Kísilver hafa kúvent umræðu um stóriðju

Í stjórnstöð Landsnets er vel fylgst með orkuframleiðslunni, dreifingunni og …
Í stjórnstöð Landsnets er vel fylgst með orkuframleiðslunni, dreifingunni og notkuninni. mbl.is/Golli

Óvissa vegna reksturs og framtíðaráforma um kísilver á Íslandi getur haft áhrif á raforkumarkaðinn. Orka sem átti að fara til verkefna sem nú eru í biðstöðu eða hafa verið slegin út af borðinu gæti nú verið á lausu, segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.

Kúvending hefur orðið í umræðunni um stóriðju á Íslandi í kjölfar erfiðleika við rekstur kísilvers United Silicon, að mati Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar. „Eitt mál, þar sem heilsu fólks er ógnað, getur gjörbreytt afstöðu fólksins.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist sammála því að í augnablikinu sé aukin umræða um að staldra við í frekari uppbyggingu stóriðju. „Og það er mjög mikilvægt að hlusta á samfélagið. Það er ljóst að öll uppbygging stóriðju á Íslandi hefur fyrst og fremst verið vegna ákalls samfélagsins, sérstaklega nærsamfélagsins.“

Sjö fyrirtæki notuðu um 77% raforkunnar sem framleidd var í landinu á síðasta ári. Bráðlega bætist kísilver PCC á Bakka í þann hóp. Þessir stórnotendur eru með langtímasamninga og einhliða aðgangur að breytingum á þeim er lagalega ekki til staðar, að sögn forstjóra Landsvirkjunar. „Auðvitað getur það gerst einn daginn að einhver stórnotandi hætti starfsemi. [...] En eftir því sem ég best veit gengur starfsemi okkar stórnotenda vel og er fullur hugur í þeim að starfa hér áfram.“

Hörður segir það hins vegar val hvort stóriðjuverum verði fjölgað í framtíðinni.

 Kísilver Thorsil enn á dagskrá

Thorsil stefnir enn að því að reisa kísilver sitt í Helguvík. Unnið er nú að því að ganga frá fjármögnun. Alveg óháð því hvort það eða önnur sambærileg verkefni verða að veruleika er aukin raforkuþörf fyrirsjáanleg á næstu árum. „Rafmagnið þarf einhvers staðar að verða til, það verður ekki til í snúrunum,“ segir forstjóri HS Orku.

Í dag hefur göngu sína í Morgunblaðinu og á mbl.is greinaflokkurinn Mátturinn eða dýrðin þar sem fjallað er um ólík sjónarmið varðandi nýtingu náttúrunnar, einnar mestu auðlindar Íslands. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert