Helga Vala Helgadóttir, sem skipar oddvitasæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, kallar eftir því að Alþingi skipi tafarlaust rannsóknarnefnd vegna nýrra upplýsinga um innherjaviðskipti. Hún segir að þrátt fyrir að aðdragandi hruns hafi verið rannsakaður sé ljóst að einn leynist upplýsingar sem rannsakendur höfðu ekki í þeirri vinnu.
Hún skrifar um málið á Facebook og vísar í umfjöllun Stundarinnar um að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi selt eignir sínar hjá Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október 2008, en hann sat neyðarfund Glitnis 28. september sama ár. Í umfjöllun Stundarinnar segir að Bjarni hafi búið yfir innherjaupplýsingum um raunverulega stöðu bankans og fjármálakerfisins í heild.
„Fyrir liggur að Bjarni Benediktsson hefur nýtt innherjaupplýsingar sjálfum sér og fjölskyldu sinni til heilla, upplýsingar sem almenningur í landinu hafði ekki og gat því ekki forðað fjármunum sínum að sama skapi. Það er skýrt lögbrot ef rétt er skv lagaákvæðum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja,“ skrifar Helga vala á Facebook-síðu sína.
„Þetta kallar á að Alþingi skipi án tafar rannsóknarnefnd því þó aðdragandi hruns hafi verið rannsakaður er augljóst að enn leynast upplýsingar sem rannsakendur höfðu ekki. Sönnun í innherjasvikamálum er flókin en miðað við þau gögn og upplýsingar sem hér birtast virðist sem margt er tengist aðdraganda hruns, vitneskju innherja og viðskiptum í kjölfarið gefa ærið tilefni til rannsóknar,“ skrifar hún jafnframt.