Aðeins „ágangur og ánauð“ af Hvammsvirkjun

Anna María Flygenring, bóndi í Hlíð, segir að baráttan gegn …
Anna María Flygenring, bóndi í Hlíð, segir að baráttan gegn Norðlingaölduveitu hafi tekið mikið á Gnúpverja. Sigur hafi unnist en baráttuþrekið sé nú minna þegar Hvammsvirkjun er fyrirhuguð í Þjórsá. mbl.is/Golli

Í hlaðinu hjá Önnu Maríu Flygenring á bænum Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi stendur skilti upp við girðingu þar sem staðreyndir um fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár og möguleg áhrif þeirra eru tíunduð. Skiltið útbjuggu dóttir hennar og tengdasonur, Helga Katrín Tryggvadóttir og Jón Guðmundar og Selmuson, fyrir mörgum árum. „Þau voru farin að velta þessum virkjanamálum fyrir sér löngu áður en ég gerði það,“ segir Anna María þar sem hún stendur í sólinni við bæinn og virðir skiltið fyrir sér. Hún segir unga fólkið í sveitinni hafa vaknað fyrr til vitundar um það sem vofði yfir en það eldra.

Á skiltinu er fjallað um umfangsmeiri virkjanaáform en nú standa fyrir dyrum. Í upphafi stóð til að virkja á þremur stöðum í neðri hluta Þjórsár en í dag er aðeins einn þeirra í nýtingarflokki rammaáætlunar; Hvammsvirkjun. Anna María segir að eitt af því sem hún gagnrýni við fyrirhugaða framkvæmd sé að umhverfismat virkjunarinnar, sem gert var í samhengi við hinar tvær árið 2003, hafi aðeins þurft að taka upp að hluta að mati Skipulagsstofnunar. „Ég undrast það því þetta er orðin allt önnur virkjun en til stóð.“

Anna María fór fyrir nokkru að kynna sér áformin ítarlega og hún setur nú margar spurningar við þau. „Það eru ekki aðeins áhrifin á gróður, landslag og ferðaþjónustu heldur ekki síður samfélagið. Og að mínu mati hefur það ekki verið skoðað nóg.“

Samfélagsáhrifin eru þegar orðin margvísleg að mati Önnu. „Ég held að þessi yfirvofandi virkjanaáform hafi heldur dregið úr fólki að byggja upp til að mynda ferðaþjónustu nálægt þessu virkjanasvæði,“ segir hún og bendir á að rætt hafi verið um virkjanir í neðri hluta Þjórsár í um tvo áratugi. „Svo er það klofningur meðal fólksins í sveitinni. Fólk þorir sumt hvert ekki að segja skoðun sína. Þetta hefur hangið yfir okkur lengi og því mögulega valdið hér ákveðnum doða.“

Brúnni „veifað“ framan í íbúa

Hlíð er innst í dalbotni og friðsældin mikil. Anna María og Tryggvi Steinarsson maður hennar eru með kúabú auk þess sem hænur vappa frjálsar um jörðina, hestar eru á beit og sömuleiðis nokkrar geitur en þann búskap hóf Anna fyrir örfáum árum.

Anna María er í hópi fleiri sveitunga sem eru ósáttir við að brú yfir Þjórsá hafi verið nátengd virkjanaframkvæmdunum. Brúin var ekki á samgönguáætlun áður en virkjanaáformin voru kynnt og segir Anna að brúnni hafi verið „veifað“ framan í íbúana líkt og gulrót. „En við eigum auðvitað rétt á samgöngubótum, alveg óháð virkjunum,“ segir hún.

Í hlaðinu á bænum Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi stendur …
Í hlaðinu á bænum Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi stendur skilti þar sem staðreyndir um fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár og möguleg áhrif þeirra eru tíunduð. mbl.is/Golli

Í könnunum um viðhorf heimamanna og ferðamanna til fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar var brúin margoft nefnd og niðurstöður könnunarinnar því byggð á svörum þar að lútandi. Í matsskýrslunni er þó tekið fram að brúin sé algjörlega óháð framkvæmd. Anna gagnrýnir framkvæmd þessara kannana að mörgu leyti. Hún segir spurningarnar hafa verið illa orðaðar og illa ígrundaðar. Spurt var til dæmis hversu miklum frítíma fólk eyddi við Þjórsá. Það segir hún auðvitað mjög misjafnt milli ára. Þá sé það niðurstaða könnunarinnar að flestir sem eigi leið um fyrirhugað virkjanasvæði aki beint í gegnum það. „Mér finnst það nú ekki skipta öllu máli, hversu oft ég fer um svæðið eða hversu margir stoppa við ána á þeim stað sem fyrirhugað er að virkja. Mér finnst einfaldlega heildaráhrifin á landslagið vera allt of mikil.“

Engar tekjur og engin störf

Ef Hvammsvirkjun verður byggð mun áhrifasvæði hennar ná til tveggja sveitarfélaga, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Öll mannvirki verða í síðarnefnda sveitarfélaginu og því munu öll fasteignagjöld renna þangað. „Það mun ekki eitt einasta starf skapast hér í minni sveit með virkjuninni,“ bendir Anna á, „og engar tekjur heldur.“

Íbúarnir hafa einnig sumir hverjir áhyggjur af álagi á vegakerfið í tengslum við fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir. Ljóst er að umferð um vegina mun aukast verulega á framkvæmdatímanum og stórum flutningabílum og öðrum vinnutækjum vera ekið um þá. „Vegurinn hérna fram úr er nú þegar alveg skelfilegur,“ segir Anna María. Í vetur hafi hún oftsinnis ekið veginn með tvö ung barnabörn sín til leikskóla og þá hafi verið erfitt að mæta flutningabílunum sem voru á leið til og frá framkvæmdunum við Búrfellsvirkjun II. „Það kom fyrir oftar en einu sinni að ég þurfti að leggja úti í kanti þegar ég var að mæta þeim.“

Sama hafi verið uppi á teningnum þegar mæta þurfti rútum með ferðamenn á leið til og frá Þjórsárdal. „Álagið á veginn yrði alveg gríðarlegt. Þetta er nóg eins og það er.“

Hvað hefur þá sveitarfélagið upp úr því að fá Hvammsvirkjun í sínu landi?

„Ég sé ekki að það verði neitt nema ágangur og ánauð af þessu,“ segir Anna María. „En svo spyrja allir, viljið þið ekki rafmagn? En hvað verður gert við rafmagnið? Ég vil ekki stuðla að því að það fari í kísilverksmiðjur eða aðra stóriðju.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Enn eitt eggið lagt í sömu körfuna

Myndi það þá breyta þinni afstöðu til fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar ef fullvissa fengist fyrir því að rafmagnið færi ekki til stóriðju?

Anna þarf ekki að hugsa sig um. „Nei, því mér finnst allt of miklu fórnað.“ Hún bendir á að nú þegar séu sex virkjanir í Þjórsá og næsta nágrenni og þarna sé verið að leggja enn eitt eggið í sömu körfuna. „Við búum á jarðskjálftasvæði, við eldgosavá. Eigum við að virkja alla ána og treysta því að ekkert komi fyrir?“

Anna bendir á að miklum gróðri yrði drekkt í fyrirhuguðu uppistöðulóni. Vissulega sé mótvægisaðgerðum lofað en í þær yrði farið á öðrum svæðum, m.a. í Skálholti. „Það finnst mér undarlegt. Við erum að tala um gróðurinn í þessari sveit.“

Í Þjórsá er gróinn og einstakur hólmi sem kallaður er Viðey. Hann var friðlýstur árið 2011. Þangað mega hvorki menn né dýr koma til að spilla ekki fágætum gróðri hans. Verði virkjað verður stíflan reist skammt fyrir ofan Viðey og rennsli í Þjórsá umhverfis hólmann því mun minna hluta árs en það er í dag. Því gæti sauðfé og mannfólk átt hægara um vik með að komast út í hana. Landsvirkjun hyggst reisa mannhelda girðingu umhverfis Viðey til að vernda hana. „Hvernig ætla þeir að gera það? Verður þetta eins og umhverfis fangelsið á Hólmsheiði? Ekki verður það nú fallegt,“ segir Anna María.

Anna hefur áhyggjur af fleiri þáttum sem hún telur ekki hafa verið nægilega vel rannsakaða, t.d. varðandi leirburð og uppfok. „Það er engin leið að halda sandi og leir frá því að fjúka,“ segir hún.

„Mér finnst einfaldlega ókostirnir allt of margir. Svo skil ég ekki hvers vegna Hvammsvirkjun var færð í nýtingarflokk en hinar tvær neðar í ánni eru áfram í biðflokki. En það þarf bara eitt pennastrik til að breyta því.“

Fleiri virkjanir á leið í nýtingarflokk

Nokkur hreyfing er á því máli því í þingsályktunartillögu þriðja áfanga rammaáætlunar er lagt til að bæði Holta- og Urriðafossvirkjun, sem yrðu neðar en Hvammsvirkjun í Þjórsá, verði færðar í nýtingarflokk.

Allar þrjár virkjanahugmyndirnar sem mikil andstaða var um voru settar í biðflokk á sínum tíma og þá önduðu sveitamenn rólegar, segir Anna María. „En svo allt í einu er Hvammsvirkjun færð, ein og sér, með þingsályktunartillögu, í nýtingarflokk. Það kom nokkuð aftan að mörgum. Á því höfðum við ekki átt von.“

Gnúpverjar börðust einnig, og höfðu sigur, gegn fyrirhugaðri Norðlingaölduveitu á sínum tíma. Almenn ánægja hafi verið meðal sveitunga er sú hugmynd var slegin út af borðinu. „Enda stóð þar til að virkja í Þjórsárverum sem er í hugum margra nánast heilagt svæði.“

Anna María segir að sú barátta hafi tekið mikla orku frá fólki. Nú er hins vegar ætlunin að virkja í byggð og að mati sumra skiptir það litlu máli því þegar sé búið að virkja ofar í ánni og umhverfið manngerðara á þessum slóðum en til dæmis í Þjórsárverum. Ein virkjun í viðbót myndi engu máli skipta. „Mér finnst það fáránleg rök,“ segir Anna María.

Hænurnar í Hlíð eru eintaklega spakar og segir Anna María …
Hænurnar í Hlíð eru eintaklega spakar og segir Anna María Flygenring bóndi þær skapgóðar og skemmtilegar. mbl.is/Golli

Eru stórar virkjanaframkvæmdir á borð við þessa eingöngu mál heimamanna að þínu mati?

„Mér finnst þetta ekki aðeins mál einnar sveitar, hvort sem hún telur 50 manns eða 500 íbúa. Þó að ákvörðunin sé í höndum sveitanna núna. Svo getum við ekkert stjórnað því hvað verður um rafmagnið, það er algjörlega úr okkar höndum.“

Anna telur að ef tryggt yrði að rafmagnið færi ekki til stóriðju heldur til dæmis í uppbyggingu fyrir rafbílaflotann þá yrði væntanlega meiri sátt um virkjunina. Það ætti þó ekki við um alla. „Sumir segja að það sé til nóg orka í landinu, henni sé bara ekki rétt dreift. Mér þætti forvitnilegt að fá svör við því.“

Endanleg matsskýrsla vegna framkvæmdanna við Hvammsvirkjun er væntanleg innan skamms. Enn á eftir að afgreiða ákveðnar skipulagsbreytingar vegna hennar í sveitarstjórn sem og að veita framkvæmdaleyfi.

Anna María segir að svo virðist sem ákveðinn hópur sveitunga hennar hafi hreinlega ekki áhuga á málinu. Kannski sé baráttuþrekið uppurið eftir átök vegna virkjanahugmynda síðustu ár og áratugi. „Það er slæmt því þetta varðar heilmikið inngrip í marga þætti, bæði hvað varðar landslag, lífríki og samfélag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka