Hótel Adam dæmt til að greiða vangoldin laun

Konan starfaði á hótelinu um nokkurra mánaða skeið.
Konan starfaði á hótelinu um nokkurra mánaða skeið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rekstrarfélag Hótels Adam á Skólavörðustíg hefur verið dæmt til að greiða tékkneskri konu sem starfaði á hótelinu um tíma rúmar tvær milljónir króna vegna vangoldinna launa.

Þegar konan fékk ekki þau laun greidd sem hún taldi sig eiga inni á sínum tíma leitaði hún meðal annars til lögreglu og stéttarfélags hér á landi, en í dómnum kemur fram lögreglan hafi rannsakað mál hennar sem svokallað mansalsmál.

Vinkona konunnar kom á fundi með henni og eiganda rekstarfélagsins úti í Prag Tékklandi, því konan hafði áhuga á því að starfa á Íslandi. Hann réði hana í kjölfarið til starfa á Hótel Adam. Konan kom til landsins þann 5. nóvember 2015 og hóf störf á hótelinu strax daginn eftir. Forsvarsmaður eigandans segir að samið hafi verið um að hún fengi greidd föst laun upp á 242 þúsund krónur fyrir fjóra vinnudaga á viku, sjö tíma í senn, sem legðist út á um 126 vinnustundir á mánuði. Þá segir hann að konan hafi jafnframt óskað eftir því að hluti af launum hennar yrði greiddur tilteknum aðila í Tékklandi sem hún skuldaði pening.

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda en að sögn eiganda félagsins var það að ósk konunnar. Hún kveðst enga launaseðla hafa fengið afhenta fyrr en í kjölfar þess að hún óskaði eftir launauppgjöri í tengslum við starfslok sín á hótelinu. Hún mótmælir þeim launaseðlum sem forsvarsmaður eigandans hefur framvísað sem tilhæfulausum. Eigandi félagsins heldur því fram að konan hafi í raun verið ráðin til vinnu hjá tékknesku félagi í eigu hans, þrátt fyrir að hún skyldi starfa á Hótel Adam, en umræddir launaseðlar eru gefnir út af því félagi.

Málið rannsakað sem mansalsmál

Í dómnum segir meðal annars: „Stefnandi kveðst ekki hafa fengið uppgjör heldur hafi forsvarsmaður stefnda greitt henni einhverjar smáupphæðir af og til tímabilið nóvember 2015 til apríl 2016. Í maímánuði 2016 óskaði stefnandi eftir uppgjöri á launum. Afhenti hún forsvarsmanni stefnda blað þar sem fram kom hvað hún taldi hann skulda sér og hvað ætti að koma til frádráttar. Þar sem illa gekk að fá svör ákvað stefnandi að hætta störfum hjá stefnda og leitaði í kjölfarið til lögreglunnar og Alþýðusambands Íslands. Fékk Efling-stéttarfélag málið á sitt borð frá sambandinu. Stefnandi kveður lögregluna hafa haft mál hennar til rannsóknar sem svokallað mansalsmál.“

Eftir aðkomu eflingar að málinu var farið yfir gögn konunnar og sendi stéttarfélagið launakröfu á rekstarfélag hótelsins í júní árið 2016. Byggði krafan á tímaskráningu konunnar en hún kvaðst hafa skráð samviskusamlega vinnutíma sinn hvern dag. Engin viðbrögð voru við kröfunni og því var hún afhent lögmanni félagsins til frekari innheimtu í júlí sama ár. Tveimur vikum síðar barst svarbréf þar sem fram kom að konan hefði aldrei verið á launaskrá hjá félaginu.

Fjárhagslegt tjón vegna umfjöllunar um mansal

Forsvarsmaður eigandans segir að konan hafi fengið laun sín greidd í reiðufé, enda hafi hún ekki verið með bankareikning hér á landi. Leiga og annar kostnaður hafi hins vegar verið dreginn af launum hennar fyrir útborgun, eins og sígarettukaup, kaup á tölvu, kostnaður við íslenskunám, kaup á flugmiðum og úttektir í Krambúðinni. Þess vegna hafi konan fengið lágar upphæðir afhentar í reiðufé, líkt og lýst er í stefnunni.

Eigandinn segist meðal annars hafa lagt út fyrir flugmiða fyrir konuna til Tékklands þegar hún fór þangað í frí í maí árið 2016. Auk þess hafi hún fengið greiddar 65 þúsund krónur í reiðufé til að hafa með sér.

„Á meðan stefnandi hafi dvalist í Tékklandi hafi byrjað að birtast fréttir í fjölmiðlum um meint mansal á hóteli stefnda sem höfðu mikil áhrif á starfsemi stefnda og hafi valdið honum umtalsverðu tjóni, bæði fjárhagslegu og einnig á orðspori. Stefndi telur augljóst að stefnandi hafi átt kveikjuna að umræddri umfjöllun í því skyni að refsa stefnda fyrir að greiða henni ekki það sem hún krafði hann um nokkrum dögum áður,“ segir í dómnum.

Bjó áfram á hótelinu endurgjaldslaust

Eigandinn bendir á að þótt konan hafi hætt störfum á hótelinu hafi hún haldið áfram að búa þar ásamt kærasta sínum. Þar hafi þau dvalið í fjóra mánuði án þess að greiða leigu. Hann segir hana einnig hafa skemmt tölvu í sinni eigu. Þannig hafi hann orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af hennar völdum.

Þá mótmælir hann framlagðri tímaskrá hennar yfir unnar stundir á hótelinu sem rangri en skráin sé undirstaða útreiknings dómkröfu í stefnu. Hann telur að umrædd skrá sé búin til eftir á í stað þess að vera samtímaskrá eins og haldið er fram í stefnu. 

Stefndi heldur því einnig fram að krafa stefnanda sé byggð á röngum útreikningum hvað varðar vinnulaun og þannig séu kröfur stefnanda um orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót jafnframt rangar. Með vísan í framangreind atriði telur hann að sýkna beri hann af kröfu um greiðslu.

Dómurinn telur framlagða launaseðla í málinu sem bera með sér að hafa verið gefnir út af tékknesku félagi í eigu sama aðila og rekstarfélag hótelsins, ekki sanna að það félag hafi verið launagreiðandi og viðsemjandi konunnar. Ekkert liggi fyrir um að félagið hafi gefið út launseðla mánaðarlega og sent henni, en hún hefur neitað því.

Jafnframt er ekkert sem gefur til kynna að greiddur hafi verið tekjuskattur vegna launagreiðslna sem þó er dreginn frá á umræddum launaseðlum. Launaseðlarnir bera það og með sér að þeir hafi allir verið gefnir út sama dag eða 10. maí 2016, þegar vinnusambandinu var lokið. Engin gögn hafa verið lögð fram um skattgreiðslur af launum til stefnanda þótt samkvæmt öllum framlögðum seðlum sé gert ráð fyrir frádrætti á 36,2% tekjuskatti. Ekki er gert ráð fyrir persónuafslætti svo séð verði og ekki er getið fjölda vinnustunda hverju sinni eða einingaverðs.

Þá bendir dómurinn á að þrátt fyrir að eigandi félagsins hafi dregið í efa fjölda vinnustunda hafi engar athugasemdir verið gerðar við útreikning á launum konunnar. Er það því niðurstaða dómsins að fallist verði á launakröfu konunnar að frádregnum rúmlega 850 þúsund krónum, þar á meðal vegna úttekta úr Krambúðinni sem styðji meginniðurstöðu málsins um viðveru konunnar og aðkomu eigandans félagsins að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka