Símon ekki vanhæfur til að dæma að nýju

Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Héraðsdóm­ar­inn Sím­on Sig­valda­son er ekki van­hæf­ur til að dæma að nýju í Stím-mál­inu svo­kallaða. Sak­born­ing­ar í mál­inu höfðu kraf­ist þess að hann myndi víkja sæti þar sem þeir töldu hann hafa látið hjá líða að vekja at­hygli á tengsl­um sem gæfu til­efni til að draga óhlut­drægni meðdóm­ara máls­ins í efa þegar það var tekið fyr­ir í fyrra skipti fyr­ir héraðsdómi.

Hæstirétt­ur ógilti dóm héraðsdóms í mál­inu þegar í ljós kom að Sig­ríði Hjaltested hafi brostið hæfi til að dæma í mál­inu. Sig­ríður sagði sig frá öðru hrun­máli sem Hæstirétt­ur seg­ir hliðstætt þessu máli. Það gerði hún vegna tengsla þess við fyrr­ver­andi eig­in­mann sinn og barns­föður.

Í Stím-mál­inu voru þrír sak­born­ing­ar dæmd­ir fang­elsi  í héraðsdómi í des­em­ber árið 2015, frá 18 mánuðum upp í 5 ár. Málið er eitt af hinum svo­kölluðu hrun­mál­um og teng­ist 20 millj­arða króna láni bank­ans til fé­lags­ins Stím til kaupa hluta­bréfa í Glitni og FL Group, en FL var á þess­um tíma stærsti hlut­hafi Glitn­is.

Í dómi Hæsta­rétt­ar kom fram að Sig­ríður hefði á þeim tíma sem hún dæmdi í Stím-mál­inu vitað um stöðu fyrr­ver­andi eig­in­manns síns. Stuttu áður en dóm­ur féll í Stím-mál­inu var önn­ur ákæra gef­in út gegn stjórn­end­um Glitn­is í svo­kölluðu markaðsmis­notk­un­ar­máli bank­ans. Sagði Sig­ríður sig frá því þar sem hana skorti hæfi til að dæma í mál­inu og vísaði hún til þess að eig­inmaður sinn hefði verið starfsmaður bank­ans og með stöðu sak­born­ings í öðrum mál­um. 

Sím­on var dóms­formaður í fyrra mál­inu og var skipaður sem slík­ur að nýju þegar málið var þing­fest í annað skipti fyrr á þessu ári.

Hef­ur áður dæmt í þrem­ur mál­um og sak­fellt í öll­um

Verj­end­ur í mál­inu hafa bent á að Sím­on hafi áður dæmt í þrem­ur mál­um sem tengj­ast Lár­usi Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóra Glitn­is, og í tvö skipti sem tengj­ast Jó­hann­esi Bald­urs­syni, fyrr­ver­andi starfs­manni bank­ans, og í öll skipti hafi hann „staðið að áfell­is­dómi yfir ákærðu“,  eins og nefnt er í kæru máls­ins til Hæsta­rétt­ar. Telja verj­end­ur að erfitt sé að úti­loka að þessi end­ur­tekna aðkoma Sím­on­ar að mál­sókn­um á hend­ur ákærðu tor­veldi hon­um að líta hlut­laust á mála­vexti.

Aðalmeðferð í Stím-málinu fór upphaflega fram í nóvember árið 2015.
Aðalmeðferð í Stím-mál­inu fór upp­haf­lega fram í nóv­em­ber árið 2015. mbl.is/​Eggert

Þá er bent á að Sím­on hafi sjálf­ur viðrað þá skoðun sína að ann­mark­ar séu á fyr­ir­komu­lagi um að sam­kvæmt venju taki sömu dóm­ar­ar aft­ur við máli sem hafi verið ómerkt í Hæsta­rétti. Telja verj­end­urn­ir einnig að í fyrri dómi sín­um í héraði hafi ekki verið lagt mat á sönn­un­ar­gildi munn­legs framb­urðar fyr­ir dómi. Þannig hafi 49 vitni gefið skýrslu, en í for­send­um dóms­ins hafi ekki einu orði verið vikið að því sem kom fram við munn­lega sönn­un­ar­færslu. „Sé það vís­bend­ing um að héraðsdóm­ur hafi talið munn­lega sönn­un­ar­færslu þýðing­ar­lausa með öllu við úr­lausn máls­ins og henni því verið vikið til hliðar. Það mat fái ekki staðist. Sé enda ljóst að framb­urður margra vitna, sem og framb­urðir ákærðu, hafi lotið að atriðum sem máli hafi getað skipt um skýr­ingu á þeirri hátt­semi sem ákærðu hafi verið gef­in að sök,“ seg­ir í kær­unni.

Get­ur ekki vikið sér und­an að dæma að eig­in geðþótta

Í úr­sk­urði sem Sím­on kvað upp um kær­una seg­ir að ekki verði skorið úr um mögu­legt rangt mat á munn­leg­um framb­urði fyrr en á æðra dóm­stigi. Eng­in önn­ur vörn ákærðu sem komi fram í kær­unni geti leitt til að dóm­ara sé skylt að víkja sæti og að hafa beri í huga að dóm­ari geti ekki að eig­in geðþótta vikið sér und­an því að dæma mál sem hon­um hafi verið út­hlutað.

Und­ir þetta tek­ur Hæstirétt­ur og seg­ir að dóm­ar­ar geti leyst efn­is­lega úr máli, jafn­vel þótt dóm­ur hafi áður verið kveðinn upp og ómerkt­ur af æðra dóm­stig, „enda er hann ekki bund­inn af fyrri úr­lausn sinni í mál­inu,“ seg­ir í dómi Hæsta­rétt­ar. Þá er tekið fram að ekk­ert sé því til fyr­ir­stöðu að dóm­ari leggi dóm á mál að nýju nema að niðurstaða hans um sönn­un­ar­gildi munn­legs framb­urðar hafi verið röng svo að ein­hverju skipti um úr­slit máls. Svo sé ekki í þessu til­viki.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert