Mesta tjónið á sauðfé varð í aurskriðu

Brúin yfir Steinavötn var tryggð hjá Viðlagatryggingum.
Brúin yfir Steinavötn var tryggð hjá Viðlagatryggingum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Það hafa ekki borist margar tilkynningar,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga Íslands. Vatnavextirnir sem urðu á Austurlandi í síðustu viku ollu nokkru tjóni. Viðlagatryggingar Íslands tryggja gegn beinu tjóni af völdum eldgoss, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Tryggingarnar tryggja sauðfé og brýr sem eru lengri en 50 metrar, svo dæmi séu tekin.

Hulda segir í samtali við mbl.is að fáar tilkynningar hafi borist en að Viðlagatrygging hafi verið í sambandi við tjónþola, bændur sem eigi eftir að tilkynna um tjónið. Ekki liggi fyrir hvert tjónið er fyrr en fé er sótt af fjalli. „Það eru einhverjar fimm til sex tilkynningar í pípunum.“

Hún segir að að auki hafi brúin yfir Steinavötn verið tryggð, en hún eyðilagðist í flóðunum. Hins vegar hafi sveitarfélagið Hornafjörður ekki verið búið að ganga frá tryggingum á glænýrri göngubrú sem eyðilagðist í flóðunum. Hún fáist því ekki bætt hjá Viðlagatryggingum.

Hulda segir að vegir séu ekki tryggðir í náttúruhamförum, en vegir fóru í sundur á nokkrum stöðum í látunum.

Hún segir að langstærsta tjónið á búpeningi, sem henni sé kunnugt um, hafi orðið í Hamarsfirði í Djúpavogshreppi, þar sem aurskriða féll á sauðfé. Ljóst sé að allnokkur hópur kinda hafi þar grafist undir aur. Mat á umfangi þess tjóns liggi ekki fyrir en um sé að ræða marga tugi kinda.

Lögum samkvæmt ber fólki að tilkynna um tjón um leið og því er ljóst að tjón hafi orðið. Hulda segir hins vegar að fólki verði ekki alltaf ljóst strax að tjón hafi orðið. Fyrningarfrestur sé eitt ár, sem sé sá tímarammi sem fólk hafi til að átta sig á að tjón hafi orðið. Hún bendir þó á að fólk sé hvatt til að láta vita um leið og því er ljóst að tjón hafi orðið, jafnvel þótt fólki sé ekki kunnugt um umfang þess strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert