Verið er að veita vatni frá brúnni yfir Steinavötn og síðdegis kemur í ljós hvort hægt verði í það minnsta að opna brúna fyrir gangandi umferð í dag.
„Það er farið að minnka heldur vatnið,“ segir Reynir Gunnarsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Höfn í Hornafirði, í samtali við mbl.is.
Ekki var hægt að meta ástand brúarinnar í gær vegna þess hve mikið vatn var í ánni í kjölfar mikilla rigninga.
„Það er verið að veita vatni frá þar núna og við sjáum sennilega um miðjan daginn hvernig þetta þróast, hvort það verður hægt að leyfa allavega gangandi umferð yfir brúna,“ bætir Reynir við en búið að hanna brúna og koma fólki, vinnuvélum og vinnubúnaði á staðinn.