Þeir sem eiga erindi í eyðifirðina norðan Trékyllisvíkur á Ströndum fara þangað fótgangandi eða aka vegslóða sem oft er aðeins fær stærri bílum. Trékyllisvíkin er því sá staður þar sem vegurinn endar í dag, svo vísað sé til titils endurminningabókar Hrafns Jökulssonar sem var í sveit í Árneshreppi sem barn og bjó þar um hríð á fullorðinsárum.
En nú er ráðgert að byggja upp veginn inn í Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð og einnig að leggja vegi um Ófeigsfjarðarheiðina. Þá stendur til að leggja línuveg yfir heiðina og ofan í Ísafjarðardjúp. Veglagningar þessar tengjast allar fyrirhugaðri Hvalárvirkjun.
Í tillögum að breytingum á aðalskipulagi Árneshrepps og deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun, sem er í auglýsingaferli til mánudagsins 16. október, er gert ráð fyrir vinnuvegum um fyrirhugað virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar.
Samkvæmt tillögunum sem Verkís vann fyrir framkvæmdaaðilann VesturVerk er gert ráð fyrir vegum frá Ófeigsfjarðarvegi í Ófeigsfirði sunnan Hvalár að Neðra-Hvalárvatni og þaðan að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og Rjúkanda hins vegar, samtals um 25 kílómetra. Um 600 metrum ofan Hvalárfoss er gert ráð fyrir að vegurinn liggi um brú yfir Hvalá. Brúin yrði einbreið stálbrú, um 22 metrar að lengd og tæplega sex metra breið í heild. Fjallað var um þessa veglagningu í mati á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar.Upphaflega stóð til að gera einnig tillögu að endurbótum á veginum frá Melum í Trékyllisvík, um Ingólfsfjörð og inn í Ófeigsfjörð í skipulagsbreytingunum nú en nauðsynlegt verður, ef til virkjunarframkvæmdar kemur, að byggja þann veg upp vegna þungaflutninga inn á svæðið. Einnig var gert ráð fyrir að lýsa betur tilhögun virkjunar en gert er í gildandi skipulagi, svo sem nákvæmari legu mannvirkja og lóna auk þess að breyta raflínu í jarðstreng yfir í Djúp.
Samkvæmt upplýsingum Vesturverks er ástæðan fyrir því að ákveðið var að skipta skipulagsbreytingunum í tvennt sú að afla þarf frekari gagna til að hægt sé að ljúka rannsóknum á svæðinu samkvæmt útgefnu rannsóknarleyfi, fyrir hönnun virkjunarinnar og gerð skipulagsins. Í áliti Skipulagsstofnunar á framkvæmdinni var kallað eftir frekari rannsóknum á fornleifum, vatnalífi og á fuglum en þeim rannsóknum lauk í sumar.
Skipulagsbreytingar í sveitarfélögum eru langt og flókið ferli. Þær þarf að auglýsa opinberlega í sex vikur og afgreiða svo í sveitarstjórnum. Að því loknu þarf að leita samþykkis Skipulagsstofnunar á breytingunum.
VesturVerk telur að vegurinn frá Trékyllisvík og inn í Ófeigsfjörð sé nægilega góður til að hægt sé að nota hann til að flytja rannsóknartæki, eða þungavinnuvélar eins og það er orðað í greinargerð með skipulagstillögunni, inn á svæðið. Ekki þurfi að ráðast í uppbyggingu hans strax.
Í greinargerð deiliskipulagsins segir um vinnuvegina um virkjunarsvæðið: „Gert er ráð fyrir að vegirnir verði 4 metra breiðir með útskotum til mætinga, malaryfirborði og almennt í um það bil 0,5 til 1 m hæð yfir flötu landi og hannaðir þannig að þeir geti borið umferð þungavinnuvéla á seinni stigum framkvæmda. Þó verður leitast við að halda vegaframkvæmdum í lágmarki á þessu stigi, þ.e. einungis þannig að nauðsynleg tæki komist að rannsóknarsvæðum. [...] Þar sem því verður viðkomið verður ekki um vegagerð að ræða, svo sem á flatlendi með góðum burði. Samhliða vegagerðinni verður hugað að frágangi svæðisins og öllu raski haldið í lágmarki. Áhersla verður einnig lögð á að raska ekki umhverfinu utan skilgreindra vinnuvega.“
Í tengslum við lagningu veganna þarf einnig að ráðast í efnisnám á svæðinu og gert er ráð fyrir staðsetningu náma í þeim tilgangi í skipulagstillögunum. Þá er ennfremur gert ráð fyrir starfsmannabúðum ofan Hvalár.
„Þetta verður lágmarksvegagerð og eingöngu til þess gerð að koma bor til bergrannsókna og aðföngum fyrir hann þarna upp,“ segir Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmastjóri VesturVerks. Hann segir það að sínu mati túlkunaratriði hvort vinnuvegir sem þessir skerði óbyggð víðerni, eins og þau eru skilgreind í náttúruverndarlögum. Bent hafi verið á að lögin séu nokkuð óljós hvað veglagningar varðar. Í þeim segi að uppbyggðir vegir skerði óbyggð víðerni en nákvæma skilgreiningu á uppbyggðum vegi vanti hins vegar.
Verði skipulagsbreytingarnar samþykktar mun Vesturverk sækja um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningunni til hreppsnefndarinnar. Verði það samþykkt er stefnt á að hefja lagningu veganna og rannsóknir er snjóa leysir næsta vor.
Vinna við seinni breytingu á skipulagsmálunum, þar sem gert verður ráð fyrir endurbótum á veginum inn í Ófeigsfjörð, nákvæmari legu virkjunarmannvirkja og rafstrengs þaðan í Ísafjarðardjúp, hefst fljótlega.