Kólumbíski kokkurinn Jorge Muñoz tók nýverið við rekstri veitingastaðarins Strandar sem er mitt á milli Hellu og Hvolsvallar í Rangárvallasýslu.
Jorge er 31 árs og hefur búið á Íslandi síðan 2014. Kærasta hans er Írena Sif Kjartansdóttir og þau búa á Hvolsvelli. Jorge hefur unnið víða sem kokkur hér á landi en aðeins yfir sumartímann, enn sem komið er hefur hann ekki eytt vetri á Íslandi. „Veturinn er mjög erfiður fyrir mig, ég er ekki vanur kuldanum,“ segir Jorge og hlær. „Þetta verður fyrsti heili veturinn minn á Íslandi og ég er pínulítið hræddur við það en um leið spenntur.“
Jorge hóf að vinna sem kokkur í Kólumbíu en hefur aðallega unnið á Spáni en líka í Kína, Hollandi og Þýskalandi, bæði hjá fyrirtækjum og á fínum veitingastöðum.
„Síðasta vetur vann ég á lúxusskemmtiferðaskipi og veturinn þar áður var ég í tvo og hálfan mánuð hjá Quique Dacosta á Alicante á Spáni en sá staður er með þrjár Michelin-stjörnur,“ segir Jorge og kveður það hafa verið ótrúlega reynslu að vinna á slíkum stað. „Þar var unnið með ólíka tækni og alltaf fundin besta leiðin til að meðhöndla hráefnið. Ég lærði mikið þar, m.a. að það má ekki gera mistök. Það þarf allt að vera fullkomið því á Quique Dacosta hefur fólk bókað borð ár fram í tímann og það má ekki bíða í eitt ár eftir að borða þar og fá svo ekki fullkominn mat!“
Það er ekki nema von að Jorge sé metnaðarfullur því markmið hans er að Strönd verði besti veitingastaðurinn á svæðinu næsta sumar og ætlar hann að vinna að því markmiði í allan vetur.
Jorge hóf rekstur á Strönd fyrir um tveimur vikum og segir hann staðinn fara vel af stað, mikið sé bókað og fyrstu umsagnir hljómi vel. Veitingastaðurinn er opinn á kvöldmatartíma frá kl. 17:30 til 21:30 og með Jorge í eldhúsinu er Harry vinur hans, kokkur frá London.
„Það hefur verið ágætt að gera síðan við opnuðum og komið allt að sextíu manns á kvöldi, mest ferðamenn. Ég vona að þetta eigi eftir að ganga vel hjá okkur í vetur,“ segir Jorge og ljóst að það er ekki svo mikill beygur í honum fyrir komandi vetri.
Matseðillinn á Strönd er aðallega samsettur úr hráefni úr sveitinni en áður en Jorge setti hann saman skoðaði hann hvað væri í boði í nágrenninu af fersku hráefni sem hann gæti nálgast á hverjum degi. „Bændurnir, sjómennirnir og framleiðendurnir á svæðinu eru hetjurnar okkar. Þeirra vinna veitir okkur innblástur og við berum mikla virðingu fyrir vöru þeirra og gerum starf þeirra vonandi meira virði,“ segir Jorge. „Það er þeim að þakka að á Íslandi er hægt að fá gæðahráefni og var það ein aðalástæðan fyrir því að ég ákvað að opna veitingastaðinn.“
Á matseðlinum má meðal annars sjá hrossalundir, lambakjöt, nautakjöt, lax og silung. „Eina sem við erum ekki með er kjúklingur,“ segir Jorge og hlær. Hann segir ástæðuna fyrir því persónulega, hann sé ekki mjög hrifinn af kjúklingi.