Logi Bergmann Eiðsson ráðinn til Árvakurs

Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður og Magnús E. Kristjánsson útvarpsstjóri K100.
Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður og Magnús E. Kristjánsson útvarpsstjóri K100. Ljósmynd/Gassi

Útvarpsstöðin K100, sem er í eigu Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, hefur náð samningum við Loga Bergmann Eiðsson um dagskrárgerð á stöðinni, auk þess sem hann mun starfa á ritstjórn Morgunblaðsins.

Logi Bergmann er einn vinsælasti fjölmiðlamaður landsins, með áralanga reynslu í fréttavinnslu og framleiðslu dagskrárefnis fyrir bæði útvarp og sjónvarp.

Einnig er í undirbúningi framleiðsla á innlendu sjónvarpsefni og dagskrárgerð með Loga Bergmanni, sem unnin verður í samvinnu Árvakurs og Sjónvarps Símans.

Kominn heim

Logi Bergmann hefur síðasta áratug verið einn helsti fréttaþulur landsins, fyrst á RÚV og síðan á Stöð 2, auk þess sem hann hefur í fjölda ára stjórnað vinsælum sjónvarps- og útvarpsþáttum. Logi Bergmann hóf störf á Morgunblaðinu 1988 og því má segja að hann sé kominn aftur heim.

Ráðning Loga Bergmanns tekur gildi strax og hefur hann hafið störf.

Logi kveðst spenntur yfir því að hefja störf hjá þessu rótgróna fjölmiðlafyrirtæki.

„Ég er mjög spenntur og hlakka til að takast á við ný verkefni og þróa mig áfram á nýjum stað. Ég er sérstaklega spenntur yfir því að koma aftur heim. Það eru næstum þrjátíu ár síðan ég hóf störf á blaðinu. Mogginn reyndist mér alltaf mjög vel. Mig langar til að gera skemmtilegt og áhugavert efni. Ég mun gera það sama og ég hef gert í þrjátíu ár; að fjalla um fólk með fólki. Ég held að það verði mjög gaman að gera það á þessum stað.“

Logi Bergmann hóf störf sem íþróttafréttamaður á Þjóðviljanum fyrir rúmum þrjátíu árum. Þaðan fór hann á Morgunblaðið árið 1988. Árið 1991 söðlaði hann um og hóf störf hjá RÚV sem íþróttafréttamaður.

„Árið 1993 byrjaði ég að vinna og lesa fréttir og gera alls konar þætti. Ég las fyrsta fréttatímann árið 1994. Svo fór ég yfir á Stöð 2 árið 2005 og er búinn að vera þar í rúm 12 ár. Þetta hefur verið feikilega skemmtilegur tími á 365 og ég kveð fólk þar með söknuði. Þetta er hins vegar fínn tími fyrir mig til að prófa eitthvað nýtt,“ segir Logi Bergmann.

Liður í frekari sókn K100

Magnús E. Kristjánsson, útvarpsstjóri K100 og framkvæmdastjóri hjá Árvakri, segir ráðningu Loga stórt skref í frekari uppbyggingu á öflugu ljósvakaefni.

„Það er afskaplega spennandi fyrir K100 að fara að vinna með svona hæfileikaríkum og reynslumiklum fjölmiðlamanni eins og Loga. Við fögnum því að fá hann í okkar lið. Það eru spennandi tímar framundan fyrir K100. Við erum að blása til sóknar. Við erum að stækka dreifikerfið á K100, þétta raðirnar og bæta dagskrána,“ segir Magnús.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert