„Ekki vaða áfram yfir einn aðila“

Þjórsárver.
Þjórsárver. mbl.is/Brynjar

„Þarna er gengið freklega á okkar hlut sem stjórnvalds,“ segir Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps. Eins og mbl.is greindi frá í gær íhugar hrepps­nefndin að leggja fram stjórn­sýslukæru á hend­ur um­hverf­is­ráðuneyt­inu vegna fyrirhugaðrar stækk­un­ar friðlands í Þjórsár­ver­um. Ályktun þess efnis var samþykkt sam­hljóða á hrepps­nefnd­ar­fundi Ása­hrepps í gær, miðvikudag.

Egill segir að kosningafnyk leggi af ákvörðuninni og tekur fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem ráðherrar, rétt fyrir kosningar, taki ákvörðun sem þessa.

Frétt mbl.is: Íhuga að leggja fram stjórn­sýslukæru

Það sem kjörnir fulltrúar Ásahrepps finna að fyrirhugaðri stækkun, sem þeir eru í grunninn sammála, eru skilmálar friðlýsingarinnar; hvernig ríkið hyggst halda utan um svæðið.

Egill segir að merkingum sé verulega ábótavant og engin stjórn sé höfð á umferð inn og út af svæðinu. Þeir sem heimsæki svæðið, flestir útlendingar, viti þar af leiðandi ekki hvaða hömlur gildi á friðlýstu svæði. Úr því verði að bæta og það verði ekki gert nema samningur sé gerður þar að lútandi.

Frétt mbl.is: Friðlandið stækkað um­tals­vert

Egill segir að áður en ráðherra hafi ákveðið stækkunina hafi málið verið í góðum farvegi og að góð samtöl hafi átt sér stað milli ráðuneytis og sveitarfélaga. Allir séu sammála um að stækka eigi svæðið en það sé mat Ásahrepps að þeirri stækkun verði að fylgja fjármagn og áætlun um það hvernig standa eigi að málum. Hann upplifir að verið sé að nýta stækkun friðlandsins í pólitískum leik.

„Menn eiga að vinna að þessu málum saman; stofnanir, ráðuneyti og sveitarfélög. Ekki vaða áfram yfir einn aðila málsins. Við viljum bara að þetta sé gert almennilega,“ segir Egill.

Hann staðfestir að hreppurinn sé að láta skoða, út frá gildandi náttúruverndarlögum, hvort vert sé að leggja fram stjórnsýslukæru vegna málsins. Niðurstaða þeirrar athugunar liggi ekki fyrir.

Uppfært kl. 16:11. Í fyrri útgáfu fréttarinnar var birt rangt kort af áformum um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Kortið hér að neðan er hið rétta.

Hér má sjá hvernig friðlandið stækkar.
Hér má sjá hvernig friðlandið stækkar. Kort/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert