„Þegar ég var að undirbúa Atelier, sem er útskriftarverkefnið mitt í Danska kvikmyndaskólanum, vildi ég segja söguna í byggingu sem fangaði skandinavískan mínimalisma á sterum með snert af vísindaskáldskap,“ segir Elsa María Jakobsdóttir kvikmyndagerðarkona. Atelier var valin besta íslenska stuttmyndin á RIFF í gær.
Umhverfi myndarinnar hefur vakið athygli enda er húsið þar sem myndin er tekin upp frægur arkitektúr í Svíþjóð, upphaflega byggt fyrir ABBA-liðsmanninn Björn Ulvaeus.
Atelier segir frá ungri konu í sálarkreppu sem sem flýr amstur lífsins í útópískt hús á fjarlægri eyju. Á staðnum reynist hins vegar krefjandi hljóðlistakona dvelja þar fyrir. Ólíkar væntingar og lífsviðhorf valda árekstrum og alltumlykjandi er óhugnaður en þó beittur húmor um leið.
„Mér fannst spennandi að fjalla um „bestun“ og fullkomnunaráráttu. Þetta er saga af því að finna sér stað í lífinu en ég hef mikinn áhuga á sjálfshjálparkúltúr. Mér fannst mikilvægt að segja söguna við öfgafullar aðstæður í húsi sem endurspeglar fullkomnun. Með því að leita í svona umhverfi setur aðalpersónan óbærilega pressu á sjálfa sig. Umhverfið er fallegt og miskunnarlaust á sama tíma.“
Þegar Elsa María var búin að keyra um Danmörku og Skán í marga mánuði í leit að rétta húsinu dúkkaði þetta sérstaka hús upp á sölu á Facebook, næstum of gott til að vera satt, segir Elsa María.
Húsið kallast Kuben og er á eyjunni Furillen á norðanverðu Gotlandi, teiknað af arkitektinum Anders Forsberg. Það hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar.
„Til stóð að Björn Ulvaeus myndi byggja upptökustúdíó á eyjunni og var húsið hannað sem bústaður fyrir tónlistarfólk sem kæmi alls staðar að til að vinna og sækja innblástur í gotlenska náttúru. En þegar húsið var tilbúið árið 2012 féll Björn frá sínum áformum og því hefur lítið orðið af starfsemi í húsinu. Því var eigandinn himinlifandi þegar við höfðum samband og óskuðum eftir að fá að taka upp í húsinu.“
Í húsinu er hátt til lofts og vítt til veggja og alls kyns tæknileg atriði gera það að hálfgerðu geimskipi.
„Húsið er eins konar hljóðfæri í sjálfu sér og það var algjör draumur að láta handrit og hús mætast og stækka verkið. Húsið lagði heilmikið til í hljóðhönnun og tónlist myndarinnar. Náttúran þarna á Gotlandi er líka einstök. Þarna er sérlega fallegur fjárstofn með sterkan persónu- leika og fara nokkrar gotneskar kind- ur með dramatísk hlutverk í myndinni. Þær eru drungalegar og kallast skemmtilega á við ofurstílíserað húsið.“
Margar áhugaverðar pælingar er að finna í myndinni en nokkuð misjafnt hvað fólk tekur úr henni.
„Ég held að flesta langi til að ná betri stjórn á lífi sínu, umhverfi og samskiptum og verða besta útgáfan af sjálfum sér. Mér finnst spennandi hvernig mínimalismi er orðinn að megatrendi. Hvað ætli það þýði? Aðalpersónan í myndinni er búin að flýja allt inn í ekki neitt og ætlar að átta sig á sjálfri sér þar. En finnur svo ekki neitt. Það er ekki fyrr en hið óvænta og nátt- úran fara að láta á sér kræla að hlutirnir fara að hafa einhverja þýðingu.“
Elsa María segir kjarna myndarinnar vera hvað annað fólk geti verið fullkomlega óþolandi og samvistir við það þrúgandi en að við getum ekki án hvers annars verið. Það sé kannski einmitt það sem er áhugavert.
„Þegar ég kom til Kaupmannahafnar átti ég erfitt með að finna sögunum mínum pláss í borg sem ég þekkti ekki og saknaði Íslands. En í skandinavísku hvítmáluðu íbúðinni áttaði ég mig á því að kannski væri mest spennandi að segja sögurnar einmitt þar. Myndir danska málarans Vilhelms Hammershøi höfðu mikil áhrif á mig. Hann málaði myndir úr stofunni, yfirvegaðar en óþægilegar á sama tíma.“ Næsta mál á dagskrá er að svo gera mynd í fullri lengd í sama dúr og Atelier.