Eva Sigurbjörnsdóttir fluttist búferlum ásamt fjölskyldu sinni frá Kópavogi á Djúpavík á Ströndum fyrir rúmlega þrjátíu árum. Þar settu hún eiginmaður hennar, Ásbjörn Þorgilsson, á laggirnar hótel. Hróður Hótel Djúpavíkur hefur farið víða síðustu ár og þangað sækja fjölmargir ferðamenn á hverju sumri. Reynt er nú að halda hótelinu opnu fram á vetur en vegna lélegra samgangna í Árneshreppi er ekki hægt að tryggja þar ferðaþjónustu allt árið. Skýringin er fyrst og fremst sú að í tæplega þrjá mánuði ár hvert er enginn snjómokstur frá Bjarnarfirði og að Gjögri. Djúpavík er einmitt á þessari leið og segja má að hluta árs sé hún innlyksa, gerist vitlaust veður.
Eva hefur í gegnum árin oftsinnis þrýst á Vegagerðina að úr þessu verði bætt. Stundum hafa unnist smásigrar en heildarmyndin hefur lítið breyst frá því að hún settist að í Djúpavík. Einhverjar vegabætur hafa orðið en lítið sem ekkert hefur þokast í snjómokstursmálunum. Á tímabilum hafa horfurnar verið til batnaðar en svo hefur allt farið í gamla farið. Til að bæta fyrir mokstursleysið er flogið á Gjögur tvisvar sinnum í viku þá mánuði sem ekkert er mokað. Það gagnast íbúum í Djúpavík hins vegar lítið ef ófært er þaðan og að flugvellinum. Aðeins er mokað frá Gjögri og inn í Norðurfjörð á þessu tímabili, meðal annars til að koma vörum í kaupfélagið sem þar er.
Hreppsnefnd Árneshrepps hefur í gegnum tíðina send óteljandi bréf, setið fjölmarga fundi með ráðamönnum og reynt með öllum öðrum tiltækum ráðum að fá úrbætur. En án teljandi árangurs.
Nú er það Eva sem situr í oddvitastólnum og tekur slaginn fyrir sveitunga sína. Hún segir að fjarskiptin í hreppnum hafi batnað mjög mikið á síðustu árum. Víðast sé gott síma- og netsamband. „En það er eiginlega eina framförin sem orðið hefur,“ segir Eva um uppbyggingu innviða Árneshrepps á þeim rúmlega þrjátíu árum sem hún hefur búið þar.
Vegurinn um Strandir er sum sé ekki mokaður frá 5. janúar til 20. mars. „Við getum fengið mokstur á þessu tímabili ef við, um 40 manna sveitarfélag, borgum helming kostnaðarins,“ segir Eva og hristir höfuðið. „Það ráðum við ekki við. Ég fékk svo þau svör frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga að ekki væru veitt framlög vegna snjómoksturs vega í dreifbýli. Þeir mega létta undir með stærri byggðarlögum en ekki okkur. Þannig er nú staðan. Við rekum okkur stanslaust á veggi.“
Í fyrrahaust var erlend kvikmynd, Justice League, tekin upp í Árneshreppi. Þá heflaði Vegagerðin veginn fyrir kvikmyndagerðarfólkið. „Það er því ýmislegt hægt ef það eru til peningar,“ segir Eva. „En þeir eru einfaldlega ekki til í svona litlu samfélagi.“
Fyrir hrun voru vegaframkvæmdir á Veiðileysuhálsi sunnan Djúpavíkur komnar á samgönguáætlun. Tugir milljóna höfðu verið áætlaðir til verksins. En ekki varð úr neinu. Á sama tíma var skorið niður í snjómokstri hjá Vegagerðinni. Það bitnaði verr á Árneshreppi en flestum öðrum sveitarfélögum.
En nú horfir til betri vegar, í bókstaflegri merkingu. Nýverið var vegurinn yfir Bjarnarfjarðarháls, milli Hólmavíkur og Bjarnarfjarðar, uppbyggður. Hins vegar er enn beðið eftir vegabótum um Veiðileysuháls. „Og nú eru þær loksins komnar á áætlun,“ segir Eva. 200 milljónir eru áætlaðar í verkið á næsta ári. „Við höfum beðið lengi og erum orðin mjög svo langeyg eftir þessum samgöngubótum.“
Eva segist jafnvel bjartsýn á að fá enn meira fjármagn til vegamálanna þar sem Árneshreppur sé nú kominn inn í verkefnið „brothættar byggðir“ með Byggðastofnun og Fjórðungssambandi Vestfjarða. „Það yrði algerlega óháð þessum fyrirhuguðu virkjanaframkvæmdum.“
Þessar fyrirhuguðu virkjanaframkvæmdir sem Eva nefnir eru Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Virkjunarkosturinn hefur í nokkur ár verið í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Hann hefur farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og tillit er tekið til hans í breytingatillögum að aðal- og deiliskipulagi hreppsins sem nú eru í umsagnarferli. Virkjunin var sett inn á skipulag hreppsins fyrir mörgum árum en breytingatillögurnar nú snúa að lagningu vegar úr Ófeigsfirði og upp á heiðina og að taka út íbúðarhús sem áður höfðu verið inni á skipulaginu í tengslum við fyrirhugaða virkjun. Setja á þar inn vinnubúðir í staðinn. Þá er einnig gerð grein fyrir staðsetningu efnisnáma vegna framkvæmdanna í tillögunum.
Athugasemdafrestur vegna skipulagsbreytinganna rennur út mánudaginn 16. október. Enn á svo eftir að ákveða hvernig og hvar virkjunin verður tengt við flutningskerfi raforku en sú hugmynd sem er nú oftast rædd er að leggja jarðstreng frá henni yfir Ófeigsfjarðarheiði og niður í Ísafjarðardjúp. Þaðan yrði rafmagnið svo flutt með nýrri línu yfir Kollafjarðarheiði og til Kollafjarðar og inn á Vesturlínu sem flytur rafmagn inn á Vestfirði.
Eva er fylgjandi virkjunaráformunum. Hún segir mikils misskilnings gæta í umræðunni um ákveðna þætti svo sem um að vegir frá Bjarnarfirði og til Norðurfjarðar verði bættir beinlínis vegna framkvæmdarinnar. „Þeir sem eru á móti Hvalárvirkjun halda að við séum hlynnt henni því við teljum betri veg fylgja henni,“ segir Eva. „Auðvitað viljum við fá betri veg og hver hreppsnefndin á fætur annarri hefur barist fyrir endurbótum á veginum. En það hefur bara ekkert gengið. Þess vegna segi ég: Það er því miður þannig að því meira sem er umleikis í hreppnum því meiri möguleiki verður á að fá einhverja peninga í framkvæmdir.“
Hvernig sérðu fyrir þér að virkjunin gæti haft áhrif á þetta?
„Ég er með bréf frá Vegagerðinni sem var lagt fram á málþingi um Hvalárvirkjun í sumar þar sem kom fram að því meira sem væri um að vera hérna fyrir norðan, því meiri þrýstingur væri á aukið fjármagn og meiri framkvæmdir af hálfu Vegagerðarinnar.“
Miðað við það sem á undan er gengið í vegamálum, ertu bjartsýn á að staðið verði við þetta?
„Já, ég er það, fyrst þetta er til á prenti,“ segir hún ákveðið.
Eva bendir á að virkjuninni muni fylgja betri vegur milli Trékyllisvíkur og Ófeigsfjarðar. Drög að samkomulagi liggi fyrir um það milli Vegagerðarinnar og framkvæmdaaðilans Vesturverks. Vesturverk mun samkvæmt þeim kosta lagningu hans og Vegagerðin svo taka við honum að framkvæmdatíma loknum. Svo mun verða lagður línuvegur um Ófeigsfjarðarheiði og inn í Ísafjarðardjúp. Þó að slíkt muni kannski ekki nýtast heimamönnum til að sækja sér þjónustu þá væri að sögn Evu með þessu komin á nokkurs konar hringtenging um hluta Stranda að sumri fyrir ferðamenn. Það myndi opna svæðið og ferðamönnum fjölga.
„Ég held að svona vegur yrði fullkomlega nógu góður til að nota á sumrin,“ segir Eva um þá gagnrýni að hann verði aðeins slóði og ófær mestan hluta ársins. „Og hann myndi opna nýjar víddir hérna norður á við.“
Ef það yrði tryggt að samgöngubætur kæmu alveg óháð virkjuninni, myndi það breyta afstöðu þinni til hennar?
„Nei, það myndi ekki gera það,“ svarar Eva. „Vegna þess að Vestfirðir í heild þurfa á þessu rafmagni að halda. Þetta er vistvænasta orka sem hægt er að fá. Það verður þá kannski hægt að hætta að keyra dísilvélar þegar það verður rafmagnslaust á veturna. Og þá gætum við fengið þriggja fasa rafmagn.“
Búið er að leggja strengi fyrir þriggja fasa rafmagn á talsvert mörgum stöðum í hreppnum þó sú lögn sé enn sem komið er ekki samfelld og því ekki enn nothæf. Orkubú Vestfjarða sér um þá framkvæmd. „Það er í pípunum að það komi betri orka hingað,“ segir Eva.
Hins vegar hefur Vesturverk boðist til að leggja hönd á plóg við þá uppbyggingu með því að tengja þriggja fasa rafmagn frá Hvalárvirkjun og inn í Norðurfjörð.
Þó ekkert sé frágengið í þeim efnum hefur Vesturverk boðist til að taka þátt í ýmsum fleiri samfélagsverkefnum í Árneshreppi ef af virkjun verður sem tengjast einnig innviðauppbyggingu. Bréf frá þeim með hugmyndum þar að lútandi hefur verið rætt í hreppsnefnd en engar ákvarðanir hafa enn verið teknar í því sambandi.
Fyrir utan rafmagnstenginguna við Hvalárvirkjun hefur Vesturverk boðist til að taka þátt í lagningu hitaveitu frá Krossnesi til Norðurfjarðar að því gefnu að hreppsnefndin nái samkomulagi þar um við landeigendur. „Þetta hljómar mjög spennandi,“ segir Eva. Hugmynd að hitaveitu hefur áður komið til tals í hreppnum en Eva segir að sveitarfélagið geti ekki staðið undir svo miklum kostnaði án stuðnings. „Ég veit ekki betur en að rætt hafi verið við landeigendur í Krossnesi og að þeir séu jákvæðir fyrir þessu.“
Eva hefur fyrir hönd hreppsins sótt um 3-4 milljóna króna styrk frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða undanfarin tvö ár. Hún fékk synjun í bæði skiptin. Fjármunina átti að nýta til að fegra og bæta umhverfið og aðstöðuna við höfnina á Norðurfirði en ferðamönnum fjölgar ár frá ári og slysahætta getur beinlínis skapast eins og ástandið er í dag. Vesturverk hafi nú boðist til að taka þátt í þeim framkvæmdum þar sem starfsmenn þess myndu nota höfnina á framkvæmdatíma virkjunarinnar.
„En við munum fara afskaplega varlega í öll svona mál,“ segir Eva um tilboð framkvæmdaaðilans. Hún segir það ekkert nýtt að fyrirtæki sem komi sér fyrir í sveitarfélögum taki þátt í samfélagsverkefnum á borð við þessi. „Þess vegna þætti okkur eðlilegt að það myndi gerast hér líka. En þetta kemur til með að skýrast allt og við munum skoða þetta vel og rækilega í hreppsnefndinni. Það er engin hætta á því að við hlaupum eitthvað á okkur.“
Þá hefur Vesturverk einnig lagt fram hugmynd um ljósleiðaratengingu í hreppinn frá Hvalárvirkjun.
„Við öll sem erum með einhverja þjónustu hér í sveitinni munum örugglega njóta einhvers góðs á þessum framkvæmdatíma,“ segir Eva spurð hvort að tryggt sé að heimamenn fái störf vegna framkvæmdanna. „Ef að það verða ráðnir útlendingar til verksins þá verða þeir að öllum líkindum með lögheimili hér í sveitinni þannig að þá fáum við útsvarið þeirra.“
Hún leggur áherslu á að hreppsnefndin fari sér að engu óðslega í málinu. „Við gerum ráð fyrir að öll verkefni sem við gætum fengið aðstoð við verði fest niður á blað, við treystum ekkert bara á einhver töluð orð í þessum efnum.“
En hvaða tekjur myndi Árneshreppur beinlínis hafa af virkjun eftir að hún tæki til starfa?
„Það eru fasteignaskattarnir,“ segir Eva. „Mér hefur verið sagt að þeir geti verið á milli tuttugu og þrjátíu milljónir á ári.“
Árneshreppur fær nú um 14-16 milljónir árlega úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ljóst er að sögn Evu að sú upphæð muni eitthvað lækka við þessa tekjuhækkun. „En þegar upp verður staðið þá munum við ekki tapa á þessu. Í svona litlu sveitarfélagi eru 20-30 milljónir á ári veruleg fjárhæð sem gæti skipt sköpum.“
Spurð hvort bættar samgöngur, þriggja fasa rafmagn, bætur á höfninni og fleira séu ekki hlutir sem sveitarfélög og ríki eigi að sjá til að séu til staðar, alveg óháð virkjun, svarar Eva: „Ja, ríkið getur nú ekki einu sinni séð um að hér séu vegir mokaðir tvisvar í viku yfir vetrarmánuðina. Þannig að þú sérð hvernig þetta er.“
Íbúum Árneshrepps hefur fækkað mikið undanfarin ár. Þar eru nú aðeins 46 með lögheimili. Mikil blóðtaka varð í hreppnum á síðasta ári er þrjár fjölskyldur fluttu burt.
Það var ægilegt áfall fyrir okkur að missa þetta fólk, þar af tvær ungar fjölskyldur. Bara hryllingur,“ segir Eva. „Við redduðum skólanum fyrir horn þá og nú erum við með samning við kennara fram til áramóta. Þannig er staðan að minnsta kosti núna. Mín skoðun er sú að ungt fólk, sem flutt hefur í burtu í gegnum tíðina, gæti mögulega komið aftur heim á æskustöðvarnar ef það fengi hér starf. Þá er ég að tala um á framkvæmdatíma virkjunarinnar. Það myndi svo kannski verða sá stökkpallur sem fólk gæti nýtt sér til að setjast hér að. Það er skortur á vinnuafli hér, sérstaklega á sumrin, einfaldlega af því að það eru ekki nógu margir búsettir hér lengur. En það er einmitt við svona aðstæður sem hægt er að gera sér einhverjar vonir um að það muni breytast.“
Í matsskýrslu á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar kom fram að virkjunin myndi hafa neikvæð áhrif á flesta þá þætti sem voru kannaðir. Svæðið sem fyrirhugað er að virkja er á óbyggðu víðerni sem nýtur ákveðinnar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Sömu sögu er að segja um sum vötnin á Ófeigsfjarðarheiðinni og fossa sem virkjunin mun hafa áhrif á. Samkvæmt lögunum skal ekki raska slíku nema að brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi.
„Í hjarta mínu er ég mikil umhverfisverndarsinni, bara svo það sé á hreinu,“ segir Eva. Hún segist til dæmis hafa tekið mjög nærri sér er fyrsta sprengingin var gerð vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hún telji enn að mörg mistök hafi verið gerð við þá framkvæmd. „Mér finnst því að maður þurfi að fara rosalega varlega og gera allt rétt og lögum og reglum samkvæmt.“
Finnst þér brýna nauðsyn bera til að virkja á þessu svæði?
„Já, mér finnst það,“ segir hún. „Vestfirðingar eru mjög aftarlega á merinni með rafmagn, það er ekki hægt að setja á stofn venjuleg fyrirtæki eins og ástandið er núna. Það er engin hringtenging hér sem sér okkur fyrir rafmagni ef það bilar einhvers staðar annars staðar. Mér finnst brýnt að það komist á svo að við getum gengið inn í nútímann með öðrum Íslendingum.“
Þú segist umhverfisverndarsinni. Skilur þú þau náttúruverndarsjónarmið sem eru uppi varðandi fyrirhugaða Hvalárvirkjun?
„Sumt skil ég vel, en annað finnst mér ganga út í öfgar. Það er ekki hægt að leggja Kárahnjúka og Hvalárvirkjun að jöfnu. Þetta er miklu minni virkjun í fyrsta lagi. Þar voru gerð ýmis mistök sem komu í ljós eftir á, til að mynda að veita Jöklu í Lagarfljót. Þar voru margir búnir að hafa hátt og það var allt til einskis. Þess vegna verður að vanda hér sérstaklega vel til verka og flýta sér hægt.“
Þó að íbúum hreppsins hafi fækkað eru að mati Evu ýmsir möguleikar til uppbyggingar á svæðinu til framtíðar. Ýmis tækifæri eru í ferðaþjónustu en slæmar samgöngur standi þeirri uppbyggingu fyrir þrifum. Til dæmis væri hægt að lengja ferðamannatímann fram á vetur, jafnvel allan ársins hring, ef bætt yrði þar úr. En á slík rök hlustar ríkið ekki þegar kemur að því að laga vegi og moka þá, segir Eva.
„Ég sé alveg fyrir mér að ferðaþjónusta eigi eftir að blómstra hér áfram um ókomna tíð. Ég held að Hvalárvirkjun eigi ekki eftir að hafa neikvæð áhrif þar á. Það hafði nú enginn komið þarna til að skoða þessa fossa fyrr en í sumar. Nú hefur verið stríður straumur af fólki þangað og það er í góðu lagi. En ég er alveg sannfærð um það að virkjunin verður lyftistöng.“
Þarna er engu að síður verið að skerða óbyggð víðerni sem eru sterkt aðdráttarafl ferðamanna hingað til lands.
„Þetta hefur aldrei verið aðdráttarafl fyrr en núna,“ segir Eva. „Þarna verða gerðar stíflur í þrjú vötn og þau stækkuð. Það verður ekki sprengt eitt einasta gljúfur. Fossarnir verða þarna áfram þó að þeir verði vatnsminni. En því má ekki gleyma að frá náttúrunnar hendi eru fossar ekki alltaf eins. Þeir breytast á milli árstíða og svo verður áfram þó að virkjað verði. Því má heldur ekki gleyma að náttúran græðir eigin sár, hún er góð í því. Það er því misskilningur að þarna verði ör í landinu um aldur og ævi.“
Umræða um virkjanir getur verið nokkuð harkaleg og Eva segist hafa fengið að finna fyrir því á eigin skinni. Hún hafi til að mynda verið kölluð „umhverfishryðjuverkamaður“ og sumir láti eins og hún hafi fundið upp Hvalárvirkjun. Á tímabili í sumar segist hún hafa átt erfitt með svefn. „Ég tók það svo nærri mér að talað væri svona um mig.“
Hvað áhrif á hið fámenna samfélag í Árneshreppi áhrærir segir Eva að fólk sem er ekki á sömu skoðun vinni enn saman og rífist ekki. „Við þurfum að halda friðinn til að geta séð fram úr raunum okkar. Því þær eru býsna margar,“ segir hún og nefnir sem dæmi rekstur kaupfélagsins í Norðurfirði, sem var tryggður á elleftu stundu nýverið, og framhald skólastarfs í Finnbogastaðaskóla.
Hreppsnefnd Árneshrepps mun hafa það hlutverk að gefa út framkvæmdaleyfi vegna virkjunarinnar og einnig vegna fyrirhugaðrar línulagnar yfir Ófeigsfjarðarheiði í landi sveitarfélagsins. Virkjunin hefur farið í gegnum umhverfismat en línulögnin ekki enda enn margt ófrágengið hvað hana snertir.
Spurð hvort hún vilji að farið verði að ráðleggingum Skipulagsstofnunar að afgreiða framkvæmdaleyfi virkjunarinnar og línulagnarinnar samtímis þegar matsskýrslur beggja framkvæmda liggi fyrir, bendir Eva á að í áliti Skipulagsstofnunar segi þetta orðað þannig að sú leið „sé æskileg“. „Við þurfum að vanda okkur sérstaklega vel og stíga varlega til jarðar í þessu máli. Ekki láta neina duttlunga stjórna okkur og gæta okkur á því að gera ekki neinar vitleysur.“
Hún segist ekki hafa fundið fyrir þrýstingi frá framkvæmdaaðilanum og þá hafi hreppsnefndin heldur ekki verið beitt þrýstingi til að hraða meðferð málsins.
Ákvarðanir um framhald málsins hvíla nú á Evu og öðrum í hreppsnefndinni. Næsta mál á dagskrá er að afgreiða breytingatillögur á skipulagi. Í kjölfarið taki við afgreiðsla framkvæmdaleyfa. Alls óvíst sé hvenær það verði. „Já, það er víst enginn sem mun taka þann kalek frá okkur,“ segir hún um ábyrgðina. Hún segist ekki munu skorast undan henni. „Það er stundum eins og margir haldi að við séum ekki með fullu viti hérna fyrir norðan, að aðrir þurfi að annast okkar mál og hafa vit fyrir okkur.“
Hreppsnefnd Árneshrepps sé hins vegar fullfær um að taka ákvörðun um þetta mál sem og önnur sem inn á hennar borð koma.
Er Hvalárvirkjun eingöngu málefni Árneshrepps eða allrar þjóðarinnar?
„Mér finnst þetta fyrst og fremst vera málefni Vestfjarða,“ svarar Eva. „Þaðan kemur mikill stuðningur við þessa virkjun. Fólk telur að með henni sé verið að stíga fyrsta skrefið til að bæta raforkumálin. Þannig að mér finnst fullkomlega eðlilegt að allir Vestfirðingar hafi skoðanir á þessu. Ég skil alveg að aðrir hafi skoðanir, en þegar fólk býr suður í Reykjavík í öryggi og hlýju þá getur það ekki alveg gert sér grein fyrir því hvað við búum við. Við höfum lent í því að vera rafmagnlaus í fimm sólarhringa yfir áramót. Það er eitthvað sem ég óska engum.“