því hvar hringvegurinn er lokaður.

„X-ið er náttúrlega þarna við hjá okkur, en fólk áttar sig ekki nákvæmlega á því hvoru megin það er. Fólk hefur líka verið að koma sem vissi ekkert af því að það væri lokað og átti gistingu hérna austan við. Það hefur þá bara farið í þessi herbergi sem hafa verið laus, svo það hefur ekkert verið tómt hús,“ segir Arnór.

Miklir vatnavextir hafa verið á Suðausturlandi undanfarna daga.
Miklir vatnavextir hafa verið á Suðausturlandi undanfarna daga. Eggert Jóhannesson

Ekki hægt að meta brúna yfir Steinavötn í dag

„Það er ágætisábending að gera þetta skýrara,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. „Ferðakortið okkar er alveg gríðarlega öflugt kort, til þess að gera þá hluti sem þarf að gera á hverjum einasta degi. Þetta eru sérstakar aðstæður, en Vegagerðin hefur fullan skilning á þessu hjá ferðaþjónustuaðilum og við þurfum bara að skoða hvernig við getum komið upplýsingum til ferðamanna, en það eru ekki við sem erum einir í því heldur,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Hann segir ekkert hafa breyst varðandi stöðuna á brúnni yfir Steinavötn, en ekki verður hægt að meta styrk brúarinnar í dag og því ekki hægt að taka ákvörðun um hvort gangandi umferð verði hleypt yfir hana að svo stöddu. „En það er unnið á fullu í bráðabirgðabrúnni,“ segir Pétur.

Pétur segir brúna yfir Steinavötn vera komna til ára sinna, en ástand hennar hafi hvorki verið betra né verra en á öðrum brúm. „Það er fullt af brúm sem eru orðnar gamlar og það er heilmikil viðhaldsþörf. Því betur sem við höldum vegunum við og endurbyggjum og bætum, því öflugra verður vegakerfið í að taka á móti svona. Við auðvitað vitum að það vantar aðeins í viðhaldið svo að við höldum þessu eins og við viljum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert