Aðvörun Veðurstofunnar um skriðuhættu á Suðaustur- og Austurlandi er enn í gildi að sögn veðurfræðings á vakt. Milt haustveður verður annars á landinu í dag, en þó er enn útlit fyrir rigningu á Austfjörðum og Suðausturlandi og mun því væntanlega rigna á brúarsmiði í dag. Rigningin er þó ekki talin líkleg til að hækka vatnsyfirborð áa, en kann að hægja á lækkun vatnsyfirborðs, en Vegagerðin reiknar með að meta ástand brúarinnar yfir Steinavötn nú í dag.
Annars staðar á landinu verður skýjað með köflum og stöku skúrir. Hiti verður á bilinu 7-12 stig.
Síðdegis og í kvöld snýst hann síðan í norðanátt. Norðvestan 5-15 m/s á morgun, hvassast við austurströndina. Bjart veður og sæmilega hlýtt suðaustanlands, en skýjað og smáskúrir í öðrum landshlutum.