„Ég gat ekki hætt að borða. Það var að rústa líf mitt, ég var matarróni.“ Þannig hófst framsaga Estherar Helgu Guðmundsdóttur, át- og matarfíknarráðgjafa. Fjallað var um konur og fíkn á afmælisráðstefnu SÁÁ.
Esther segist hafa verið að missa starfið, fjölskylduna og hafi verið löngu búin að missa alla vinina þegar hún hafði ekki tök á matarfíkn sinni. „Síðustu ár hef ég fyrst og fremst náð bata við mínum vanda og hef reynt að halda því á lofti að við séum að glíma við raunverulegan vanda,“ sagði Esther og bætti við að það væri verið að vinna í því að fá viðurkenningu á þessum sjúkdómi.
Hún sagði að í gegnum tíðina hefði verið litið á hlutina þannig að karlar væru meira í drykkjunni á meðan konur væru heima að borða. „Átið ágerðist þegar konur eignuðust börn og þá náðu þær ekki tökum á vandanum,“ sagði Esther.
Hún sagði að neysluhegðun fólks varðandi mat hefði gjörbreyst, nú ætti að borða alls staðar. „Ég segi stundum við fólk í meðferð hjá mér að við förum inn á bensínsstöð, sjoppu, verslun, pósthús og alls staðar er verið að selja eitthvað matarkyns.“
„Ofneysla slekkur á vellíðun í heila og þunglyndi eykst,“ segir Esther en að hennar mati spila fæðuframleiðendur inn á þennan vanda. „Þeir búa til matvæli sem eru ávanabindandi.“
Fólki sem borðar of mikið er kennt að borða í hófi, hreyfa sig, læra að njóta matarins og finna fyrir seddutilfinningu. „Við eignumst nýtt líf með batanum.“
Steinunn Hrafnsdóttir, dósent í Háskóla Íslands, sagði að konur þróuðu hraðar með sér vímuefnafíkn en karla. Hún sagði helming þeirra kvenna sem misnotuðu vímuefna og færu í meðferð hafi verið beittar einhvers konar ofbeldi.
„Sektarkennd og skömm getur fylgt neyslunni,“ sagði Steinunn en hún tengir það við að oft sé ætlast til annars af konum en körlum. Konurnar séu þá líklegri til að vera með krónískt þunglyndi og kvíða.
„Sumar nota vímuefni til að minnka streitu til að mynda eftir skilnað eða önnur áföll. Stór hópur fær ekki stuðning frá sínu nánasta umhverfi,“ sagði Steinunn.
Hún sagði að sérstök meðferð fyrir konur væri nauðsynleg en mörgum konum þætti betra að vera eingöngu með konum í hóp. „Konur eru samt alls ekki einsleitur hópur.“
Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, kynnti frumniðurstöður rannsóknar sem Rótin gerði meðal félagsmanna sinna sem sneri að reynslu kvenna í fíknimeðferð.
Samkvæmt þessum niðurstöðum hafa flestar af þeim 110 konum sem svöruðu lent bæði í áreitni og ofbeldi í meðferð. Margar þeirra eiga alvarlega ofbeldis- og áfallasögu, bæði í barnæsku og á fullorðinsaldri.
„Meira en helmingur þeirra sem svöruðu sagðist vilja að meðferðin hefði verið einstaklingsmiðaðri,“ sagði Kristín. Hluti þeirra sem svöruðu benti einnig á að betur þyrfti að vinna úr áföllum í meðferðinni og einnig var nefnt að betra væri ef meðferðir væru kynjaskiptar.