Því yngra sem fólk er þegar það byrjar fíkniefnaneyslu þess líklegra er að það ánetjist henni. Þetta kom fram í erindi dr. Nora D. Volkow, geðlæknis og forstjóra National Institute on Drug Abuse (NIDA) í Bandaríkjunum, á 40 ára afmælisráðstefnu SÁÁ um fíkn í morgun.
Dr. Volkow talaði um fíkn sem langvinnan heilasjúkdóm. Hún gerði grein fyrir rannsóknum sínum þar m.a. er beitt sérstakri tækni til að taka myndir af starfsemi heilans. Hún sýndi myndir til dæmis um hvernig fíkniefnanotkun hefur áhrif á heilastarfsemina og hvernig heilar fíknisjúklinga sem misnotuðu hin ýmsu fíkniefni brugðust við þeim með öðrum hætti en heilar þeirra sem ekki voru orðnir háðir efnunum.
Dr. Volkow segir að maðurinn sé mjög berskjaldaður fyrir hættunni á að verða háður fíkniefnum á mótunarárunum þegar heilinn er enn að þroskast, árunum þegar bernskunni er að ljúka, á táningsárunum og fram yfir tvítugt. Þannig skorar röskun vegna kannabisneyslu (Cannabis use disorder) hæst á unglingsárum og byrjun fullorðinsáranna.
Félagaþrýstingur hefur einnig mikil áhrif á ungt fólk og því er líklegra að það byrji fíkniefnaneyslu vegna þrýstings annarra en þeir sem eldri eru. Dr. Volkow sagði að því yngra sem fólk er þegar það byrjar fíkniefnaneyslu þess líklegra sé að það ánetjist henni.
Dr. Volkow var sérstakur gestur 40 ára afmælisráðstefnu SÁÁ um fíkn. Hún er mjög virtur og afkastamikill vísindamaður á sínu sviði. Dr. Volkow hefur gefið út meira en 550 ritrýndar vísindagreinar og skrifað yfir 90 bókarkafla og óritrýndar greinar um vísindarannsóknir tengdar heilanum og fíkn. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og frumkvæði í fræðunum.