Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður tveggja einstaklinga í svokölluðu LÖKE-máli, mun skoða þann möguleika á að skjóta málinu til ríkissaksóknara eftir að niðurstöðu setts héraðssaksóknara í málinu lá fyrir. Hann hyggst fara yfir málið með skjólstæðingum sínum á næstunni.
Hann furðar sig jafnframt á viðbrögðum Öldu Hrannar Jóhannsdóttir, yfirlögfræðings hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við niðurstöðunni. Í yfirlýsingu hennar fagnar hún því að mál, þar sem hún var ranglega sökuð um að hafa misbeitt valdi í starfi sínu hjá lögreglunni á Suðurnesjum, hafi verið fellt niður.
„Að mínu mati hlýtur það að teljast ásetningur eða stórfellt gáleysi þegar hún fer ekki eftir settum reglum sem gilda um sakamálarannsókn. Afleiðingarnar af því eru skelfilegar. Þetta hefði aldrei farið þessa leið ef hún hefði fylgt reglum og gert allt rétt þá hefði málinu lokið á nokkrum dögum og í ljós hefði komið að ekkert vær hæft í því,“ segir hann.
Garðar Steinn tekur fram að hann skilji vel niðurstöðu setts héraðssaksóknara í ljósi þess að það hafi verið erfitt að sanna huglæga afstöðu þegar Alda Hrönn ákveður að halda engin gögn og skrásetja ekkert á löngu tímabili. „Það liggur því ekki fyrir hvenær hún gerði eitthvað eða vissi eitthvað. Sönnunarfærslan er því erfið,“ segir Garðar Steinn.
Hann segir segir það einnig skjóta skökku við að Alda Hrönn ræði um hversu þungbært málið hafi verið fyrir hana og fjölskyldu hennar. „Það er eins og hún sjái ekki að skjólstæðingar mínir hafa verið í nákvæmlega sömu stöðu í tvö ár þegar þeir voru að sinna vinnunni sinni alveg eins og Alda Hrönn sjálf,“ segir Garðar.