Telur sig réttkjörinn prest

Elínborg Sturludóttir
Elínborg Sturludóttir

„Ég tel mig vera réttkjörna í stöðu dómkirkjuprests,“ segir Elínborg Sturludóttir, ein umsækjenda prestsembættis við Dómkirkjuna í Reykjavík.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu um helgina að enginn umsækjenda hefði hlotið meirihluta atkvæða 10 manna kjörnefndar og því hefði verið kosið á nýjan leik. Þar hefðu atkvæði skipst jafnt milli Elínborgar og Evu Bjargar Valdimarsdóttur og því hefði verið varpað hlutkesti þar sem Eva bar hærri hlut.

Elínborg segir rangt að hún hafi ekki hlotið meirihluta greiddra atkvæða og hefur hún nú lagt fram formlega kvörtun til biskups Íslands, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Í frétt Morgunblaðsins á laugardag kom fram að í fyrstu atkvæðagreiðslu kjörnefndar Dómkirkjunnar í Reykjavík hlaut Elínborg Sturludóttir fimm atkvæði til prestsembættis við kirkjuna, Eva Björg Valdimarsdóttir þrjú, Vigfús Bjarni Albertsson eitt og einn skilaði auðu.

Marinó Þorsteinsson, formaður sóknarnefndar Dómkirkjunnar, segir að hljóti enginn meirihluta atkvæða í kosningu kjörnefndar sé kosið aftur á milli þeirra tveggja er hljóta flest atkvæði og falli atkvæði jöfn sé varpað hlutkesti, samkvæmt 8. gr. starfsreglna kirkjunnar um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016.

Þær Eva og Elínborg fengu fimm atkvæði hvor í síðari kosningunni en Eva varð hlutskarpari í hlutkesti og hefur verið ráðin í embætti prests við Dómkirkjuna. Undirritaði biskup Íslands skipunarbréfið í gær.

Marinó staðfestir að aðeins tíu af ellefu kjörnefndarmönnum hafi mætt á fund nefndarinnar en samkvæmt fyrrnefndum reglum skal nefndin skipuð ellefu fulltrúum að lágmarki og jafnmörgum til vara.

„Nokkrir aðalmenn sáu sér ekki fært að mæta og ekki náðist að kalla inn varamenn í öll sæti,“ segir Marinó, og útilokaði ekki að eftirmál gætu orðið vegna mætingarinnar.

Áður en hægt er að auglýsa lausa stöðu prests þarf sóknarnefnd á hverjum stað að vinna svokallaða þarfagreiningu að sögn Marinós og í kjölfarið auglýsir biskup lausa stöðu.

„Þegar umsóknir liggja fyrir eru þær sendar biskupi, sem felur miðlægri matsnefnd á Biskupsstofu að fara yfir og velja fjóra til fimm hæfustu umsækjendur úr hópnum. Þær umsóknir eru svo sendar kjörnefnd, en hún er valin af sóknarnefnd. Kjörnefnd kýs svo í leynilegri kosningu um það hver skuli hljóta auglýst embætti,“ segir Marinó en hann telur ferlið óþarflega flókið.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var séra Vigfús Bjarni Albertsson efstur í hæfnismati matsnefndarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert