Edda Pálsdóttir dvelur oft í húsi fjölskyldu sinnar á jörðinni Hamarsheiði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi ásamt manni sínum, Pétri Sólmari Guðjónssyni. Þau eru bæði læknar og starfa núna í Reykjavík en nota hvert tækifæri til að fara í sveitina. Þau hafa hug á því að byggja sér hús á jörðinni og langar í framtíðinni að setjast þar alfarið að.
„Ég hef alltaf verið hér með annan fótinn og stundum búið hér um lengri tíma,“ segir Edda þar sem hún situr í eldhúsinu í íbúðarhúsinu sem fjölskyldan hefur í sameiningu gert upp. Afi hennar og amma, Erlendur Jóhannsson og Jóhanna Margrét Öxnevad, voru með búskap á Hamarsheiði á sínum tíma en í augnablikinu er þar enginn með fasta búsetu.
Frá jörðinni sést niður að Þjórsá og yfir það svæði sem nú stendur til að virkja, gangi hugmyndir Landsvirkjunar um Hvammsvirkjun eftir. Það hugnast Eddu engan veginn. Hún segir að virkjunin myndi hafa áhrif á hennar framtíðarplön og þannig sé það einnig hjá öðru ungu fólki í sveitinni. Nefnir hún að virkjunin myndi hafa áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. „Að búa hér yrði einfaldlega öðruvísi. Þetta hefur umtalsvert slæm áhrif á náttúruna og einnig reiðleiðir okkar, svo dæmi séu tekin.“
Ásýnd landsins mun breytast mikið með virkjun að mati Eddu. Inntakslón mun blasa við þeim sem hingað til hafa getað horft á Þjórsá veltast um flúðirnar og Heklu þar í baksýn. „Verði virkjunin að veruleika myndi það breyta áætlunum margra um að setjast hér að.“
Virkjanaáformin hafa hangið lengi yfir íbúum Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Á meðan hefur ákveðin stöðnun ríkt og fólk hikað við að byggja upp til dæmis ferðaþjónustu. Edda bendir einnig á að samband sveitarinnar við Landsvirkjun sé mjög sterkt. Það eigi sér langa sögu. „Í öðrum hreppum í nágrenninu hefur átt sér stað fjölbreyttari atvinnuuppbygging, svo sem í Hrunamannahreppi. En hér þurfti það síður þar sem fastar tekjur og atvinna sköpuðust vegna virkjana Landsvirkjunar á svæðinu.“
Mörg egg hafi verið lögð í eina og sömu körfuna og atvinnuþróun því verið takmörkuð. „Hér er til dæmis engin ylrækt og fá fyrirtæki utan Landsvirkjunar. Á Flúðum í Hrunamannahreppi er ferðaþjónustan meiri og atvinnan almennt fjölbreyttari.“
Unga fólkið sem vilji gjarnan búa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafi hins vegar færri tækifæri en víða er að finna í nágrannasveitarfélögunum. „Hvammsvirkjun mun ein og sér ekki skapa nein störf hér, hún verður rekin með sama mannskap og Búrfellsvirkjun,“ bendir Edda á. Þá verði mannvirkin hinum megin við ána, í Rangárþingi ytra, og því muni virkjunin ekki skapa neinar framtíðartekjur fyrir sveitarfélagið.
Ávinningurinn af framkvæmdinni fyrir sveitarfélagið er því enginn. En hvað skýrir þá jákvæða afstöðu margra íbúa og sveitarstjórnarmanna til hennar?
„Mér finnst það óskiljanlegt,“ segir Edda. „Fyrir einhverja snýst þetta um að þeir hafi nú þegar vinnu hjá Landsvirkjun og líti því á það sem nokkurs konar skyldu að styðja frekari framkvæmdir fyrirtækisins sem þeir vinna hjá. Aðrir tala um að við hér í hreppnum þurfum að leggja okkar af mörkum ef orku vantar fyrir landið í heild. Gott og vel, en nú er verið að byggja Búrfell II og svo höfum við Búrfellsvirkjun nú þegar. Hversu mikið á þetta eina sveitarfélag að taka á sig til að afla orku á landsvísu, svo ekki sé talað um þegar hún er notuð í stóriðju?“
Edda bendir einnig á fleira sem hafi áhrif á umræðuna og þátttöku fólks í henni. „Fólk er hreinlega búið að gefast upp. Það er orðið svo ofsalega þreytt á þessu. Þetta hefur hangið yfir okkur síðan um 2003 og um virkjanirnar hefur verið stapp síðan þá. Það tekur á lítið samfélag.“
Edda gagnrýnir einnig að þau samfélagslegu áhrif séu ekkert skoðuð í matsskýrslum. Ýmsir þættir séu rannsakaðir en ekki hvaða áhrif það hafi á fámenna sveit að hafa virkjanaáform hangandi yfir sér og í umræðunni árum og áratugum saman. „Hvers vegna er ekki skoðað hvaða áhrif þetta hefur haft á líðan og samskipti fólks innan sveitarinnar? Ég veit að þetta hvílir þungt á mörgum.“
Niðurstöður frummatsskýrslu um umhverfisáhrif Hvammsvirkjunar voru meðal annars fengnar út frá könnun á ferðahögun íbúa og ferðamanna um svæðið. Edda gerir ýmsar athugasemdir við þá könnun og að niðurstöður hafi verið dregnar af henni. Hún telur augljóst að sá sem framkvæmdi könnunina haf ekki haft mikla þekkingu á svæðinu. Spurningarnar hafi margar hverjar alls ekki átt við.
Þá hafi brú yfir Þjórsá ítrekað verið tengd við virkjunina í könnuninni, þó að um algjörlega ótengdar framkvæmdir sé að ræða í dag. „Einhverjir vilja virkjunina því þeir telja enn að út á hana fáist brú til að bæta hér samgöngur,“ segir Edda. Það er hins vegar alfarið rangt. Áður var uppi hugmynd um að brúin myndi liggja ofan á stíflu. Síðan eru liðin mörg ár og þessar tvær framkvæmdir, brúin og virkjunin, nú alls ótengdar.
Gjálp, félag um atvinnuuppbyggingu við Þjórsá, hefur bent á þetta í athugasemdum sínum og hefur farið fram á að könnunin á viðhorfum fólks verði endurtekin. Edda segir að þeir sem berjist gegn virkjuninni fái áheyrn en þó engin skýr svör. Enginn virðist svo ætla að taka ábyrgð á rangfærslum, eins og tengslum brúarinnar við virkjunina.
Spurð hvort það myndi hafa áhrif á hennar afstöðu ef tryggt yrði að orkan úr Hvammsvirkjun færi ekki í stóriðju svarar Edda eftir stutta umhugsun: „Að sjálfsögðu væri það skárra en mér finnst ótímabært að ræða það. Í mínum huga snýst málið um að við erum að byrja á vitlausum enda. Það er engin áætlun á landsvísu um hvernig við viljum nýta orkuna. Við gætum bætt ýmislegt ef við skoðuðum það. Við erum algjörir orkusóðar og eins og staðan er þá er einfaldlega ekki þörf á meiri orku. Það er til nóg af henni. Við þurfum að endurskoða það hvernig við notum hana.“
Edda er ein þeirra sem staðið hafa í framlínu mótmælanna gegn virkjuninni um hríð. Hún segir sjálfboðavinnuna sem það feli í sér gríðarlega. „Ég skal alveg viðurkenna að maður fyllist af og til vonleysi,“ segir hún en skiptir fljótt um gír: „En þetta hefur einnig verið áhugavert og skemmtilegt að mörgu leyti. Það fylgir því ákveðinn lærdómur að standa í svona baráttu. En þessi leikur er ósanngjarn og ójafn. Við erum að vinna að þessu í okkar frítíma á meðan framkvæmdaaðilinn hefur mikil fjárráð og mannafla handan borðsins.“
Ertu bjartsýn á að barátta ykkar eigi eftir að skila árangri og það verði ekki virkjað?
„Já, ég er það. Ég held að okkar vinna hafi skipt máli og haft áhrif. Hún hefur þegar skilað árangri í gegnum tíðina, lónið átti til dæmis að vera stærra og mannvirkin meira áberandi. Það hefur eitthvað unnist nú þegar. Ég yrði hins vegar aldrei sátt ef það yrði virkjað, ég tek það skýrt fram.“
Hún bendir á að nú orðið séu fleiri tilbúnir að taka þátt í umræðunni um virkjanaáform en áður, bæði vegna þess að náttúruvernd hefur verið að eflast en einnig vegna þess að fjárhagslegir hagsmunir vegna hinnar ört vaxandi ferðaþjónustu séu í húfi. „Ferðaþjónustan byggist á náttúrunni og ásýnd landsins. Ég held að fleiri séu að gera sér grein fyrir því að þeir hagsmunir eru orðnir mjög ríkir.“
Edda segir að vissulega bærist sterkar tilfinningar innra með henni vegna þess sem vofir yfir. „Ég skammta mér svolítið að vera miður mín yfir þessu,“ segir hún. „Oft þegar ég geng hér upp á hæðina fyrir ofan bæinn og horfi á alla þessa fegurð velti ég fyrir mér hvers vegna þau rök að vilja vernda fallegt land séu ekki nóg. Þarna á ég mínar bestu stundir með hestana mína. Þetta gefur mér ofsalega mikið og ég veit að þannig er það hjá mörgum öðrum.“
Læknaparið Edda og Pétur segist hafa rætt að flytja alfarið að Hamarsheiði fyrr en síðar. Þar líði þeim báðum vel og segjast ekki setja fyrir sig vegalengdir til vinnu, hvort sem það væri inn á Selfoss eða til Reykjavíkur. „Okkur myndi langa til í framtíðinni að leggja okkar þekkingu, sem lækna, að einhverju leyti til hér á staðnum,“ segir Pétur.
Myndu þau endurskoða það að setjast að á svæðinu ef af virkjun yrði? „Já, sennilega,“ segir Edda eftir stutta umhugsun. Hún bendir á að ákveðin keðjuverkun gæti farið af stað. Þau umgangist oft ákveðinn hóp fólks sem mögulega myndi flytja. Það hefði til dæmis áhrif á þeirra ákvörðun. „Ég myndi að minnsta kosti hugsa mig um tvisvar,“ segir Edda og Pétur samsinnir því.