Hvalárvirkjun myndi ekki knýja kísilver

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku: „Það er engin ein virkjun …
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku: „Það er engin ein virkjun sem mun tryggja raforkuöryggi Vestfjarða. Það væri hægt að bæta það með minni virkjun og gríðarlegum kostnaði við tengigjöld sem þyrfti meðgjöf frá ríkinu. Ég sé ekki fyrir mér að það sé áhugi á því. Þetta verður að borga sig sjálft. Og það getur gert það.“ mbl.is/Golli

Rafmagnið sem framleitt yrði í Hvalárvirkjun yrði ekki nýtt til að knýja kísilver eða aðra stóriðju. Að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra HS Orku og stjórnarformanns VesturVerks, verður hluti orkunnar strax nýttur innan Vestfjarða og hún öll innan fárra áratuga eftir gangsetningu.

VesturVerk, sem er í meirihluta eigu HS Orku, áformar að virkja rennsli ánna Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár í Árneshreppi á Ströndum til orkuöflunar. Gert er ráð fyrir að afl Hvalárvirkjunar verði um 55 MW og orkuframleiðslan um 320 GWh (gígavattstundir) á ári. Kostnaður við byggingu hennar er áætlaður liðlega 20 milljarðar króna.

Fyrst eftir að Hvalárvirkjun tæki til starfa yrði hluti orkunnar fluttur frá Vestfjörðum. Ásgeir segist ekki sjá hvað sé slæmt við það. Í dag sé raforka flutt á milli landsvæða, til dæmis sé umtalsverð orka flutt inn á Vestfirði. „Við búum í einu landi. Svo þessi neikvæða umræða um flutning orkunnar frá Vestfjörðum er óskiljanleg. En ég skil andstöðu við stóriðju. Hvalárvirkjun er hins vegar ekki einu sinni af þeirri stærðargráðu að hún muni nýtast fyrir stóriðju.“

Ásgeir segir að þótt engin heilsárstörf skapist í Árneshreppi, fámennasta sveitarfélagi landsins, eftir að byggingu virkjunarinnar lýkur muni hún hafa margvísleg afleidd áhrif: „Stórbætt fjarskipti. Stórbætt rafmagn. Stórbættar samgöngur. Stórbætt tækifæri til atvinnusköpunar.  Sama hvað hver segir.“

Óvissa vegna kísilvera

HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi; Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Að auki rekur hún og stjórnar vinnslu í nokkrum smærri vatnsaflsvirkjunum víða um land og selur raforkuna á markaði, m.a. til almennra notenda, gagnavera, álvera og fleiri aðila. Orkuvinnsla HS Orku nemur í dag samtals um 140-150 MW.

Á síðustu vikum hefur nokkur óvissa skapast á raforkumarkaði í kringum rekstur kísilvera. Framtíð United Silicon í Helguvík er óljós og ekkert verður af fyrirhuguðu sólarkísilveri Silicor Materials á Grundartanga, að minnsta kosti í bráð.

Þetta tvennt hefur óveruleg bein áhrif á HS Orku þar sem fyrirtækið selur enga orku til United Silicon og hafði aðeins gert viljayfirlýsingu um afhendingu fimm megavatta til sólarkísilversins. „Hins vegar getur þetta haft einhver áhrif á markaðinn, ef orka annarra sem átti að fara í þessi verkefni er nú á lausu,“ segir Ásgeir. Einnig gæti þessi staða haft áhrif á önnur verkefni á þessu sviði. „Það er ekki annað að sjá en að PCC haldi ótrauðir áfram með sína uppbyggingu á Húsavík en menn spyrja sig, skiljanlega, hvort þetta muni hafa áhrif á áform Thorsil um að reisa kísilver í Helguvík. Það á enn eftir að koma í ljós. Auðvitað skiptir máli hvort United Silicon heldur áfram starfsemi eða ekki. Það hefur áhrif á framboð þeirrar orku sem er á markaði.“

HS Orka hafði gert raforkusölusamning við Thorsil um afhendingu á 32 MW, með möguleika á 44 MW. Hann rann út snemmsumars. „Það verkefni er nú í biðstöðu og á eftir að koma í ljós hvort þeir samningar verða teknir upp aftur. Ég vona að það gerist; samstarf okkar við Thorsil hefur verið afskaplega gott og heiðarlegt. Við erum tilbúnir til viðræðna við þá aftur ef áhugi er á því.“

Var sú orka til reiðu?

„Hún var í pípunum. Og ekki frá Hvalárvirkjun,“ segir Ásgeir. „Orkan átti að koma frá Reykjanesvirkjun og lítilli vatnsaflsvirkjun, Brúarvirkjun, sem við erum nú að byggja í Biskupstungum.“

Leyfisveitingaferlið tímafrekt og kostnaðarsamt

Brúarvirkjun verður fyrsta vatnsaflsvirkjunin í eigu HS Orku. Nú er verið að leggja vegi, búið er að bjóða út vélbúnað og nýverið framkvæmdirnar sjálfar. Hann segir litlar virkjanir á borð við Brúarvirkjun, sem verður 9,8 MW að afli, geta verið hagkvæmar, allt eftir aðstæðum. „Það er þegar búið að reisa margar litlar vatnsaflsvirkjanir víða um land og það eru margar í pípunum. Ég hef trú á því að það verði aukning í því á næstu árum.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Fyrir því eru margar ástæður. „Þetta snýst um það sem mér hefur orðið tíðrætt um og það eru leikreglur lýðræðisins. Það eru lög og reglugerðir sem fara verður eftir og þetta snýst um að uppfylla þær. Leyfisveitingaferlið fyrir virkjanir er orðið langt, tímafrekt, kostnaðarsamt og flókið. Það þarf að afla mjög margra leyfa fyrir hvert verkefni. Það þarf að fá rannsóknarleyfi, það þarf að ná samningum við eigendur lands og auðlinda, það þarf að vinna í skipulagsmálum, jafnvel nokkrum sinnum í ferlinu. Verkefni sem eru stærri en 10 MW þurfa svo að fara inn í ferli rammaáætlunar, það þarf að fara í gegnum umhverfismat, fá virkjanaleyfi og loks framkvæmdaleyfi.“

HS Orka fór fram á að Brúarvirkjun færi í umhverfismat þó að hún sé undir 10 MW og því ekki víst að það hefði þurft. „Þó að margir telji að við séum slæmt fólk erum við það nú ekki,“ segir Ásgeir kíminn. „Við erum náttúrusinnað og umhverfisvænt fólk, eins og dæmin sanna hér á Reykjanesi þar sem við erum sífellt að finna leiðir til að nýta betur það sem til fellur við orkuvinnsluna.“

Enn að læra á auðlindina

Á síðasta ári gekk rekstur Reykjanesvirkjunar erfiðlega. Framleiðslan minnkaði verulega en er nú á uppleið. Virkjunin á að geta verið um 100 MW og er afl hennar í dag um 75 MW. Enn er því nokkuð í að hún fari í hámarksframleiðslu, „en við sjáum fyrir okkur að hún muni gera það,“ segir Ásgeir. Jarðvarmavirkjanir séu í eðli sínu flókið eðlisfræðilegt viðfangsefni. Ellefu ár eru frá því að Reykjanesvirkjun var gangsett „og við erum enn að læra á auðlindina“. Hann segir það oft taka mjög langan tíma, jafnvel áratugi, að finna jafnvægi í nýtingunni. „Það sem er mikilvægast í þessu er að jarðhitaauðlindin á Reykjanesi er ekki skemmd á neinn hátt.“

Stífla yrði reist við Eyvindarfjarðarvötnin og til yrði Eyvindarfjarðarlón. Vatni …
Stífla yrði reist við Eyvindarfjarðarvötnin og til yrði Eyvindarfjarðarlón. Vatni úr lóninu yrði veitt yfir í Hvalárlón og rennsli Eyvindarfjarðarár því minnka verulega. mbl.is/Golli

Kom það þá ekki á óvart að framleiðslan minnkaði í Reykjanesvirkjun?

„Já og nei. En núna skiljum við hvað er að gerast. Það er búið að rannsaka þetta í þaula og nú vitum við hvað við er að eiga og sækjum fram á veginn. Við erum búin að snerta botninn og erum að lyfta okkur upp aftur.“

Vilja virkja í Eldvörpum

Eitt þeirra verkefna sem HS Orka er með á prjónunum er jarðvarmavinnsla í Eldvörpum á Reykjanesi. Það verkefni hefur verið harðlega gagnrýnt, m.a. á þeim forsendum að svæðið sé einstök náttúruperla sem eigi sér enga hliðstæðu. HS Orka hefur þegar aflað allra leyfa og heimilda sem til þarf til að hefja þar rannsóknarboranir. „En það skal tekið skýrt fram að við munum ekki snerta eða spilla gígaröðinni í Eldvörpum,“ segir Ásgeir. „Við erum algjörlega samstiga yfirvöldum og Grindavíkurbæ um það. Það sem hins vegar mun gerast ef af þessu verður er að aðgengi fólks að þessari náttúruperlu mun stórbatna. Eldvörp verða áfram á sínum stað og aðgengilegri en áður.“

Ætlið þið ykkur að halda áfram með það verkefni?

„Staðan á því er einfaldlega sú að við þurfum að taka fljótlega ákvörðun um hvort við förum af stað. Boltinn er hjá okkur.“

Gagnaverum vísað frá

Ásgeir segir „alls ekki“ jafnvægi á milli eftirspurnar eftir orku hér á landi og framleiðslunnar. Frá hruni hafi eftirspurnin aukist hratt. Nú sé svo komið að það vanti rafmagn og þeir sem helst líði fyrir það séu gagnaver. „Við höfum oft þurft að segja nei við slíkum verkefnum. Þetta er bara raunveruleikinn. Þetta er atvinnugrein sem er að reyna að vaxa á Íslandi, er með hreina starfsemi og vill hreina orku. En hún er bara ekki til.“

Til að búa í haginn fyrir framtíðina segir Ásgeir að framleiðendur raforku þurfi að horfa langt fram í tímann. „Við þurfum að vita í dag hvaðan rafmagnið á að koma sem við ætlum að nota árið 2030. Við vitum að almenni markaðurinn þarf á annað hundrað megavött til viðbótar á þessum tíma. Hvaðan eiga þau að koma? Það liggur ekki fyrir. Núna vantar fyrst og fremst orku til gagnavera en svo þurfum við að hafa orku til reiðu til að mæta þessari framtíðarþörf almenna markaðarins.“

Ásgeir bendir ennfremur á að raforkumarkaðurinn sé að breytast. Orkuverð til stærri notenda hafi verið að hækka á undanförnum árum og samkeppni þeirra um orku við almenna markaðinn hafi þar með aukist. „Þetta ójafnvægi í framboði og eftirspurn raforku mun alveg örugglega hafa áhrif á raforkuverð til almennings og það jafnvel fljótlega,“ segir Ásgeir.

Mikið líf er í almenna markaðinum um þessar mundir eins og áður hefur gerst í efnahagsuppsveiflu. „Svo eru það rafbílarnir. Rafmagnið þarf einhvers staðar að verða til, það verður ekki til í snúrunum.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Ekki hlutverk HS Orku að dæma kaupendur

Spurður hvort til greina komi, til að koma á betra jafnvægi á orkumarkaðinn, að hægja á uppbyggingu stóriðju, sem tekur til sín bróðurpart allrar orku sem framleidd er á Íslandi, svarar Ásgeir: „Okkar hlutverk er að afla orku til þarfa samfélagsins en ekki vera dómarar í því hvað megi gera hér og hvað ekki. Það er ekki okkar hlutverk, sem erum lítið fyrirtæki á þessum markaði, að ákveða hvort hér eigi að rísa gagnaver, álver eða vopnaverksmiðja, svo fjarlægt dæmi sé tekið. Við seljum þeim sem vilja kaupa, hafi þeir fengið heimildir hins opinbera til sinnar starfsemi.“

Gætuð þið ekki sett ykkur stefnu um í hvað þið viljið selja ykkar raforku?

„Ég er ekki að segja að það komi ekki til. Nú erum við að selja til almenna markaðarins, gagnavera, þörungaræktenda, fiskeldisfyrirtækja, álvera og fleiri aðila. Hvað gerist svo í framtíðinni er óvíst. Það yrði eflaust áleitin spurning ef hér ætti t.d. að rísa vopnaverksmiðja.“

Tækifæri til að bæta úr raforkumálum Vestfjarða

Þegar HS Orka keypti hlut í VesturVerki, fyrst minnihluta en síðar meirihluta árið 2016, var fyrirtækið komið með rannsóknarleyfi fyrir fyrirhugaðri Hvalárvirkjun og samninga við eigendur lands- og vatnsréttinda í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði. Þeir samningar voru gerðir árið 2007-2008. Virkjunin var einnig komin inn á aðalskipulag Árneshrepps og í nýtingarflokk rammaáætlunar. „Við komum inn í verkefnið því við sáum möguleika á að af því gæti orðið. Í fyrsta lagi sáum við tækifæri með þessu til að koma að því að bæta úr raforkumálum á Vestfjörðum og svo að auka okkar framleiðslu til að mæta þörfum markaðarins.“

Ásgeir segir ástand raforkumála mjög bágborið á Vestfjörðum. „Það er einfaldlega skammarlega lélegt,“ segir hann og bendir á að enn sé verið að ræsa dísilvélar á svæðinu til að framleiða rafmagn þegar straumlaust verður vegna bilana. Það þykir honum „algjör tímaskekkja“ og ekki í anda Parísarsamkomulagsins sem Íslendingar eru aðilar að.

„Lausnin felst í skynsamlegri nýtingu auðlinda á Vestfjörðum. Það er tæknilega hægt að leysa þetta eins og sumir vilja með því að ríkið komi bara með fullt af peningum og bæti flutningskerfið og að rafmagnið komi annars staðar frá. En það er ekki rafmagn á lausu í dag og það er ekki næg flutningsgeta fyrir hendi. Ég sé ekki fyrir mér að ríkið sé að fara að leggja í milljarða framkvæmdir til að laga þetta. Hins vegar ef auðlindirnar innan Vestfjarða eru nýttar þá borgar það sig sjálft. Því að ný raforkuvinnsla býr til mikil verðmæti og rafmagnið sem fer um línurnar borgar framkvæmdirnar.“

Tenging virkjunarinnar enn óákveðin

Ásgeir segir að það sem geri Hvalárvirkjun hagkvæman kost í dag, ólíkt því sem áður var talið, sé skortur á rafmagni og hækkun raforkuverðs.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Hvalárvirkjun hefur farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Línulögnin frá henni hins vegar ekki. Enn er ekki búið að ákveða hvernig henni verður háttað. Verið er að skoða möguleika á að farið verði með rafmagnið yfir Ófeigsfjarðarheiði, í tengipunkt innarlega í Ísafjarðardjúpi og yfir Kollafjarðarheiði og þar inn á Vesturlínu. Tengipunkturinn er hins vegar ekki enn fyrir hendi. Landsnet mun meta kostnaðinn við þessa tengingu og sjá um framkvæmdirnar ef af verður. Framkvæmdaaðilinn borgar tengingu virkjunar við meginflutningsnetið. Fari kostnaður við uppbyggingu meginflutningsnetsins hins vegar yfir það sem gjaldskrá Landsnets segir til um hverju sinni greiðir framkvæmdaaðilinn mismuninn.

„Eins og kerfið er í dag þyrfti að tengja rafmagnið úr Hvalárvirkjun suður í Geiradal við Gilsfjörð, um 70 kílómetra leið,“ segir Ásgeir um þessa nýju hugmynd að tengingu. „Það er hugsanlegt að það væri of dýrt fyrir verkefnið. Á sama tíma væri mjög óskynsamlegt að verja fjármununum til þess, því þá myndi virkjunin ekki hafa neitt með uppbyggingu kerfisins á Vestfjörðum að gera. Það þætti mér mjög sorgleg lending, þótt það sé ekki útilokað af okkar hálfu að fara þá leið.“

Skynsamlegra væri því að fara með rafmagnið inn á Vesturlínu í Kollafirði á Barðaströnd. Það myndi tryggja þá bilanagjörnu línu að stórum hluta. „Í framhaldinu væri svo hægt að tengja rafmagnið úr Djúpinu og til Ísafjarðar til að ná langþráðri hringtengingu Vestfjarða.“

Fleiri virkjanir „klárlega til bóta“

Í tengslum við byggingu nýs tengivirkis í Djúpi hefur verið rætt um að fleiri fyrirhugaðar virkjanir á svæðinu gætu nýtt það. Nefnt hefur verið að kostnaðurinn yrði hugsanlega of mikill fyrir Hvalárvirkjun eina. „Ég tel reyndar að Hvalárvirkjun ein gæti staðið undir þessu en það yrði klárlega til bóta fyrir alla ef fleiri virkjanir nýttu tengipunktinn og þar með myndi flutnings- og tengikostnaður minnka. Það er líka mikið hagsmunamál fyrir raforkunotendur.“

Ásgeir segir ákveðið að línan yfir Ófeigsfjarðarheiðina verði lögð í jörð. „Það eru bæði umhverfislegar og rekstrarlegar ástæður fyrir því. Við viljum ekki byggja háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði. Það yrði líka erfitt og dýrt, þarna geta orðið mjög vond veður. Við viljum hins vegar byggja veg yfir heiðina og þar munu togast á ólík sjónarmið. Á vegurinn að vera lágreistur og falinn í landinu eða á hann að vera uppbyggður og sem oftast fær en þar með sýnilegri? Ég hef ekki myndað mér skoðun á þessu ennþá, en það verður bitbein.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Um þetta verður fjallað í frummatsskýrslu línulagnarinnar þegar að henni kemur. „Við erum þegar með drög að samkomulagi við Vegagerðina um vegabætur frá Norðurfirði og yfir í Ófeigsfjörð. Það og vegur yfir Ófeigsfjarðarheiði er stórmál og mikil samgöngubót.“

Það eru hins vegar bætur á veginum suður með Ströndum sem brenna helst á íbúum Árneshrepps. „Þó að við getum ekki byggt upp veginn um Strandir alla leið þá er alveg ljóst að því meiri starfsemi sem verður á svæðinu því meiri pressa verður á Vegagerðina að bæta þann veg og moka oftar á veturna. Það er bara augljóst.“

Mun leiða ýmislegt af sér

Gagnrýnt hefur verið að engin heilsársstörf muni fylgja virkjuninni í Árneshreppi. Ásgeir segir að einhver starfsemi muni þó fylgja henni eftir að hún yrði gangsett. „Það verður ekki mikið en það verður eitthvað,“ segir hann. „En virkjunin mun leiða ýmislegt af sér. Það er hjákátleg staðreynd að við höfnina á Norðurfirði er gámur með ljósavél sem framleiðir rafmagn til að búa til ís til að kæla fiskinn sem strandveiðimennirnir koma með í land. Af hverju þarf að brenna olíu til þess? Það er vegna þess að raforkukerfið ber ekki svona ísvél. Það er bara einfasa rafmagn á þessu svæði, ekki þriggja fasa. Það er búið að leggja dreifikerfi fyrir þriggja fasa rafmagn á hluta af þessu svæði en það er ekki hægt að nota það því það er ekki þriggja fasa fæðing inn á svæðið. Hún mun koma frá Hvalárvirkjun og jafnvel strax á byggingartíma. Það er hugmynd uppi um að í stað þess að nota olíu til þess að framleiða rafmagn vegna byggingarframkvæmdanna verði reist lítil virkjun, langt undir 10 MW, og þá er hægt að leggja þriggja fasa tengingu strax til Norðurfjarðar. Það mun einnig koma ljósleiðari því virkjun þarf að vera ljósleiðaratengd. Og Árneshreppur mun njóta góðs af því og þar með munu fjarskipti stórbatna. Þetta skapar ný tækifæri.“

Ásgeir bendir á að hægt sé að stýra rennsli í …
Ásgeir bendir á að hægt sé að stýra rennsli í fossum, ef áhugi sé á því. Svokallaðir túristsafossar séu til. Rennsli um Drynjanda í Hvalá myndi minnka verulega hluta úr ári með Hvalárvirkjun. mbl.is/Golli

Stöðug fólksfækkun hefur verið á Ströndum líkt og víðast hvar á Vestfjörðum síðustu ár og áratugi. „Hvað gerist í Árneshreppi ef ekkert verður að gert?“ spyr Ásgeir. „Leggst byggð af? Já, alveg örugglega. Það gerðist á Hornströndum þar sem amma mín ólst upp og það gæti endurtekið sig. Hvað gerist á Vestfjörðum yfirleitt ef við lögum ekki þetta ástand? Viljum við virkilega ekki bæta innviðina svo fólk geti búið þarna áfram?“

Er þetta raunverulega þín sýn á þetta verkefni, að það sé samfélagsmál, því nú eruð þið einkafyrirtæki á raforkumarkaði.

„Algjörlega. Við erum ekki að framleiða rafmagnið fyrir okkur. Við erum að framleiða það fyrir samfélagið sem vill fá það og þarfnast þess. Það er algjörlega þannig sem þetta er. Það verður engin samfélagsþróun ef það er ekki orkuútvegun. Að halda öðru fram er útúrsnúningur.“

Rafmagnið notað á Vestfjörðum

En svo er það stóra spurningin. Hvert fer orkan sem Hvalárvirkjun mun framleiða?

Ásgeir telur að í fyrstu verði um 10-20 MW nýtt innan Vestfjarða. „Þegar fram í sækir líklega allt rafmagnið. Því ef skilyrði skapast fyrir aukna atvinnustarfsemi á Vestfjörðum mun það kalla á meiri raforkunotkun.“

Verður orkan úr Hvalárvirkjun á einhverjum tímapunkti notuð til að knýja kísilver eða aðra stóriðju?

„Nei, það er ekki að fara að gerast. Ég sé það ekki fyrir. Þessi raforka verður öll notuð á Vestfjörðum innan fárra áratuga.“

Ásgeir segir að ef allt gangi samkvæmt áætlunum muni Hvalárvirkjun í fyrsta lagi fara að framleiða rafmagn á árunum 2023-2024. Enn sé margt ófrágengið.

Framkvæmdin yrði boðin út í áföngum, mögulega á evrópska efnahagssvæðinu. „Við munum í því ferli, í gegnum Vesturverk, kappkosta að nýta starfskrafta heimamanna. Það er augljóst að þeir heimamenn sem vilja og geta munu fá vinnu við framkvæmdina. Hverjir sem verktakarnir eru sem samið verður við munu þeir alltaf ráða til sín heimamenn. Heimamenn verða ekki sniðgengnir, það er best að nýta þeirra krafta, hagkvæmast og skynsamlegast.“

Ekki stækkuð með aðkomu HS Orku

Með Hvalárvirkjun yrði rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði virkjað. Fyrirhugað er að reisa fimm stíflur við stöðuvötn á heiðinni og mynda þannig þrjú uppistöðulón. „Það verða engin vötn búin til. Vötnin sem fyrir eru stækka. Þetta verða falleg fjallavötn, þarna er bergvatn en ekki gruggugt jökulvatn. Síðan er vatnið tekið í gegnum jarðgöng inn í fjallið. Þar verður stöðvarhúsið. Svo er vatnið leitt út í ósinn í jarðgöngum. Þessi mannvirki verða ekki sýnileg fyrir utan hurð á fjallinu,“ segir Ásgeir um framkvæmdina.

HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi; Svartsengi …
HS Orka á og rekur tvær jarðvarmavirkjanir á Reykjanesi; Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Að auki rekur hún og stjórnar vinnslu í nokkrum smærri vatnsaflsvirkjunum víða um land og selur raforkuna á markaði. Mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Þegar Hvalárvirkjun var sett í orkunýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013 var sagt að um 37 MW virkjun væri að ræða. Ásgeir segir að þótt nú sé gert ráð fyrir 55 MW virkjun hafi það engin áhrif á miðlunina eða jarðgöngin. „Það eru engin sýnileg ummerki um þessa stækkun, hvergi. Aðeins stöðvarhúshellirinn inni í fjallinu stækkar aðeins.“

Ásgeir segir rangt að virkjunin hafi verið stækkuð að umfangi eftir að HS Orka kom að verkefninu. „Jú, það er rétt að henni hefur verið breytt til að lágmarka umhverfisáhrif og bæta nýtingu auðlindarinnar. Ástæðuna fyrir meiri orkuframleiðslu má rekja til þess að nægar upplýsingar um rennsli lágu ekki fyrir. Núna er búið að rannsaka rennslið til hlítar og þetta er niðurstaðan.“

Ásættanleg umhverfisáhrif

Nú ert þú útivistarmaður og segist náttúruunnandi, hvernig horfir það við þér að rennsli í mörgum þessara fossa muni minnka, í sumum verulega?

„Það eru þau áhrif sem verða þegar nýta þarf auðlind til að framleiða hreint rafmagn. Ef rafmagnið á einhvers staðar að verða til þurfum við að fórna einhverju. Náttúran fer ekkert en hún verður hins vegar aðgengilegri fyrir alla vegna bættra samgangna. Rennslið í fossunum mun minnka á einhverjum árstímum, mest þegar fólk er almennt ekki á staðnum og þar að auki er það stýranlegt ef vill. Það er hægt að hafa túristarennsli á fossum, ef við viljum fara þá leið. Já, vötnin stækka. Já, rennsli í fossum mun minnka. Ég tel þessi umhverfisáhrif ásættanleg fyrir þann ávinning sem er í húfi fyrir samfélagið.“

Í áliti Skipulagsstofnunar er bent á að fossarnir og hluti vatnanna njóti verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og þeim megi ekki raska nema brýna nauðsyn beri til og almannahagsmunir séu í húfi. Lítur þú svo á að almannahagsmunir séu þarna í húfi?

„Já, alveg klárlega. Það er verið að brenna olíu á Vestfjörðum til að framleiða rafmagn. Það er ekki í lagi. Það eru klárir almannahagsmunir að innviðir landsins séu áreiðanlegir, traustir og tryggir og fólk fái rafmagn. Það er ekki hægt að segja einfaldlega að rafmagnið eigi að koma einhvers staðar annars staðar frá, það þarf þá að segja hvaðan það á að koma og ekki aðeins það sem við ætlum að nota á morgun heldur líka árið 2030.“

En myndi minni virkjun, sem hefði minni umhverfisáhrif, ekki hafa sömu áhrif á raforkuöryggi Vestfjarða?

„Það er engin ein virkjun sem mun tryggja raforkuöryggi Vestfjarða. Það væri hægt að bæta það með minni virkjun og gríðarlegum kostnaði við tengigjöld sem þyrfti meðgjöf frá ríkinu. Ég sé ekki fyrir mér að það sé áhugi á því. Þetta verður að borga sig sjálft. Og það getur gert það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert