Orka býr í öllum hlutum, ekki aðeins í sól, vindi, vatni og jörð, helstu orkuuppsprettum nútímans. Nýsköpun og þróun í tækni til öflunar hennar hefur tekið flugið víða um heim. Á Íslandi er það kraftur vatnsfalla og jarðhita sem helst hefur verið beislaður og fjöldi frekari virkjanahugmynda er nú í undirbúningi. En komið er að ákveðnum vatnaskilum. Fleiri stoðum hefur verið skotið undir efnahaginn en áður og staðan „knýr ekki á um að virkja þurfi allt sem rennur og kraumar,“ eins og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, orðar það. Hann segir að það liggi ekkert á.
Samanlögð aflgeta virkjanahugmynda sem þegar eru í orkunýtingarflokki áætlunar um vernd og nýtingu landsvæða, svonefndrar rammaáætlunar, er 764 megavött (MW). Í nýlegri þingsályktunartillögu er lagt til að í þann flokk fari átta kostir til viðbótar með samtals 657 MW aflgetu. Til samanburðar er langstærsta vatnsaflsvirkjun landsins, Kárahnjúkavirkjun, 690 MW að afli.
Að auki hefur Orkustofnun á síðustu misserum gefið út fjölda rannsóknarleyfa fyrir vatnsaflsvirkjanahugmyndir undir 10 MW. Slíkum smávirkjunum hefur fjölgað á síðustu árum. Það er engin tilviljun.
Þrennt skýrir aðallega þessa þróun þó fleira komi til.
Í fyrsta lagi hefur í gegnum tíðina almennt séð verið meiri andstaða við stærri virkjanir en minni. Í öðru lagi þurfa smávirkjanir ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar og í þriðja lagi er ekki víst að þær þurfi að fara í umhverfismat þó þær séu ávallt tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar sem ákveður hvort þær skuli háðar slíku mati.
„Þetta snýst um það sem mér hefur orðið tíðrætt um og það eru leikreglur lýðræðisins,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, um fjölgun smærri vatnsaflsvirkjana. „Það eru lög og reglugerðir sem fara verður eftir og þetta snýst um að uppfylla þau. Leyfisveitingarferlin fyrir virkjanir eru orðin löng, tímafrek, kostnaðarsöm og flókin.“
Margar smávirkjanir eru rétt undir 10 MW og á svæðum þar sem vel væri hægt að afla meiri orku ef virkjun yrði reist á annað borð. Fyrirhuguð virkjun í Svartá í Bárðardal er til dæmis 9,8 MW, virkjun í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi 9,3 MW og Brúarvirkjun í Bláskógabyggð 9,9 MW.
Ljóst er að það geta verið samlegðaráhrif milli virkjunarkosta sem eru til umfjöllunar á vettvangi rammaáætlunar og smávirkjana. Þannig gæti því verið farið varðandi fyrirhugaða Svartárvirkjun og Hrafnabjargavirkjun í Skjálfandafljóti, svo dæmi sé tekið.
Greinin heldur áfram fyrir neðan myndina.
Því þó svo að vatnsaflsvirkjanir séu smáar að afli geta þær haft umtalsverð og jafnvel mikil og óafturkræf umhverfisáhrif og hafa sumar þeirra af þeim sökum mætt kraftmikilli andstöðu í heimabyggð. Þannig er því til að mynda farið varðandi Svartárvirkjun þar sem fólk óttast meðal annars áhrifin á fjölskrúðugt og einstakt lífríki.
Sömu sögu er að segja um fyrirhugaða virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu. Íbúar og unnendur Skaftárhrepps, Eldsveitanna svokölluðu, gagnrýna margir harðlega þau áform og telja þau „fásinnu“ eins og Ingibjörg Eiríksdóttir, formaður Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi, orðar það. Hún minnir á að Hverfisfljót rennur í gegnum Skaftáreldahraun sem rann á árunum 1783-84. „Yngsta árgljúfur heims, með sína stórmögnuðu fossaröð, er ekkert sem á að krukka í.“
Hún lýsir náttúrufari Skaftárhrepps með þessum orðum: Endalausar mosabreiður yfir úfinn hraunkraga, eldfjöll með jökulhettum, kolgráar ár og sandbreiður. Verði virkjunin að veruleika yrði höggvið óbætanlegt sár í þessa heild. „Ég hef stundum líkt þessu við það að búa í konfektkassa; sitja ofan í einu hólfinu og sjá ekki uppúr. Gersemarnar eru allt í kring en hversu einstæðar þær eru á heimsvísu er sumum því miður óljóst.“
Ingibjörg segir að Ingibjörg segir að áform sem þessi hafi mikil áhrif á samfélagið í hreppnum. „Það er eins og þykkt öskuský liggi yfir sveitinni.“ Að hennar mati segir það sig sjálft að verðmæti svæðisins til útivistar og sjálfbærrar og umhverfisvænnar ferðamennsku myndi hríðfalla ef virkjun yrði „plantað í Hverfisfljót“.
Þá eru áformin um virkjun Hverfisfljóts að sögn Ingibjargar „alveg úr takti“ við ný náttúruverndarlög og ganga þvert á verndarmarkmið þeirra um jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni. „Það er einlæg von okkar að lögin haldi nú vatni, í orðsins fyllstu merkingu.“
Gerð rammaáætlunar byggist á faglegum grunni verkefnastjórnar hverju sinni og margra faghópa. Í henni eru virkjanahugmyndir orkufyrirtækja og Orkustofnunar flokkaðar í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokk.
Það er ekki svo að þessi flokkun sé meitluð í stein. Forsendur, svo sem mat á verndar- eða nýtingargildi svæða, geta breyst með tíð og tíma og því er sá möguleiki fyrir hendi að svæði sem eru annaðhvort í orkunýtingar- eða verndarflokki fari aftur til meðferðar hjá verkefnastjórninni. Hafi hins vegar Orkustofnun gefið út virkjunarleyfi fyrir viðkomandi svæði er tilfærsla úr nýtingarflokki ekki lengur möguleg og að sama skapi er ekki hægt að færa svæði úr verndarflokki hafi ráðherra skrifað undir friðlýsingu þess.
„Þó svo að virkjunarhugmynd sé sett í nýtingarflokk þá þýðir það alls ekki að þar með verði sjálfkrafa og án allrar umfjöllunar virkjað þó að það virðist vera upplifun margra á þessu ferli,“ bendir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, á. Hann tekur hugmyndir um Hvalárvirkjun í Árnesheppi á Ströndum sem dæmi. Hún yrði reist í stærstu óbyggðu víðernum Vestfjarða.
„Í því tilviki átti til dæmis eftir að vinna mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og það leiddi síðan í ljós mjög neikvæð áhrif á náttúruna. Slíkt mat á auðvitað alltaf að hafa áhrif á lokaákvörðun um hvort virkjað verði eða ekki.“
Sú ákvörðun er í höndum sveitarstjórna á Íslandi sem þurfa að samþykkja skipulagsbreytingar og gefa út framkvæmdaleyfi fyrir virkjunum. Félagasamtök og þeir sem eiga lögvarðra hagsmuna að gæta geta kært deiliskipulagsbreytingar og leyfisveitingar, m.a. á forsendum náttúruverndarlaga.
Samkvæmt lögunum skal standa vörð um víðerni Íslands sem eru ein þau stærstu í Evrópu. Á þau hefur töluvert verið gengið síðustu áratugi. „Við berum líka alþjóðlega ábyrgð þegar kemur að vernd þeirra,“ minnir Guðmundur Ingi á. „Þetta setur okkur í þá stöðu að þurfa að standa sérstaklega vörð um þau.“
Á aðeins örfáum árum hefur svo nýtt afl komið af krafti inn í umræðuna um verndun íslenskrar náttúru: Ferðaþjónustan. Að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, byggir þessi ört vaxandi atvinnugrein á þeirri auðlind sem einstæð náttúra landsins er. „Umhverfisstefna Samtaka ferðaþjónustunnar miðar að því að viðhalda og vernda íslenska náttúru, atvinnugreininni og mannlífi til hagsbóta.“
Páll Eysteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að ósnortin víðerni og óspillt náttúra sé ein mesta auðlind þjóðarinnar „og við þurfum að varðveita hana til framtíðar“.
Í starfi Ferðafélagsins sé lögð áhersla á að náttúran fái að njóta vafans í samskiptum við manninn. Félagið gefi sig ekki út fyrir að vera á móti virkjunum en hvetur til þess að þau svæði sem þegar hafa verið lögð undir slíkt séu nýtt betur. „Svo eru alls konar framtíðarmöguleikar [til orkuöflunar] innan seilingar, svo sem virkjun sjávarstrauma í sjávarföllum. Þess vegna borgar sig að flýta sér hægt í þessum efnum því það hljóta allir, hver svo sem skoðun þeirra er á frekari virkjunum, að vilja fara bestu leiðina til framtíðar litið.“
Magnús Rannver Rafnsson, lektor í verkfræði við Tækni- og náttúrufræðiháskólann í Þrándheimi, NTNU, tekur undir þetta. Hann segir að „gríðarlegur hraði“ sé í nýsköpun og tækniþróun í heiminum hvað orkugjafa varðar. Sú umræða hafi hins vegar enn sem komið er ekki skilað sér til Íslands. „Það er aðeins tímaspursmál hvenær orka verður fáanleg hvar sem er, hvenær sem er og hvernig sem er,“ segir hann og bendir í því samhengi á vöxt í fjármögnun rannsókna og tækniþróunar erlendis, m.a. í sjóði á vegum Bill Gates og fleiri fjárfesta. Mun fleira en framfarir í nýtingu sólar- og vindorku sé í deiglunni. Þá séu nýjar lausnir fyrir raforkuflutning einnig handan við hornið sem minnka muni verulega áhrif á umhverfið. Að þessu verði að huga áður en farið er í umfangsmiklar framkvæmdir á flutningskerfinu hér á landi og í frekari virkjanir.
Magnús segir að í þessu ljósi sé til dæmis „fráleit áhætta“ að ætla að flytja íslenska orku í stórum stíl til Evrópu í gegnum 800 milljarða króna sæstreng sem þurfi að þjónusta með 100 milljarða raforkuflutningskerfi eins og rætt hafi verið um.
Í þessum málaflokki öllum ríði á að hugsa til framtíðar og forðast að nota náttúruspillandi aðferðir fortíðar til að afla orku og dreifa henni. Hann segir þá á villigötum sem telji að eina leiðin til frekari orkuöflunar í framtíðinni sé sú að leggja náttúruna í stórum stíl undir virkjanir og flutningskerfi. „Það dytti engum í hug að byggja nýjan Landspítala samkvæmt aðferðafræði frá því um miðja síðustu öld,“ segir hann. „Af hverju þykir það þá sjálfsagt að bjóða upp á verkfræðilausnir sem byggjast á hugmyndafræði frá þeim tíma?“
En það gætu verið ár og jafnvel áratugir þar til slík bylting í orkuöflun mun eiga sér stað og því þarf enn um sinn að stóla á hefðbundnari orkugjafa.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að alveg óháð fjölgun fyrirtækja í stóriðju sé raforkuþörf almennt að aukast, meðal annars vegna rafbíla og skipta vinnslufyrirtækja úr olíu í rafmagn. „Allt krefst þetta aukinnar orku. Oft vanmetur fólk það sem samfélagið þarf af orku.“ Hann bendir á að miðað við spár þurfi að reisa 50 MW virkjun á 4-5 ára fresti, svo lengi sem núverandi stórnotendur haldi áfram.
Bjarni, forstjóri Orkuveitunnar, er ekki á þeirri skoðun að orkuskortur sé yfirvofandi í landinu. Hann segir ýmislegt tínt til í þeirri umræðu sem eigi ekki við rök að styðjast og bendir á að rafbílar þurfi til dæmis í raun „ótrúlega lítið“ af orku.
Hann útskýrir málið á einfaldan hátt:
Á Íslandi eru framleiddar 20 teravattsstundir (TWh) af raforku á ári. 100 þúsund rafdrifnir fólksbílar myndu þurfa um 0,3 teravattstundir eða um 1,5% af öllu rafmagninu. „Allur fólksbílafloti Íslands myndi taka svona 3% af öllu rafmagninu sem hér er framleitt. Það er nú ekki meira en það.“
Að sögn Bjarna munu orkuskipti bílaflotans að fullu taka einhverja áratugi „svo það er ekki þörf á því að virkja stórt í dag vegna þessa“.
Bjarni segir að finna megi orkuna sem þarf á rafbílana með ýmsum hætti. „Við það eitt að breyta allri götulýsingu í landinu og skipta yfir í led-perur myndi sparast orka sem dygði til að knýja 5-10.000 bíla,“ tekur hann sem dæmi.
Hörður og Bjarni eru sammála um að á næstu áratugum muni koma að því að einhverju stóriðjuveri hér á landi verði lokað. Það sé eðli slíkra verksmiðja. „Og þá myndi losna raforka sem væri margfalt það magn sem þarf til að knýja allan bílaflota landsins,“ bendir Bjarni á.
Hann segir því engan bráðan orkuskort fyrirsjáanlegan, „nema að menn vilji halda áfram að virkja til að byggja stóriðjuver. Þar hefur síðustu misseri verið horft til kísilbræðslu sem er mjög mengandi starsfemi.“
Samkvæmt útreikningum Landverndar mun kísilver PCC á Bakka, sem tekur til starfa á næstu vikum, auka útblástur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 2,5-8%. Ef kísilver United Silicon í Helguvík verður ræst á ný og ef Thorsil byggir svo sína verksmiðju munu þessi þrjú iðjuver auka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 20-30%.
Á Íslandi hefur þegar verið byggður upp umfangsmikill orkufrekur iðnaður og nú er svo komið að innan við tíu fyrirtæki nota tæplega 80% af allri raforku sem hér er framleidd. Forstjóri Landsvirkjunar ítrekar að uppbygging stóriðju hingað til hafi verið svar við ákalli samfélagsins á hverjum tíma. Sé stefna samfélagsins önnur nú aðlagi orkugeirinn sig að því.
Spurður hvort Landsvirkjun geti markað sér eigin stefnu um hverjir fái að kaupa orku, bendir Hörður á að Landsvirkjun sé markaðsráðandi á raforkumarkaði og megi ekki mismuna fyrirtækjum nema á viðskiptalegum forsendum. „Þannig að slík stefnumótun hlýtur alltaf að liggja hjá stjórnvöldum.“
Forstjóri HS Orku svarar sömu spurningu með eftirfarandi hætti: „Okkar hlutverk er að afla orku til þarfa samfélagsins en ekki að vera dómarar í því hvað megi gera hér og hvað ekki. Það er ekki okkar hlutverk, sem erum lítið fyrirtæki á þessum markaði, að ákveða hvort hér eigi að rísa gagnaver, álver eða vopnaverksmiðja, svo fjarlægt dæmi sé tekið. Við seljum þeim sem vilja kaupa, hafi þeir fengið heimildir hins opinbera til sinnar starfsemi.“
Það er skoðun forstjóra Orkuveitunnar að það megi „draga úr virkjanalátum“ til að jafna sveiflur í hagkerfinu, „og nýta betur þá orku sem við vinnum í stað þess að virkja eins og við eigum lífið að leysa og selja svo rafmagnið í kísilbræðslur sem eru einn mest mengandi iðnaður á jarðarbóli.“
Andri Snær Magnason rithöfundur, sem barist hefur verið náttúruvernd í um tvo áratugi, segir að nú sé lag að spyrna mjög sterkt við fótum í frekari uppbyggingu stóriðju. „Af hverju ættum við, þessi fámenna þjóð, að byggja stærsta kísilver í heimi og svo enn stærra kísilver sem verður þá það langstærsta í heimi nánast ofan í byggð? Hvaða þekkingu höfum við á þessum iðnaði? Hver er langtímareynslan af rekstri kísilvera? Er einfaldlega farið af stað af því að einhverjir fjárfestar geta hóstað upp milljörðum og menn telja sig þurfa að virkja í flýti?“
Í hvert sinn sem nýr áfangi rammaáætlunar er tekinn fyrir bætast virkjanahugmyndir í orkunýtingarflokk. Á sama tíma vantar stefnu um í hvað eigi að nota orkuna, verði hún virkjuð, að mati framkvæmdastjóra Landverndar.
„Því komast margar hugmyndir í umferð; frekari stóriðja, sæstrengur til Evrópu, uppbygging gagnavera og kísilvera og svo það nýjasta: Orkuskiptin,“ segir Guðmundur Ingi. „Við getum ekki gert þetta allt saman og því þurfum við skýra sýn og forgangsröðun.“
Hann segir að á meðan það sé ekki til stefna um hvað eigi að framleiða mikla orku og í hvað eigi að nota hana þjóni rammaáætlun aðallega hagsmunum þeirra sem vilja virkja meira. Að hans mati er stóra verkefnið að marka þessa stefnu til framtíðar. „Og um hana þarf að skapast sátt.“
Hann er í hópi þeirra sem vona að sú óánægja sem skapaðist í kjölfar vandræða kísilvers United Silicon í Helguvík eigi eftir að vekja samfélagið og stjórnvöld til umhugsunar um framhaldið. „Við Íslendingar þurfum kannski að hugsa þetta svolítið upp á nýtt. Í hvað á orkan okkar að fara?“