Vatn er mjög tekið að sjatna í Fljótsdal eftir flóðið í síðustu viku. Bændur í sveitinni hafa fundið nokkra tugi kinda dauðar en enn er allnokkurra saknað. „Við á Valþjófsstað 2 og Víðivöllum fremri höfum fundið 39 kindur dauðar. Þar af átti ég 29,“ segir Friðrik Ingi Ingólfsson, sauðfjárbóndi á Valþjófsstað í Fljótsdal í samtali við mbl.is.
Í gær stytti upp víða á Austurlandi en flóðin náðu hámarki um miðja síðustu viku. Gunnþórunn Ingólfsdóttir, bóndi Víðivöllum fremri, segir í samtali við mbl.is að skemmdir á vegum og girðingum séu nokkrar. Vatnsstaða sé þó ekki orðin eðlileg enn svo fleiri kindur geti fundist dauðar. „Það er ennþá mikið vatn en það fer hratt niður,“ segir hún. Gunnþórunn segir erfitt að átta sig á umfangi tjónsins en það sé óðum að koma í ljós.
Hallgrímur Þórhallsson, bóndi á Skriðuklaustri í Fljótsdal, fann sex kindur frá Valþjófsstað dauðar í gær en sjálfur hefur hann misst fimm kindur, sem fundist hafa. „Hrafnarnir vísa á hræin,“ segir hann um leitina. Nokkur fjöldi hrafna hafi safnast saman á svæðinu og kroppi í þau hræ sem hann finnist. Þannig finni bændurnir sumar kindurnar.
Hann segist sjálfur mest vera með tveggja strengja rafmangsgirðingar og tjónið á þeim sé óverulegt. Eitthvað sé þó um brotna staura en mesta vinnan muni felast í því að hreinsa girðingarnar.
Hallgrímur telur að eitthvað fé muni finnast dautt til viðbótar en miklu hafi munað um það sé sem tókst að bjarga áður en vatnavextirnir náðu hámarki. Hann hafi til dæmis náð að bjarga 72 kindum sem flotið höfðu yfir á hans jörð, áður en þær drukknuðu.
Friðrik á Valþjófsstað 2 segir að hann sakni enn um 20 kinda. Stórþýft sé sums staðar á Klausturnesi og þær gætu leynst fleiri dauðar kindur. „Þetta er hellings tjón á girðingum, talsvert vinnutjón,“ segir hann um ástand girðinga á jörðinni. Þær liggi flatar og margir staurar séu brotnir.
Hann segir aðspurður að bændatrygging bæti tjóni af fjárdauðanum en viðurkennir að þær greiðslur verði rýrar. Bæturnar taki enda mið af sláturverði. „Við fáum ekki mikið út úr því,“ segir hann.