Fleiri leita til transteymis Landspítala

Það fæðast ekki allir í þeim líkama sem þeim líður …
Það fæðast ekki allir í þeim líkama sem þeim líður vel í. Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur transteymis Landspítalans, segir flesta þeirra sem leita til teymisins upplifa bætt lífsgæði og að þeir upplifi að líkami og sál passi nú betur saman. mbl.is/Jim Smart

Tveir einstaklingar leita að meðaltali til transteymis Landspítalans í hverjum mánuði og hefur nýgengi verið að aukast sl. 3-4 ár að sögn Elsu Báru Traustadóttur sálfræðings í transteyminu. „Það hefur verið aukning á heimsvísu,“ segir hún. „Við verðum vör við hana á þeim stöðum sem við höfum fylgst með í Evrópu og Bandaríkjunum.“

Elsa Bára segir aukninguna undanfarin ár hafa verið meiri hjá transmönnum, þ.e.a.s. einstaklingum sem fæðast líffræðilega sem konur, en hjá transkonum. „Þegar opinber umræða um þessi mál byrjaði var talið að hlutfallið væri ein líffræðileg kona á móti fjórum líffræðilegum körlum. Nú eru þetta hins vegar orðin nokkuð jöfn hlutföll,“ segir Elsa Bára.

Auðveldara að dyljast sem karlmannleg kona

Ástæða þess að transkarlar hafa verið seinni við að stíga fram sé væntanlega að auðveldara hafi verið að dyljast í samfélaginu sem karlmannleg kona en sem kvenlegur karl. „Það hefur ekkert verið viðurkennt að karlar megi ganga í pilsum, það þótti bara hlægilegt,“ segir Elsa Bára. „Það var hins vegar í lagi að kona væri í buxum og sumar konur gátu verið sterkar og óvenjulegar, en þær voru samt samþykktar.“

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur í transteymi Landspítalans, segir aukninguna undanfarin …
Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur í transteymi Landspítalans, segir aukninguna undanfarin ár hafa verið meiri hjá transmönnum, þ.e.a.s. einstaklingum sem fæðast líffræðilega sem konur, en hjá transkonum. Ljósmynd/Aðsend

Elsa Bára segir rúmlega 100 manns hafa leitað til transteymisins frá stofnun og í nýlegu viðtali við vefritið Gay Iceland sagði hún þörf fyrir aukið fjármagn og fleira starfsfólki.

Allir starfsmenn teymisins, sem samanstendur af geðlækni, sálfræðingi, félagsráðgjafa sérmenntuðum í fjölskyldumeðferð, tveimur innkirtlasérfræðingum og tveimur lýtalæknum, búa yfir góðri þekkingu á málaflokknum en sinna transteyminu þó sem hlutastarfi.

„Þetta er viðkvæmur málaflokkur, þannig að fólk verður að finna að það sé að hitta manneskju sem hefur einlægan áhuga. Áhugi skiptir vissulega máli í allri vinnu sálfræðinga, en við verðum að hafa fólk í teyminu sem virkilega brennur fyrir þessu,“ segir Elsa Bára og bætir við að vissulega væri æskilegt að fjölga í teyminu um einn sálfræðing og einn geðlækni.

Flestir þeirra sem til transteymisins leita koma þangað sjálfir. „Sumir hafa farið af stað sjálfir, eru vel upplýstir og öruggir með sig og eru jafnvel búnir að ganga undir öðru nafni í nokkurn tíma þegar þeir koma til okkar,“ segir Elsa Bára. „En svo kemur líka til okkar fólk sem óöruggt og er að þreifa fyrir sér og sem vill kannski ekki ana út í eitthvað sem það er mögulega sjálft ekki alveg öruggt um.“

Félagar úr Trans Ísland fengu Gleðigöngunni eitt árið. Transfólk hefur …
Félagar úr Trans Ísland fengu Gleðigöngunni eitt árið. Transfólk hefur upplifað margvíslega fordóma í gegnum tíðina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Markmiðið transteymisins er að staðfesta greiningu þeirra sem til þeirra leita, m.a. með því að skoða hvort viðkomandi sé heill á geði og ekki haldinn ranghugmyndum eða ofskynjunum. Fylgst er með því í a.m.k. hálft ár hvernig fólki gangi að aðlagast lífinu í nýju hlutverki áður en hormónameðferð er samþykkt og á því tímabili hittir einstaklingurinn geðlækni, sálfræðing, fjölskyldumeðferðarfræðing og talmeinafræðing teymisins.

Minnihluti fer í kynleiðréttingaaðgerð

Eftir það er hægt að hefja hormónameðferð. „Það er síðan eftir a.m.k. ár á hormónum sem hægt er að horfa til aðgerðar. Það tekur þó yfirleitt lengri tíma en flestir eru ekkert að flýta sér í þeim efnum,“ segir Elsa Bára.

Það fara heldur ekki allir sem leita til teymisins í kynleiðréttingaaðgerð og eru ýmsar ástæður fyrir því. „Sumir sem óska ekki eftir aðgerð eru með þannig kynama að þeir finna kannski mest fyrir því að vera með mikið af hárum á líkamanum og eiga þá t.d. erfitt með skeggvöxt, en kynfærin sem slík trufla þá ekki,“ segir hún. „Þeir eru þá að leita eftir hormónameðferð.“ Aðrir lýsi yfir áhuga á aðgerð en telji þær aðgerðir sem eru í boði í dag vera ófullnægjandi og þess vegna kjósa þeir að bíða og sjá hver framþróunin verður.

Transkonan og leikkonan Laverne Cox í gleðigöngu New York.
Transkonan og leikkonan Laverne Cox í gleðigöngu New York. AFP

Nánast allir transmenn fara hins vegar í brjóstnám, þó að lítill minnihluti transfólks fari í neðri aðgerð enn sem komið er. Í kringum 4-6 slíkar aðgerðir eru gerðar hér á landi ár hvert og kemur Hannes Sigurjónsson, skurðlæknir á Karólínska sjúkrahúsinu, til landsins tvisvar á ári til að framkvæma þær. 

Flestir vilja í hormónameðferð

Nánast allir sem leita til transteymisins vilja hins vegar fá hormónameðferð eða um 95-100% þeirra sem þangað koma. „Einhverjir fara á hormónameðferð en þola hana illa, en það eru þó sárafá dæmi um slíkt,“ segir Elsa Bára.

Flestir transmenn kjósa að fara í brjóstnám að sögn Elsu …
Flestir transmenn kjósa að fara í brjóstnám að sögn Elsu Báru. Mun færra transfólk fer hins vegar í neðri aðgerð. mbl.is/Golli

Mikill meirihluti þeirra sem til teymisins leita er hins vegar transfólk sem fær þá þjónustu sem það þarf að fá. „Ég leyfi mér að fullyrða að það sé í algjörum undantekningatilvikum sem fólk leiti til okkar og það sé ekkert í boði fyrir það,“ segir hún. Það komi þó fyrir að til þeirra leiti einstaklingar með alvarlega geðsjúkdóma og þar sem að það að vera trans virðist ekki vera viðvarandi ástand. „Það er þó mjög sjaldgæft,“ segir Elsa Bára.

„Fyrir flesta þýðir þetta bætt lífsgæði og í langflestum tilvikum þá líður fólki betur og upplifir sig meira í samræmi við sjálft sig – að líkami og sál passa betur saman. Það upplifir ekki lengur þetta misræmi og vanlíðanina sem stafar af því.“

Transfólk safnaðast saman fyrir utan Hvíta húsið í Washington til …
Transfólk safnaðast saman fyrir utan Hvíta húsið í Washington til að vekja athygli á málsstað sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert