Uppbygging stóriðju var svar við ákalli samfélagsins

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Og það er mjög mikilvægt að …
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Og það er mjög mikilvægt að hlusta á samfélagið. Það er ljóst að öll uppbygging stóriðju á Íslandi hefur fyrst og fremst verið vegna ákalls samfélagsins, sérstaklega nærsamfélagsins.“ mbl.is/Golli

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að andstaða við frekari uppbyggingu kísilvera og annarrar stóriðju hafi aukist nokkuð hér á landi síðustu vikur í kjölfar rekstrarerfiðleika kísilvers United Silicon í Helguvík. Hins vegar sé erfitt að meta hvort hún vari til lengdar. Slík andstaða hafi áður gert vart við sig í mikilli efnahagsuppsveiflu. „Við höfum nú þegar byggt upp mikla stóriðju á Íslandi og nú stefnir í að kísilverksmiðjurnar verði þrjár innan skamms; Elkem á Grundartanga, sem er af þessum toga, United Silicon og svo PCC á Bakka. Þá erum við komin með nokkuð öflugan iðnað í þessum geira sem vonandi gengur vel og verður farsæll.“

Hann segir það hins vegar ekki Landsvirkjunar einnar að marka stefnu um í hvað orkan eigi að fara. Orkan sé nýtt í það sem samfélagið kalli eftir hverju sinni.

Nýverið var hætt við áform um byggingu sólarkísilvers Silicor Materials á Grundartanga, að minnsta kosti í bili. Landsvirkjun hafði ekki gert raforkusamning við Silicor Materials þar sem önnur verkefni nutu forgangs í tíma. Síðustu misseri hefur fyrirtækið einbeitt sér að stækkun hjá núverandi viðskiptavinum sínum og afhendingu orku til tveggja nýrra stórra viðskiptavina: PCC á Bakka og United Silicon í Helguvík.

„Það er alltaf slæmt þegar okkar viðskiptavinir lenda í vandræðum vegna þess að við og þeir erum á margan hátt í sama bátnum,“ segir Hörður um áhrif rekstrarerfiðleika United Silicon á Landsvirkjun. „Fjárhagslega séð erum við með samninga sem tryggja okkar hagsmuni enn sem komið er. Í þessu tilviki var ekki byggð virkjun til að afla orkunnar heldur vorum við að nýta kerfið okkar betur.“

Raforkusamningur Landsvirkjunar náði aðeins til orku til að starfrækja einn ofn en fyrirtækið hafði starfsleyfi fyrir tveimur og hugðist fjölga þeim í fjóra. Hörður vill ekki spá fyrir um hvað muni gerast fari United Silicon í þrot. „Ég hef nú enn trú á því að hægt verði að ná tökum á rekstrinum. Þessi rekstur er þekktur víða um heim og þessi vandræði komu á óvart. Víða erlendis eru kísilver rekin í nágrenni við byggð og slíkt á að geta gengið. Eftir því sem ég best veit er þetta einstakt mál.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Rekstrarerfiðleikar United Silicon gætu haft áhrif á annað fyrirhugað verkefni, kísilver sem Thorsil hyggst reisa í Helguvík. Fjármögnun hefur gengið erfiðlega og hafði verkefnið tafist nokkuð af þeim sökum áður en vandi United Silicon hófst.

Enn í samstarfi við Thorsil

Landsvirkjun gerði raforkusamning við Thorsil um 55 megavött. „Og við erum enn í samstarfi við þá. Það verkefni hefur ekki gengið samkvæmt áætlun og það liggja enn ekki fyrir endanlegar áætlanir um hvort og hvenær þeir nái að ljúka því. Það er mikilvægt að þessi verksmiðja verði reist í sátt við samfélagið og það er verkefni Thorsil að tryggja það.“

Hörður segist sammála því að í augnablikinu sé aukin umræða um að staldra við í frekari uppbyggingu stóriðju. „Og það er mjög mikilvægt að hlusta á samfélagið. Það er ljóst að öll uppbygging stóriðju á Íslandi hefur fyrst og fremst verið vegna ákalls samfélagsins, sérstaklega nærsamfélagsins.“

Nefnir Hörður sem dæmi Austurland fyrir nokkrum árum, svo Helguvík í Reykjanesbæ og Bakka á Húsavík. Uppbyggingin í Helguvík í kjölfar brotthvarfs hersins hafi notið mikils stuðnings heimamanna og nánast allra stjórnmálamanna. Sama hafi verið uppi á teningnum með Reyðarfjörð á sínum tíma og síðar á Bakka. „Þannig að ef samfélagið er með aðra sýn til framtíðar, þá lagar orkugeirinn sig að því. Orkugeirinn er eingöngu að uppfylla þarfir samfélagsins. Ef við lítum yfir farinn veg þá eru það ekki orkufyrirtækin sem hafa drifið uppbyggingu stóriðju áfram upp á sitt eindæmi heldur fyrst og fremst samfélagið.“

Hörður segir það mjög mikilvægt að taka þá umræðu um hvert við viljum stefna sem samfélag í þessum efnum. „Þannig að nú mun framtíðin leiða í ljós hvernig samfélag við viljum byggja upp.“  

Áframhaldandi samstarf mikilvægt

Hörður leggur ríka áherslu á að hver svo sem stefnan verði til framtíðar verði þeim stóriðjufyrirtækjum sem þegar eru hér starfandi áfram sköpuð umgjörð til þess að þróast. Fyrirtækin hafi hingað til gert slíkt farsællega. „Íslendingar lögðu mikið á sig til að fá þessi fyrirtæki hingað og það er mikilvægt að við eigum áfram gott samstarf við þau rétt eins og önnur fyrirtæki í landinu.“

Hörður nefnir álver Rio Tinto í Straumsvík í þessu sambandi. Það er elsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og hefur raforkusamningur við fyrirtækið verið stækkaður átta sinnum. Fyrirtækið er nú til sölu. Hörður segist ekki eiga von á að það hafi áhrif á Landsvirkjun. „Við erum tiltölulega nýbúin að endurnýja raforkusamninginn við Rio Tinto og fórum í heilmiklar fjárfestingar í Búðarhálsvirkjun samhliða því.“

Hann minnir á að þetta sé í þriðja skipti sem álverið í Straumsvík er til sölu. „Ég tel að þessi rekstur eigi góða framtíð.“

Áhersla lögð á aukna arðsemi

Landsvirkjun framleiðir yfir 70% allrar raforku á Íslandi. Hörður tók við starfi forstjóra fyrirtækisins árið 2009. Á þeim tíma hefur verið hafist handa við byggingu þriggja virkjana: Búðarhálsvirkjunar, sem er lokið, Búrfells II, sem tekur til starfa á næsta ári, og jarðvarmavirkjunarinnar á Þeistareykjum. Þegar Hörður settist á forstjórastól voru stórar framkvæmdir nýafstaðnar og fyrirtækið mjög skuldugt. „Það hefur gengið mjög vel að vinna á því. Ég sagði frá upphafi að arðsemi fyrirtækisins væri of lág, að við ættum að auka hana. Í því verkefni höfum við lagt áherslu á að endursemja við okkar viðskiptavini og nýta raforkukerfið sem best.“

Með Hvammsvirkjun yrði til 4 ferkílómetra inntakslón og með því …
Með Hvammsvirkjun yrði til 4 ferkílómetra inntakslón og með því myndu flúðir og hólmar í Þjórsá fara undir vatn. mbl.is/Golli

Þannig hefur verið endursamið við Rio Tinto tvisvar á síðustu árum með mjög viðunandi niðurstöðu fyrir Landsvirkjun að mati Harðar. Á síðasta ári var svo endursamið við Norðurál. Samið er til styttri tíma en áður þekktist þótt enn sé um langtímasamninga að ræða. „Þetta hefur meðal annars orðið til þess að reksturinn hefur skilað betri afkomu. Við höfum lækkað skuldir okkar um 100 milljarða króna á sama tíma og við höfum verið í miklum framkvæmdum sem hafa kostað aðra 100 milljarða. Þetta hefur verið gert á sama tíma og skuldir lækka. Fjármunamyndunin er sterk og mun styrkjast enn frekar á næstu misserum. Þetta gefur möguleika á því að auka verulega arðgreiðslurnar.“

Raforkan ekki lengur sú ódýrasta í heimi

Hörður segir að raforka á Íslandi sé ekki lengur sú ódýrasta í heimi. Markmið Landsvirkjunar í samningum við stóriðjuna sé að selja þá orku sem framleidd er á sem hæstu verði en á sama tíma verði að gæta þess að vera samkeppnishæfur. „Það hefur orðið veruleg breyting á raforkuverði til stóriðju frá því sem áður var,“ segir Hörður um orkuverðið. „En að sama skapi erum við ekki að ná að svara þeirri eftirspurn sem er til staðar. Það að eftirspurnin sé meiri en framboðið er vísbending um að raforkuverðið sé ekki of hátt.“

Hörður segir að þetta ójafnvægi skýrist af mikilli eftirspurn stórnotenda, bæði þeirra sem hér eru nú þegar og vilja auka við sína starfsemi sem og nýrra aðila sem vilja komast inn á markaðinn. „Þá erum við einnig að sjá mjög mikinn áhuga millistórra fyrirtækja, eins og til dæmis gagnavera.“

Hörður nefnir einnig orkuskiptin sem þegar eru farin að eiga sér stað í landinu. Fyrirtæki, s.s. fiskimjölsverksmiðjur, eru smám saman að hætta notkun olíu og rafbílar eru sífellt að ryðja sér meira til rúms. „Allt krefst þetta aukinnar orku. Oft vanmetur fólk það sem samfélagið þarf af orku.“

Þarf 50 MW virkjun á 4-5 ára fresti

Hann bendir á að í hagvexti og fólksfjölgun aukist orkunotkun. Orkuspá Orkustofnunar, sem að mati Harðar er heldur varfærin, geri ráð fyrir að almenni markaðurinn, þ.e. aðrir en stórnotendur, sé að vaxa um 10-12 MW á ári. „Það þýðir að á 4-5 ára fresti þarf nýja 50 MW virkjun að því gefnu að allir notendur sem eru núna haldi áfram,“ segir Hörður. „Auðvitað getur það gerst einn daginn að einhver stórnotandi hætti starfsemi. Það er eðli allra verksmiðja að þær hætta einhvern tímann rekstri. En eftir því sem ég best veit gengur starfsemi okkar stórnotenda vel og er fullur hugur hjá þeim að starfa hér áfram.“

Almenni markaðurinn notar um 20% orkunnar sem framleidd er en fáir stórnotendur um 80% hennar. Hefur vöxtur almenna markaðarins ekki lítið að segja í stóru myndinni?

„Já og nei. Stórnotendurnir eru allir með langtímasamninga og hafa allir fullan hug á að starfa hér áfram. Einhliða aðgangur að breytingum á þeim samningum er lagalega ekki til staðar. Svo má hins vegar spyrja sig að því þegar þeir renna út hvort vilji aðila sé til að semja aftur, ekki síst þeirra en okkar. Hafi þeir áhuga á að semja áfram þá hafa þeir ákveðinn rétt til þess. Það er ekki hægt með einföldum hætti að hætta að semja við þá, þetta eru fyrirtæki sem eru hér starfandi og hafa sum hver tryggt sér áratuga samninga. Til að mæta orkuþörf næstu 5-10 ára er það ekki valkostur að fara út úr þessum samningum. Sú ákvörðun að hætta starfsemi liggur hjá fyrirtækjunum sjálfum samkvæmt hinum almennu leikreglum samfélagsins.“

Hins vegar sé það val hvort stóriðjufyrirtækjum verði fjölgað. Ný fyrirtæki koma ekki nema með ákalli samfélagsins, segir Hörður. „Spurningin gæti verið sú hvort við hefðum nú áhuga á öðruvísi viðskiptavinum en hingað til, til dæmis fleiri gagnaverum. Þar gætum við haft mikla möguleika. Viljum við fjölga smærri fyrirtækjum, svo sem þekkingarfyrirtækjum? Þar eru miklir möguleikar að opnast. En til þess þarf orku.“

Stefnumótun liggur hjá stjórnvöldum

Spurður hvort Landsvirkjun geti markað sér eigin stefnu um hverjir fái að kaupa orku, bendir Hörður á að Landsvirkjun sé markaðsráðandi fyrirtæki á raforkumarkaði og megi ekki mismuna fyrirtækjum nema á viðskiptalegum forsendum. „Þannig að slík stefnumótun hlýtur alltaf að liggja hjá stjórnvöldum.“

Hörður bendir í þessu sambandi á að í nágrannalöndum okkar, s.s. Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Noregi, hafi stjórnvöld gert ýmislegt til að höfða til gagnavera og fyrirtækja í þekkingariðnaði. „Við verðum að spyrja okkur að því hvort við viljum gera slíkt hið sama.“

Auk þess að virkja til að mæta eftirspurn má einnig grípa til annarra ráða, m.a. til að takmarka eftirspurnina. „Orkusparnaður er besta virkjunin,“ segir Hörður. „Við erum að sjá bætta nýtingu í flestum raftækjum, í lýsingu og fleira. En í orkuspá orkuspárnefndar er tekið tillit til þessara þátta að ákveðnu marki en engu að síður mun eftirspurnin aukast umtalsvert árlega.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Nýta betur orkuvinnslusvæðin

Til að draga úr umhverfisáhrifum er nú lögð áhersla á að nýta betur þau svæði sem orkuvinnsla fer þegar fram á. Dæmi um það er Búrfell II. Annað dæmi eru virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar sem er langt komin í undirbúningi. „Þar viljum við nýta fallið milli núverandi lóna til að byggja þrjár litlar virkjanir. Við erum að skoða fleiri svæði með þetta í huga því stærstu umhverfisáhrif vatnsfallsvirkjana, sem eru alltaf umtalsverð, helgast af þrennu; stórum uppistöðulónum, háspennulínum og innviðum, svo sem vegum. Það sem við erum að horfa á í mörgum okkar verkefna er að nýta núverandi uppistöðulón, háspennulínur og vegi.“ Dæmi um þetta er Búðarhálsvirkjun þar sem fallið milli Hrauneyjafoss og Sultartangalóns er virkjað. Fyrirhugaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, s.s. Hvammsvirkjun, eru af sama meiði.

„Þetta er ekkert aðeins að gerast hér heldur einnig erlendis. Með auknu vægi umhverfismála er það orðið stærra mál að fara inn á áður ónýtt og ósnortin svæði. Því höfum við ákveðið að taka þá stefnu að nýta frekar þau svæði þar sem virkjanir eru þegar fyrir og gera það vel áður en við óskum eftir að fara inn á ný svæði.“

Að mati Harðar er ágætt ástand á raforkuframleiðslu Landsvirkjunar í augnablikinu. Fyrir um tveimur árum hafi verið nokkuð „þröngt um orkuna,“ eins og hann orðar það.

„En við verðum að horfa fram á við. Hver er orkuþörfin? Við höfum áform um orkuskipti. Ef við höfum áhuga á að byggja upp þekkingariðnað, ef hagvöxtur verður áfram mikill, þá er hér ákveðin þörf fyrir hendi sem við verðum að sinna.“

Alveg óháð því hvort United Silicon heldur áfram starfsemi og stækkar og hvort Thorsil kemur inn á markaðinn þarf meiri raforku, segir Hörður og vísar m.a. í raforkuspá, máli sínu til stuðnings. Til ársins 2030 er gert ráð fyrir að orkunotkun aukist um 2,5 teravattsstundir. Aðeins er gert ráð fyrir smávægum vexti í stóriðju og gagnaverum í þeirri spá enda ekki tekið tillit til slíkra verkefna í henni nema raforkusamningar liggi endanlega fyrir.

Hvammsvirkjun ráðgerð án Thorsils

Mun orkan sem fengist úr fyrirhugaðri Hvammsvirkjun, í neðri hluta Þjórsár, fara í rekstur kísilvers Thorsil í Helguvík?

„Það var alltaf gert ráð fyrir að Thorsil færi í gang áður en Hvammsvirkjun yrði byggð,“ svarar Hörður. „Og Hvammsvirkjun yrði byggð hvort sem Thorsil kæmi með sitt kísilver eða ekki. Vissulega mun Thorsil kalla á frekari virkjanir en þarna er þó ekki bein tenging á milli.“

Að sögn Harðar er líklegt að Hvammsvirkjun verði næsta virkjun Landsvirkjunar. „Það skýrist af því að flutningskerfið þar er sterkt og líklegt er að eftirspurnin eftir orku verði mest á Suðvesturlandi. Ekki hefur þó enn verið tekin ákvörðun um hvenær ráðist verður í byggingu Hvammsvirkjunar og er ljóst að ekki verður ráðist í framkvæmdir á næsta ári.“

Hörður segir ferlið langt. Mat á umhverfisáhrifum, sem er enn í gangi og leyfisveitingaferlið taki langan tíma. „Það er ekki þannig að þetta sé alveg að bresta á. Eftir að tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast í byggingu virkjunarinnar mun það taka að minnsta kosti þrjú og hálft ár að bjóða út framkvæmdir, byggja virkjunina og koma henni í fullan rekstur. Við erum að ljúka við tvær stórar framkvæmdir, Búrfell II og Þeistareyki. Landsvirkjun hefur aldrei áður byggt tvær virkjanir í einu. Svo hefur efnahagsástandið einnig mikil áhrif, nú er óhagstætt að fá tilboð í stór verk, þau gætu verið 20-30% dýrari en í meðalári.“

Landsvirkjun er nú með í byggingu virkjunina Búrfell II. Hún …
Landsvirkjun er nú með í byggingu virkjunina Búrfell II. Hún verður væntanlega tekin í notkun um mitt næsta ár. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hvammsvirkjun óháð öðrum virkjanaáformum

Á síðustu árum hafa verið skoðaðar nokkrar útfærslur á virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Eitt sinn var rætt um Urriðafoss- og Núpsvirkjun en sú síðarnefnda var í raun tvær virkjanir; Holta- og Hvammsvirkjun. Við þessar fyrirætlanir var töluverð andstaða. Allar virkjanirnar voru í kjölfarið settar í biðflokk í rammaáætlun en Hvammsvirkjun var ein og sér sett í nýtingarflokk með þingsályktunartillögu sumarið 2015.

Hörður segir að Hvammsvirkjun sé nú algjörlega óháð hinum tveimur virkjanakostunum sem áður voru til umræðu. Verði Hvammsvirkjun að veruleika þýði það ekki að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun fylgi sjálfkrafa í kjölfarið. Þeir tveir virkjanakostir eru þó nú í nýtingarflokki í þingsályktunartillögu að 3. áfanga rammaáætlunar sem þingið á eftir að taka til umræðu. „Hver þessara þiggja virkjana ein og sér er arðbær kostur, Urriðafoss hvað arðbærastur. En hún yrði alltaf síðust, m.a. vegna umhverfisáhrifa. En það er ekki þannig að Hvammsvirkjun myndi á einhvern hátt kalla á að ráðist verði í hinar tvær.“

Áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar nær til tveggja hreppa, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Umhverfisáhrifin eru sambærileg í báðum sveitarfélögunum en stöðvarhús yrði staðsett í þeim síðarnefnda. Af því fást fasteignatekjur. Beinar tekjur Skeiða- og Gnúpverja af mannvirkjum yrðu því engar. „Þetta er mjög óheppilegt,“ segir Hörður. „Þetta er ekki sanngjörn skipting og stjórnvöld þyrftu að skoða þessa löggjöf.“

Þetta er ekki eina dæmið um slíkan ójöfnuð. Kárahnjúkavirkjun, stífla og lón, er í Fljótsdalshéraði en stöðvarhúsið í Fljótsdalshreppi. Landsvirkjun greiðir Fljótsdalshreppi fasteignagjöld en Fljótsdalshérað fær ekkert í sinn hlut.

„Skiptingin í nærsamfélaginu hvað Hvammsvirkjun varðar er álíka óheppileg. Arðsemi orkuframleiðandans mun aukast mikið á næstu árum, með endursamningum og bættum rekstri og eigandinn, ríkið, mun fá meira til sín. En það er ekki útlit fyrir að neitt sé að breytast hvað nærsamfélagið á virkjanasvæðum varðar.“

Hörður segir Landsvirkjun hafa mjög litla möguleika til að bæta sveitarfélögum slíkt misrétti upp. Það sé stjórnvalda að breyta þessu.

En af hverju ætti þá sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að samþykkja Hvammsvirkjun?

Hörður telur líklegt að virkjunin verði byggð en spurningin sé hvenær. „Almennt séð tel ég þetta skynsamlegan kost af því að þarna yrðu nýttir mjög mikið innviðir sem eru þegar til staðar, uppistöðulón, háspennulínur og vegir. Raddir um að vernda ósnortin víðerni heyrast meira en áður og endurspeglast í nýjum náttúruverndarlögum. Hvað Hvammsvirkjun varðar eru langmestu áhrifin nú þegar komin. Þannig að þetta er mjög skynsamlegur næsti kostur ef samfélagið þarf orku.“

Landsvirkjun gerði raforkusamning við Thorsil um 55 megavött. „Og við …
Landsvirkjun gerði raforkusamning við Thorsil um 55 megavött. „Og við erum enn í samstarfi við þá. Það verkefni hefur ekki gengið samkvæmt áætlun og það liggja enn ekki fyrir endanlegar áætlanir um hvort og hvenær þeir nái að ljúka því,“ segir Hörður. mbl.is/Golli

Skoða aðkomu að Austurgilsvirkjun

Landsvirkjun hefur ekki haft til skoðunar að virkja árnar á Ófeigsfjarðarheiði á Vestfjörðum líkt og VesturVerk stefnir nú á að gera. Hins vegar er Landsvirkjun nú að skoða mögulega aðkomu sína að öðrum virkjanakosti á svæðinu; Austurgilsvirkjun. Lagt hefur verið til að sá virkjanakostur verði settur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar „Við fórum að skoða hann sérstaklega eftir að hann fékk góða umfjöllun í rammaáætlun en landeigendur höfðu lagt kostinn þar fram. Við höfum síðan verið í viðræðum við landeigendur um okkar aðkomu, verið að gera okkar rannsóknir á svæðinu og meta hann. En þarna yrði farið inn á svæði sem ekki hefur áður verið virkjað og því yrðu umhverfisáhrifin umtalsverð.“

Hörður segir að það myndi tvímælalaust auka raforkuöryggi á Vestfjörðum að auka orkuvinnsluna á svæðinu. „Á Vestfjörðum eru ýmsir ágætir virkjanakostir en þó eru þetta oftast ný svæði sem þyrfti að vinna og flutningskerfið er auk þess mjög veikt. Það sýnir sig þar hvernig samfélög fara þegar raforkuöryggi er lélegt. Rafmagn er súrefni alls iðnaðar og því hamlar þetta uppbyggingu. Ég hef því mikla samúð með sjónarmiðum Vestfirðinga að það sé þörf á að ráða bót á þessu.“

Með Austurgilsvirkjun yrði rennsli Austurgilsár sem fellur í Selá í Skjaldfannardal virkjað. Aflið yrði allt að 35 MW. Eins og staðan er í dag yrði virkjunin langt frá meginflutningsnetinu. Hins vegar hefur verið rætt um að koma upp nýjum tengipunkti í Ísafjarðardjúpi sem Hvalárvirkjun myndi tengjast yfir Ófeigsfjarðarheiði. Sá punktur myndi einnig nýtast Austurgilsvirkjun. Hörður ítrekar að verkefnið sé enn á algjöru frumstigi. Enn eigi eftir að samþykkja tillögu til þingsályktunar um að færa kostinn í nýtingarflokk rammaáætlunar.

Mat á orkuþörf getur breyst hratt

En aftur að Hvammsvirkjun. Á íbúafundi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi síðsumars kom m.a. fram að íbúum hugnist ekki að raforkan fari í „óþarfa“ og sagði oddvitinn að þar ættu þeir við stóriðju. Getur Landsvirkjun tryggt slíkt?

„Öll orka sem er nýtt á Íslandi fer í þörf verkefni samkvæmt mati samfélagsins á hverjum tíma,“ segir Hörður, hvort sem er til að mæta almennum hagvexti, til orkuskipta, stækkun álvera, kísilvera eða annarrar stóriðju, vexti í rekstri gagnavera eða aukningu í ferðaþjónustu. „Það mat getur hins vegar breyst, jafnvel á byggingartímanum. Forsendur geta breyst hratt, efnahagur vænkast og atvinnuleysi minnkað. Það er alveg öruggt að þær kröfur sem gerðar eru til orkunotkunar í dag eru aðrar en gerðar voru fyrir tíu árum síðan. Og eftir tíu ár verða þær aðrar en þær sem við gerum í dag.“

Umhverfisáhrif af virkjunum eru alltaf umtalsverð. Samfélagið þarf að svara því hvort það vilji meiri raforku og frekari virkjanir. „Landsvirkjun getur ekki svarað þeirri spurningu. Og ef við viljum nýta orkuna þá hefur það áhrif á umhverfið, rétt eins og þegar við nýtum náttúru undir ferðamenn og landbúnað svo dæmi séu tekin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka