„Eigum að spyrna mjög sterkt við fótum“

„Mér finnst að við eigum að spyrna mjög sterkt við …
„Mér finnst að við eigum að spyrna mjög sterkt við fótum,“ segir Andri Snær Magnason rithöfundur um stóriðjustefnuna sem sé ekki eins arðsöm og haldið sé fram. „Við skulum einfaldlega hugsa þetta dæmi upp á nýtt.“ mbl.is/Golli

Á síðustu árum hefur verið byggð upp mikil stóriðja á Íslandi. Ein birtingarmynd hennar að mati Andra Snæs Magnasonar rithöfundar er staða slíkra verkefna í Helguvík í Reykjanesbæ. „Þar sjáum við núna óklárað álver og kísilver að hruni komið útaf fúski. Hvar í hinum vestræna heimi eru tvö svona mannvirki á sama stað?“ segir Andri Snær sem hefur í um tvo áratugi barist fyrir náttúruvernd og gegn uppbyggingu stóriðju hér á landi.

Hann segir ábyrgðina á stóriðjustefnunni ekki aðeins liggja hjá stjórnvöldum landsins því sveitarfélög vítt og breitt um landið hafi það hlutverk að samþykkja breytingar á skipulagi vegna fyrirhugaðra virkjana og stóriðjufyrirtækja og gefa svo út leyfi svo framkvæmdir geti hafist. Ábyrgðin liggur einnig hjá þeim sem fjárfesta í slíkum verkefnum. „Fjárfestar fara fyrir þessum stóriðjuverkefnum, oft að því að virðist án þess að hafa sérþekkingu á þeim iðnaði sem um ræðir. Þeir ýta verkefnum úr vör og glata milljörðum eins og reyndin var í Helguvík.“

Síðan hafi Landsnet, sem sér um að dreifa rafmagninu og leggja raflínur, sína eigin stefnu sem byggi á verkfræðilegri sýn á flutningskerfið. „Í raun með því að búa til færiband í kringum Ísland. Inn á þetta færiband á svo að flytja orkuna sem fæst úr eins mörgum fossum og flúðum og mögulegt er.“

Þannig hjálpist margt að við að byggja upp stóriðjuna sem þarf mikla orku til sinnar starfsemi og kallar stöðugt á meiri framleiðslu rafmagns í virkjunum.

Hann segir að nýtt upphaf stóriðjustefnunnar hafi hafist árið 1997, þó að fyrirtæki á borð við álverið í Straumsvík hafi þá þegar tekið til starfa. Árið 1996 var beinlínis auglýst að hvergi í heiminum væri hægt að fá ódýrari raforku en á Íslandi. Það var gert til að lokka hingað fyrirtæki í þungaiðnaði á sama tíma og umhverfisreglur og eftirlitsstofnanir voru sagðar veikar.

Kerfisbundinn óheiðarleiki

Andri Snær segir að því miður megi allt of oft sjá það sem kalla mætti „kerfisbundinn óheiðarleika.“ Að Íslendingar veigri sér upp til hópa við að setja sig inn í tölulegar stærðir og setja þær í samhengi. „Þegar ég fór að sökkva mér ofan í þetta fyrir um fimmtán árum þá fannst mér menn vera komnir langt framúr sér í þessum efnum og búnir að ýkja óhóflega þá orku sem Ísland gæti framleitt með tilheyrandi raski í okkar fegurstu náttúruperlum og lokaniðurstaðan yrði samfélag sem ég held að margir Íslendingar væru alls ekki sáttir við.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

 „Kerfisbundni óheiðarleikinn“ felst að mati Andra Snæs í því að fólki sé talin trú um að verksmiðjan verði lítil, eða virkjunin verði bara ein en að verkefnið hangi ekki saman við heilt virkjanakerfi. „Verksmiðja er sögð eiga að framleiða 90 þúsund tonn en ef maður kynnir sér málið þarf hún að framleiða 350 þúsund tonn til að vera samkeppnisfær. Ef maður vill þá ræða heildarmyndina er maður sakaður um samsæriskenningar. Þetta er eins og einhver segist ætla að kaupa sér leigubíl en að það verði bara eitt sæti í honum. Í því tilfelli er öllum augljós vitleysan en menn virðast því miður treysta á blindu almennings þegar kemur að megavöttum, raflínum og verksmiðjustærðum.“

Þessi leikur hafi til dæmis verið leikinn varðandi kísilverin. Fyrirtækin byrja á því að tryggja rafmagn á einn ofn þegar alveg er ljóst að verksmiðjan er hönnuð fyrir fjóra. Orkan er til á þennan eina ofn en þegar verksmiðjan stækkar þarf að virkja til að útvega viðbótarrafmagnið. Andri grípur til annarrar myndlíkingar: „Þetta er eins og  verið sé að byggja hús við hliðina á þínu sem kynnt er sem tveggja hæða en það eru tíu hæðir merktar á dyrabjöllunum og á lyftunni.“

Tugmilljarða tjón

Að mati Andra hefur þessi skortur á faglegu skipulagi valdið tugmilljarða tjóni. „Af hverju ættum við, þessi fámenna þjóð, að byggja stærsta kísilver í heimi og svo enn stærra kísilver sem verður þá það langstærsta í heimi nánast ofan í byggð? Hvaða þekkingu höfum við á þessum iðnaði? Hver er langtímareynslan af rekstri kísilvera? Er einfaldlega farið af stað af því að einhverjir fjárfestar geta hóstað upp milljörðum og menn telja sig þurfa að virkja í flýti?“

Öll þessi stórverkefni skapa síðan eilífan skort og þörf fyrir nýja orku. „Raforkukerfið verður einskonar hít þar sem þarf endalaust nýjar virkjanir. Einkaaðilar fara af stað og vilja virkja ár í sveitunum eins og er að sýna sig við Svartá, þar sem fjölskrúðugt og einstakt fuglalíf, og Hvalá á Ströndum, þar sem víðernin og fossarnir eru einstakir.“

Andri Snær segir að Landsnet sé í raun að búa …
Andri Snær segir að Landsnet sé í raun að búa til færiband í kringum Ísland. „Inn á þetta færiband á svo að flytja orkuna sem fæst úr eins mörgum fossum og flúðum og mögulegt er.“ mbl.is/Golli

Afl íslenskra virkjana er samtals um 2000 MW. Um 80% orkunnar sem er framleidd fer í rekstur stórnotenda, þ.e. örfárra fyrirtækja, uppbyggingin á dreifikerfinu virðist þjóna þeim fyrst og fremst en allur almenningur greiðir fyrir það. „Síðan er verið að tala um orkuskort og að á Vestfjörðum búi fólk við ótryggt rafmagn. Hvernig getur það verið, í landi þar sem svo mikið rafmagn er framleitt, að ákveðnir landshlutar hafi mætt afgangi? Af hverju er ekki löngu búið að tryggja það að allir hafi jafnan aðgang að rafmagni? Getur verið að stóriðjan hafi blindað menn, að þeim finnist engin stórmennska í því að byggja tryggt orkukerfi fyrir nokkur þúsund manns? Er eðlilegt að í landi sem framleiðir 2000 MW sé heilum landshluta ætlað að verða hagstæð hliðaráhrif af orkuþörf kísilvers?“

Þarna vanti forgangsröðun og hún sé á ábyrgð stjórnvalda og samfélagsins í heild.  „Ef það vantar nokkur megavött vestur þá eigum við að koma þeim þangað, ekki setja þar upp virkjun til að flytja álíka magn frá svæðinu til að tryggja orku inn á kerfi einkafyrirtækisins HS Orku.“

Offjárfestingar á sumum svæðum

Hann spyr af hverju orkufyrirtækin hafi ekki sýnt áhuga á því að dreifa rafmagni svo sómi sé að um Vestfirði. „Af hverju mæta Vestfirðir afgangi og þar slær út? Af hverju er á sama tíma verið að offjárfesta í mannvirkjum fyrir stóriðjufyrirtæki á Suðurnesjum og við Húsavík?“

Hann tekur Bakka við Húsavík sem annað dæmi. „Það er ljóst að kísilverið greiðir ekki kostnaðinn við línulagnirnar í fyrsta áfanga. Það er almenningur sem greiðir hann. Sem og kostnaðinn við jarðgöngin sem verið er að gera.“ Þessi kostnaður hlaupi á milljörðum.

En hvernig er hægt að tryggja raforkuöryggi Vestfjarða án þess að fara í stórar virkjanaframkvæmdir í fjórðungnum? Andri segir að land sem íhugi sæstreng til Bretlands hljóti að geta boðið upp á margar lausnir, hvort sem það eru nokkrar smærri virkjanir eða tenging við landsnetið eða einfaldlega styrking á núverandi dreifikerfi.

Fjarðaál skuldsett upp í topp

Andri setur líka spurningamerki við litla arðsemi orkufyrirtækja. Ívilnanir vegna fyrirtækjanna og „bókhaldsbrellur þeirra“ hafi sett og setji enn strik í þann reikning. Miðað við orkuframleiðsluna ætti ágoði orkuframleiðenda að skipta tugum milljarða á ári. Þannig er það hins vegar ekki. Andri tekur dæmi af Alcoa Fjarðaáli sem sé alltaf skuldsett upp í topp af móðurfélaginu þrátt fyrir að vera ein arðbærasta eining Alcoa á heimsvísu. Það skilar því tapi á hverju ári og þá myndast ekki tekjuskattsstofn og íslenskt samfélag verður af milljörðum árlega. Það sem hefði verið hagnaður fyrirtækisins og myndað tekjuskattsstofninn hverfur úr landi í formi vaxtagreiðslna. 

„Það eru sjálfsögð mannréttindi íbúa Árneshrepps að fá samgöngubætur,“ segir …
„Það eru sjálfsögð mannréttindi íbúa Árneshrepps að fá samgöngubætur,“ segir Andri. „Þeir eiga ekki að þurfa að fá þær gegn því að víðerni þeirra séu virkjuð.“ mbl.is/Golli

 Orkufyrirtækin, sem flest eru í eigu ríkis og sveitarfélaga, ættu að vera það arðbær að þau geti staðið undir kostnaði við uppbyggingu innviða og velferðarþjónustunnar. Stóriðjufyrirtækin ættu sömuleiðis að skila góðum hagnaði og gera rétt upp við íslenskt samfélag. „Í staðinn er staðan sú að þjóðin þiggur þá brauðmola sem falla af borðum stóriðjustefnunnar.“

Í hvert skipti sem hugmynd um stóriðjufyrirtæki eru kynntar fylgir sögunni hversu mörg störf muni skapast, „en á sama tíma hafa framfarir í iðnaði gengið út á að fækka störfum,“ segir Andri. Þróunin verður sú að álfyrirtækin og fleiri stóriðjuver munu fækka stöðugildum til að auka hagkvæmni.

„Þetta er blekking að þetta sé það sem skapar uppistöðuna í atvinnulífi á landinu,“ segir Andri. „Ef stóriðjuverum yrði lokað einu á fætur öðru á næstu árum og áratugum yrði það högg fyrir okkur en það myndi ekki ráða úrslitum um hvort við eigum hér áfram bjarta framtíð.“

Eins og bensínstöð

Áherslan á störfin beini athyglinni frá hinum raunverulegu hagsmunum sem er arðurinn af auðlindinni og skatturinn sem fyrirtækin ættu að greiða. Allt eru þetta stærðir sem ættu að yfirgnæfa störfin. „Eigandi verksmiðjunnar vill að við hugsum um fjölda starfa þegar hinir raunverulegu þjóðarhagsmunir eru fólgnir í orkuverinu sem framleiðir rafmagnið,“ segir Andri. „Við getum hugsað þetta eins og bensínstöð. Við gefum bensínið af því að okkur er svo umhugað um að sá sem dælir því hafi vinnu. Þar erum við að horfa fram hjá að hin raunverulega auðlind er ekki fólgin í störfunum. En stóriðjustefnan hefur hindrað okkur í því að sjá önnur tækifæri og lausnir.“

Fjallasýn ofan af Ófeigsfjarðarheiði á Ströndum.
Fjallasýn ofan af Ófeigsfjarðarheiði á Ströndum. mbl.is/Golli

Tekjur sveitarfélaga af virkjunum eru oft litlar í samanburði við þá fórn sem er færð. Á þessu virðist HS Orka, sem á meirihluta í VesturVerki sem hyggst reisa Hvalárvirkjun, hafa áttað sig og því boðið Árneshreppi, þar sem innan við fimmtíu manns eru með lögheimili, ákveðnar bætur í formi innviðauppbyggingar. Rætt hefur verið um veglagningu, ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn.

„Það eru sjálfsögð mannréttindi íbúa Árneshrepps að fá samgöngubætur,“ segir Andri. „Þeir eiga ekki að þurfa að fá þær gegn því að víðerni þeirra séu virkjuð. Til að efla mannlíf og samfélag eru til aðrar leiðir en að virkja til að búa til störf sem svo eru aðeins tímabundin rétt á meðan framkvæmdatímanum stendur.“

Þjóðgarður á Ströndum

Hann segir að í ferðaþjónustunni felist tækifæri ef vilji sé til að nýta þau. „Á Snæfellsnesi telja menn þjóðgarðinn ígildi tveggja skuttogara, á Suðausturlandi segja menn að Vatnajökulsþjóðgarður sé eins og bryggja sem ferðaþjónustan getur gert út frá. Þjóðgarður á Ströndum er ekki fráleit hugmynd, en víða á Skotlandi eru þjóðgarðar í sambýli við beit og búsetu. Menn gætu líka horft á hvað er verið að gera í Skálanesi við Seyðisfjörð. Ystu byggðir landsins eru kjörlendi fyrir rannsóknir. Það eru þúsundir manna að læra náttúruvísindi um allan heim. Og með samstarfi við alþjóðlegar stofnanir væri hægt að byggja slíkt upp, auk þess sem allar rannsóknir styrkja og dýpka ferðaþjónustuna.“

Andri segir að vilji sé fyrir hendi til að nýta ferðaþjónustuna sem tæki til að halda jaðarsvæðum í byggð þá séu fjölmörg tækifæri til þess. Síðustu ár hefur ferðaþjónusta og útivist sem byggir á náttúrunni, kyrrð hennar og fegurð, verið að sækja í sig veðrið. „Fólk sækir sér orku í náttúruna og hefur lengi gert. Núna er stundum látið eins og þetta sé eitthvað nýtt fyrirbæri sem aðeins fáir borgarbúar, þeirra á meðal einn læknir, séu með á heilanum.“

Fjarlægðin, fjallabláminn

Í þessu sambandi rifjar Andri Snær upp magnaða náttúrulýsingu Helga Valtýssonar í bókinni Á hreindýraslóð sem kom út árið 1942. Helgi Dvaldi á Kringilsárrana árið 1939 við rannsóknir „og textinn er einn skrúðugasti náttúrutexti sem til er,“ segir Andri.

Fjarlægðin, fjallabláminn, jökulbungan mikla, reginniður kyrrðarinnar. Allt þetta speglast og endurómar undir hvolfþökum sálar þinnar, sem spanna himin og jörð, allt sjónarsvið anda þíns. Og sjálfur rennur þú sem söngklökkur, ómandi strengur inn í þagnarþrungna geimvídd Guðs og verður eitt með henni.“

Helgi var fæddur árið 1877, hann var rúmlega fertugur frostaveturinn mikla. Þessi fjallamanía er ekkert nýtt fyrirbæri. „Ég myndi frekar segja að þetta sé eitthvað sem ákveðin kynslóð glataði.“

Að mati Andra náði stóriðjustefnan hámarki árið 2006 þegar hugmyndir voru uppi um fimm álver og áformað var meðal annars að virkja Langasjó, Þjórsárver og Aldeyjarfoss. „Það var eiginlega enginn staður á landinu sem var óhultur. Og fyrir þá sem líður eins og Helga Valtýssyni leið upp á fjallinu þá var þetta eins og einhver væri að ganga um Þjóðminjasafnið með sleggju.“

„Raforkukerfið verður einskonar hít þar sem þarf endalaust nýjar virkjanir,“ …
„Raforkukerfið verður einskonar hít þar sem þarf endalaust nýjar virkjanir,“ segir Andri Snær um stóriðjustefnuna. „Einkaaðilar fara af stað og vilja virkja ár í sveitunum eins og er að sýna sig við Svartá, þar sem fjölskrúðugt og einstakt fuglalíf, og Hvalá á Ströndum, þar sem víðernin og fossarnir eru einstakir.“ mbl.is/Golli

Að taka þátt í stóriðju heimsins að einhverju leyti er gott og gilt, segir Andri. En eitthvað er vitlaust reiknað hjá okkur. Ef stóriðjan fær 80% af raforkunni og orkufyrirtækin skila litlum hagnaði, „þá höfum við hugsað þetta reikningsdæmi alveg bandvitlaust.“

Á þessari vegferð hafi margt farið úrskeiðis. Síðustu misseri hafa dæmin verið mörg og sláandi: „Menn hafa farið of geyst og gengið allt of nærri háhitasvæðum á Reykjanesi og Hellisheiði. Álverið og kísilverið í Helguvík eru strand, milljarðarnir sem settir eru í jarðgöng og raflínur fyrir kísilverið á Bakka enn eitt dæmið og síðan hefur komið á daginn að menn ætla að brenna 400 þúsund tonnum af kolum til að keyra þessar verksmiðjur,“ segir Andri Snær.

 „Mér finnst að við eigum að spyrna mjög sterkt við fótum. Við getum stofnað þjóðgarð á Ströndum og einbeitt okkur að augljósasta virkjunarkostinum sem felst í því að láta Alcoa borga skatta og gera kröfur um að orkufyrirtækin skili beinum hagnaði. Einfaldlega hugsa þetta dæmi upp á nýtt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert