„Ofbeldi og önnur áföll sem konur verða fyrir hafa mikil áhrif á heilsfar þeirra. Ofbeldi bæði kynferðislegt og líkamlegt í garð kvenna er því miður algengt,“ segir Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Þetta kom fram í erindi hennar, Ögurstundir heilsufars, sem hún hélt á opnum fræðslufundi um konur og heilbrigði, sem Íslensk erfðagreining stóð fyrir í gær. Fræðslufundurinn var haldinn í tilefni aldarafmælis Bandalags kvenna í Reykjavík og fram fór í sal Íslenskrar erfðagreiningar.
Ofbeldi og hvers kyns áföll sem fólk verður fyrir mætti líkja við upphaf keðjuverkandi áhrifa sem verka á heilsu þeirra. Þeir einstaklingar sem verða fyrir ofbeldi eiga í stóraukinni hættu á að þróa með sér geðræna og líkamlega sjúkdóma. Þeir eru í stóraukinni hættu á að þjást af einkennum áfallastreituröskunar og annarra geðsjúkdóma. Slík streita hefur áhrif á líkamsstarfsemina og gerir einstaklingana móttækilegri fyrir ýmsum sjúkdómum á borð við hjarta-, æða- og sjálfsofnæmissjúkdóma. Unnur vísaði bæði i erlendar og innlendar rannsóknir á hvernig sálrænt álag og áföll hafa áhrif á heilsu og sjúkdómsþróun.
„Ástæðan fyrir því að ég vel að dýpka umræðuna um konur og ofbeldi er sú að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur lýst því yfir að ofbeldi gegn konum sé ein megináskorun samtímans en talið er aðum þriðjungur kvenna verður fyrir ofbeldisverknaði einhvern tíma á lífsleiðinni,“ segir Unnur Anna. Hún bendir á að það vanti fleiri rannsóknir hér á landi á áhrifum ofbeldis og áfalla á heilsufar kvenna. Þær fáu rannsóknir sem eru til hér á landi ríma þó vel við þessar niðurstöður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
„Þar sem þetta er svo algengt og hefur víðtæk áhrif vegur ofbeldi þungt í heilsufari kvenna,“ segir Unnur Anna. Á síðustu árum hefur hún beint rannsóknum sínum í auknum mæli að áhrifum ofbeldis í garð kvenna á heilsu og sjúkdómsþróun. „Á síðustu árum hef ég vaknað upp eins og allir aðrir Íslendingar til vitundar um hvað þetta er algengt og falið vandamál í okkar samfélagi.“
Á síðustu tæpum tveimur áratugum hefur hún einnig rannsakað áhrif hvers kyns áfalla á heilsu fólks eins og t.d. ástvinamissi, greining lífshættulegs sjúkdóms og náttúruhamfara. Ferill heilsufars er áþekkur í öllum þessum áföllum.
Næsta vor stýrir Unnu Anna stærstu rannsókn sem hefur verið gerð á íslenskum konum og ber vinnutitilinn „Áfallasaga íslenskra kvenna“. „Við munu spyrja spurninga um áfalla- og ofbeldissögu og getum þar með kortlagt þessi vandamálið í samfélaginu og hvaða afleiðingar það hefur á heilsufar,“ segir Unnur Anna. Allar þær rúmlega 100 þúsund íslenskar konur á aldrinum 18 til 70 ára munu fá boð um að taka þátt í rannsókninni.
Fyrstu niðurstöður, t.d. um algengi áfallaog ofbeldis er að vænta síðla sumars eða á haustmánuðum 2018. Hér skiptir miklu máli að fá góða þátttöku allra kvenna, óháð áfallasögu.Það mun þó taka lengri tíma áður en dýpri greining á niðurstöðunum birtist. Rannsóknin er þverfagleg og ýmsir rannsakendur við Háskóla Íslands sem og aðrar stofnanir utan hans munu taka þátt í henni.
Hún segir sárlega skorta rannsóknir á þessu sviði. Miðað við hversu mikil heilsufarsvá þetta er þá er afar mikilvægt að reglulega sé fylgst með algengi áfalla og ofbeldis eins og gert er með tíðni reykinga og á holdafari svo dæmi séu tekin. Í þessu samhengi bendir hún á ábyrgð stjórnvalda sé að hafa reglulegt eftirlit með þessum þáttum því þetta er mjög sterkur áhættuþáttur heilsubrests. „Þessi hitamælir þarf að vera í gangi því annars skiljum við ekki hvort þær íhlutanir sem stjórnvöld fara út í í þessum málaflokki skili árangri,“ segir hún.
Þrátt fyrir skort á rannsóknum á þessu málefni tekur Unnur Anna fram að á síðustu árum virðist samfélagið vera að vakna til vitundar um mikilvægi þessara málefna. Það eigi jafnt við þá sem rannsaka málefnið sem og almenna umræðum meðal almennings í landinu.