Telja rétt sinn til bílastæðagjalds skýran

Hraunfossar í Borgarfirði. H-foss byrjaði í dag að rukka bílastæðagjald …
Hraunfossar í Borgarfirði. H-foss byrjaði í dag að rukka bílastæðagjald á svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsvarsmenn H-foss, leigutaka landsvæðisins við Hraunfossa telja rétt sinn vera alveg skýran og að þeir hafi fulla heimild til að hefja gjaldtöku á bílastæðinu við fossana. Þetta segir Eva B. Helgadóttir hæstaréttarlögmaður.

Greint var frá því fyrr í dag að gjaldtaka hefði hafist við Hraunfossa í morgun og að fulltrúar Umhverfisstofnunnar og Vegagerðarinnar væru á svæðinu að að skoða viðbrögð við gjaldtökunni sem þau telja ólöglega.

Í bréfi sem Eva ritaði Umhverfisstofnun í lok september segir hún stjórnsýslu Umhverfisstofnunnar ekki standast meginreglur stjórnsýsluréttar. Hvorki landeigandinn, né leigutakinn, hafi fengið upplýsingar um málsmeðferð stofnunarinnar og fyrirhugaða ákvörðun er varðar réttindi þeirra og fyrir vikið hafi þeir ekki notið andmælaréttar áður en Umhverfisstofnun tilkynnti þá ákvörðun sína að banna gjaldtökuna.

„Þetta er mjög skrýtin stjórnsýsla,“ segir Eva. „Meginreglan með allar þær ákvarðanir sem stjórnvald tekur er að þær verða að byggja á lögum og skýrum lagaheimildum. Þó að landið sé friðlýst og því fylgi ákveðin kvöð, þá þýðir það ekki að Umhverfisstofnun eða einhver annar megi haga sér eins og hann eigi landið eða njóti einhvers yfirráðaréttar yfir því.“

Þýðir ekki að allir megi leggja á svæðinu

Eva bendir á að kvöðin sem fylgir friðlýsingunni sé skylda til að annast um umhverfið og ekki spilla því, auk þess sem allir megi njóta umferðarréttar um landið. „Umferðarréttur felur hins vegar ekki í sér að allir megi leggja bílum sínum í landinu,“ segir hún.

Umferð við Hraunfossar í Borgarfirði hefur aukist verulega með auknum …
Umferð við Hraunfossar í Borgarfirði hefur aukist verulega með auknum ferðamannastraumi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir séu velkomnir inn á svæðið gangandi, en ef þeir ætli að leggja bílum á svæðinu þá sé eðlilegt að það sé gjald tekið fyrir það.

„Þegar að ríkið á land og tekur gjald af bílum þá telst það ekki vera takmörkun á umferðarétti almennings,“ segir Eva og varpar fram þeirri spurningu hvers vegna eitthvað annað eigi að gilda þegar landeigandi sé annar en ríkið.

„Vegagerðin á ekki neitt þarna“

Þá séu forsvarsmenn H-Foss ósammála þeim fullyrðingum að svæðið teljist innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar. „Vegagerðin á ekki neitt þarna,“ segir hún. „Ef Vegagerðin telur sig eiga eitthvað þarna þá verður hún að taka það eignarnámi, eða hafa þingslýstar heimildir fyrir að þeir eigi þetta.“

Forsvarsmenn Vegagerðarinnar hafi ekki lagt fram neina pappíra þess efnis, þrátt fyrir að margsinnis hafi verið óskað eftir þeim gögnum.

Eva segir forsvarsmenn H-fossa ætla að halda áfram að rukka fyrir notkun á bílastæðinu enda telji þeir rétt sinn vera skýran og svæðið sé ekki á forræði Umhverfisstofnunnar, að öðru leyti en því sem lúti að vernd náttúrunnar.

Líklegt að málið endi fyrir dómstólum

Eva bendir einnig á að ágangur um landið við Hraunfossa sé verulegur. „Þegar þessi friðlýsing átti sér stað [árið 1987] þá var þetta einn og einn ferðamaður. Nú er hins vegar fjöldi fólks að mæta, margir henda rusli, svæðið er í niðurníðslu og það er ekkert verið að hugsa um þetta,“ segir hún.

Spurð hvort að hún telji líklegt að málið fari fyrir dómstóla segir Eva það líklegt, telji Umhverfisstofnun sig geta túlkað náttúruverndarlög þannig að stofnunin geti hagað sér eins og hún hafi réttindi landeiganda.

„Ég mótmæli því að það sé einhver gild stjórnsýsluákvörðun til staðar og þeir verða byrja á að taka slíka ákvörðun og svo er hún þá kæranleg eftir atvikum til æðra stjórnvalds og dómstóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert