Gjaldtaka á bílastæðinu við Hraunfossa hélt áfram í dag að sögn Ólafs Jónssonar, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun. „Þetta eru þær fregnir sem ég hef fengið hjá starfsmanni okkar á staðnum,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is. Hann segir lögregluna hafa verið á staðnum, en í stað þess að skipta sér af gjaldtökunni hafi hún fylgst með þeim sem lögðu ólöglega.
„Hjá okkur mun ekkert gerast fyrr en eftir helgi þegar við förum yfir málin. Við munum að öllum líkindum fylgja eftir bréfinu sem við sendum landeigendum þar sem við bentum á þær leiðir sem við getum farið til þess að knýja fram stöðvun á gjaldtökunni, sem við getum t.d. gert með dagsektum. Við munum leggjast yfir þær þvingunaraðgerðir sem við getum farið í og veljum þær leiðir sem við teljum vænlegar til árangurs.“
Ólafur segir þau einnig munu vera í sambandi við lögregluna og kanna hvers vegna gjaldtakan var ekki stöðvuð, eins og óskað hafði verið eftir af hálfu Umhverfisstofnunar. „Við óskuðum eftir því að þeir stöðvuðu gjaldtökuna með tilvísun til laga og reglna þess efnis.“
„Það er ljóst að landeigendur á svæðinu líta svo á að náttúruverndarlögin stangist á við stjórnarskrána. Við erum algjörlega á öndverðum meiði og teljum að þarna sé búið að takmarka einkaréttinn með friðlýsingunni. Samkvæmt náttúruverndarlögum má ekki taka gjald af þjónustu á friðlýstum svæðum sem þessum nema þá að það komi til samningur á milli Umhverfisstofnunar og landeigenda. Um það snýst málið,“ segir Ólafur.
Hann segir Umhverfisstofnun ætla að halda áfram sínu máli þangað til úr þessu verði skorið, sama með hvaða hætti það verði gert.