„Þetta er ekki bara kostnaður vegna dýpkunar þó að hann sé vissulega stærsti liðurinn, en inni í þessum tölum er einnig kostnaður vegna eftirlits, mælinga, rannsókna og annarra minni framkvæmda innan hafnar,“ segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs hjá Vegagerðinni, við Morgunblaðið.
Vísar hann í máli sínu til þess að frá árinu 2011 hefur áðurnefndur kostnaður í Landeyjahöfn numið yfir 2,4 milljörðum króna. Þannig var, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, heildarkostnaður árið 2011 yfir 315,5 milljónir króna, rúmlega 311 milljónir árið 2013, um 250,3 milljónir ári síðar, um 625 milljónir 2015 og hátt í 466,3 milljónir króna í fyrra. Það sem af er þessu ári hefur kostnaður vegna Landeyjahafnar numið tæplega 240 milljónum króna.
„Sumir hafa velt því upp af hverju við látum ekki dýpka meira en gert er. Við létum hins vegar gera það árið 2015 og 2016, en það skilar litlu og svarar í raun ekki kostnaði,“ segir Sigurður og bendir á að hann eigi von á því að ástandið batni til muna þegar ný Vestmannaeyjaferja kemur hingað til lands og þegar búið verður að koma fyrir dýpkunarbúnaði í landi. „Þetta mun þá eflaust ekki ganga án allra vandræða, en að dýpka fyrir Herjólf, sem ristir 1,5 metrum dýpra en nýtt skip mun gera, er nær vonlaust verk,“ segir hann.
Vestmannaeyjabær vinnur nú að samkomulagi við ráðuneyti samgöngumála um yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri Vestmannaeyjaferju. Hafa til þessa verið haldnir þrír undirbúningsfundir og verður sá fjórði haldinn í dag. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum, segir á heimasíðu sinni einlægan vilja vera til að „ná þessu saman og til að svo megi verða þarf að vanda gríðarlega til undirbúnings“. En meðal þess sem Eyjamenn leggja áherslu á er að núverandi Herjólfur verði áfram til taks og hann nýttur ef þörf krefur, að siglt verði milli lands og Eyja alla daga ársins og að framlög ríkisins ásamt tekjum hvers árs standi undir kostnaði við rekstur.