Brottfall meira hjá þeim fátækari

Getty Images

Fjárhagsstaða foreldra hefur áhrif á þátttöku íslenskra unglinga í íþróttum, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Ársæls Más Arnarssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Munurinn er 8% í 6. bekk en 17% í 10. bekk á milli þeirra sem álitu fjárhagsstöðu foreldra sinna vera góða og hinna sem álitu hana slæma. Alþjóðlegur samanburður er ekki Íslandi í hag að þessu leyti.

Ársæll hélt erindi um áhrif fjárhagsstöðu foreldra á íþróttaiðkun unglinga á nýafstaðinni Menntakviku, ráðstefnu um rannsóknir, nýbreytni og þróun í menntavísindum við Háskóla Íslands. Markmiðið var að skoða hvort fjárhagsstaða foreldra hefði áhrif á þátttöku íslenskra unglinga í íþróttum og kemst hann að því að hún hafi vissulega áhrif.

Skoðuð voru gögn úr rannsókninni „Heilsa og lífskjör skólabarna“ sem lögð var fyrir börn fædd árið 1998. Fyrri fyrirlögnin fór fram veturinn 2009-2010 þegar börnin voru í 6. bekk og sú seinni veturinn 2013-2014 þegar þau voru í 10. bekk. Í bæði skiptin voru þau beðin um að meta fjárhagsstöðu foreldra sinna og að segja hversu oft þau stunduðu íþróttir utan skólatíma.

Alls svöruðu 3.707 nemendur könnuninni þegar hún var gerð í 6. bekk en 3.618 þegar lagt var fyrir í 10. bekk.

Nánast sama hlutfall nemenda sem álitu fjárhagsstöðu foreldra „mjög góða“ eða „góða“ stundaði íþróttir fjórum sinnum eða oftar í viku í 10. bekk og hafði gert það í 6. bekk; 64,7% samanborið við 64,8%. Færri börn sem mátu fjárhagsstöðu foreldranna „mjög slæma“ eða „slæma“ stunduðu íþróttir svo oft í 6. bekk (59,7%) og þeim hafði fækkað enn frekar þegar komið var upp í 10. bekk (53,8%).

Munurinn er því 8% í 6. bekk en 17% í 10. bekk

Mikið brottfall á þessum aldri

„Það er vitað mál að það er mikið brottfall úr íþróttum á þessum aldri, frá 6. og upp í 10. bekk. Það í sjálfu sér er mjög áhugavert. Líka þessi pæling um gildi íþróttanna. Við höfum verið að tala mjög mikið fyrir því að krakkar séu í íþróttum. Við vitum að það hefur góð áhrif á fjöldann allan af þáttum, ekki bara líkamlega heilsu heldur líka félagslega stöðu og andlega líðan og allt það. En það sem mig hefur alltaf grunað í þeim pælingum er að við séum ekki að horfa á þetta alveg frá öllum hliðum, að það séu að veljast inn í íþróttirnar krakkar sem standa einfaldlega betur, hafa þéttara net í kringum sig, að fjölskyldan hreinlega standi betur,“ segir Ársæll og minnir á að umræðan um mikinn kostnað við íþróttaiðkun barna fari reglulega af stað.

„Hún kemur alltaf fram á haustin þegar fólk skráir krakkana sína í íþróttir og svo líka í kringum sumarnámskeiðin. Mér fannst kominn tími til að skoða þetta.“
Varðandi rannsókina sem niðurstaðan byggist á segir hann að öllum krökkum í 6., 8. og 10. bekk sé boðið að taka þátt og um 85% svari. „Þetta er eiginlega ekki úrtaksrannsókn, þetta er eiginlega bara þýðið allt. Til viðbótar er þetta framkvæmt á sama tíma í 44 löndum í Evrópu og Norður-Ameríku þannig að við höfum líka alþjóðlega samanburðinn,“ segir hann en í honum kemur Ísland ekki vel út.

Þriðju mestu áhrifin á Íslandi

„Við sjáum það þegar öll þessi gögn eru tekin saman og áhrif fjárhagsstöðu foreldra á íþróttaiðkun barna reiknuð út að þá erum við þar í þriðja sæti. Það eru þriðju mestu áhrifin hér, það eru bara Rússland og Pólland þar sem áhrifin eru meiri,“ segir hann.
Til samanburðar er Noregur í 12. sæti, Svíþjóð í 19. sæti og Danmörk í 23. sæti.
Áhrifin af fjárhagsstöðu foreldra aukast eftir því sem börnin eldast og eru mest í 10. bekk hérlendis.

Í fyrirlestri sínum á Menntakviku sagði Ársæll að íþróttaiðkun á unglingsárum hefði jákvæð áhrif á líkamlegt ástand, andlegan og félagslegan þroska. Hún yki ábyrga hegðun, námsárangur, trú á eigin getu og styrkti traust á samfélagið.

Ársæll er prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði. „Ég er nýkominn en ég er búinn að vera prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri í tíu ár. Ég hef verið allan þann tíma að skoða heilsu og lífsskilyrði barna og unglinga.“

Kostnaður meiri hér

Hvað getum við gert, erum við að rannsaka nóg á þessu sviði?

„Nei, þetta er klárlega ein af þessum breytum sem við þurfum að skoða betur. Við erum svolítið föst í því að það sé allt í fína lagi en tölurnar sýna annað. Þetta er eitthvað sem þarf að taka inn í reikninginn.

Það eru líka til einhverjar tölur sem sýna það að kostnaður við íþróttaiðkun sé meiri á Íslandi heldur en annars staðar. Það skýrist af þáttum eins og að við notum miklu meira af menntuðu fólki til þess að þjálfa, sem er gott. En þá verðum við að bregðast við því með því að gefa þessu aukið fjármagn ef við viljum hafa það þannig. Það er auðvitað mjög slæmt ef stéttaskipting á Íslandi fer að skila sér í heilsuleysi þeirra sem standa höllum fæti.“

Ársæll Már Arnarsson prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Ársæll Már Arnarsson prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert