Ekki þarf að virkja allt sem „rennur og kraumar“

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að orkuauðlindirnar eigi að …
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að orkuauðlindirnar eigi að vera í almannaeigu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það var flókið verkefni sem beið jarðfræðingsins, vélstjórans og námaverkfræðingsins Bjarna Bjarnasonar er hann settist í stól forstjóra Orkuveitunnar 1. mars árið 2011. Þá var síðasti áfangi Hellisheiðarvirkjunar í byggingu, en virkjunin er 303 megavött (MW) að rafafli. Auk þess vinnur hún vatn fyrir hitaveituna sem er ígildi um 130 MW. Hún var fullbyggð sama ár og Bjarni tók við. Snemma kom í ljós að ekki var næg jarðgufa á þeim svæðum sem henni var ætla að nýta og því yrði ekki hægt að keyra hana á fullum afköstum að óbreyttu.

„Hún var byggð alltof hratt og án fullnægjandi rannsókna á sínum tíma,“ segir Bjarni um Hellisheiðarvirkjun. „Það er meðal þeirra verkefna sem við höfum síðan þurft að vinna úr og árangurinn lofar nú mjög góðu.“

Hefur setið allan hringinn

Bjarni hefur víðtæka reynslu úr orkugeiranum og hefur setið „allan hringinn í kringum borðið“ eins og hann orðar það sjálfur, fyrst í rannsóknum og vísindum en síðar við stjórnun hjá Kísiliðjunni í Mývatnssveit, Jarðborunum, Íslenska járnblendifélaginu á Grundartanga, Landsvirkjun og nú Orkuveitu Reykjavíkur.

Sýn hans á orkumálin og framtíðina er ef til vill ekki dæmigerð fyrir mann í orkugeiranum, eins og hann kýs að kalla sinn starfsvettvang. Hann segir til dæmis að það mætti „draga úr virkjanalátum“ til að jafna sveiflur í hagkerfinu, „og nýta betur þá orku sem við vinnum í stað þess að virkja eins og við eigum lífið að leysa og selja svo rafmagnið í kísilbræðslur sem eru einn mest mengandi iðnaður á jarðarbóli.“

Og auðlindin, þar sem orkuna er að finna í ýmsum myndum, er Bjarna hugfólgin.

„Hvert land býr að sínum náttúrugæðum,“ segir hann. „Við eigum þrenns konar náttúrugæði sem eru bein söluvara ef svo mætti segja.“ Eitt er orkan, annað er fiskurinn og „þriðja söluvaran, sem er nú í hvað mestum vexti, er sjálf náttúra landsins. Þetta getur allt spilað mjög vel saman ef vandað er til verka.“

Í dag er Hellisheiðarvirkjun rekin á fullum afköstum og hún …
Í dag er Hellisheiðarvirkjun rekin á fullum afköstum og hún skilar fullum tekjum. „Og ekkert útlit fyrir að hún verði fjárhagslegur baggi á sveitarfélögunum sem eiga hana, þvert á móti,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Orkulindirnar eiga að vera í almannaeigu. Það er alveg skýrt í huga Bjarna. „Og við eigum að nytja þær, ekki nýta.“ Til að útskýra betur hvað hann á við með þessu orðalagi bendir Bjarni á að bændur taki nytina úr kúnum sínum, „en þeir blóðmjólka þær ekki. Slíkt myndi hefna sín.“

Hann segir að það eigi að ganga vel um náttúruna og ekki að ganga of langt. „Og það liggur ekkert á. Nú eru komnar fleiri stoðir undir efnahaginn en áður og staðan knýr ekki á um að virkja þurfi allt sem rennur og kraumar.“

Engin þörf á hálendislínu

Fyrir utan þá skoðun að staldra beri við  telur Bjarni að endurskoða þurfi dýr áform um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Hann segir „alls ekki þörf á því“ að svo komnu máli að leggja 50–100 milljarða í það verkefni að styrkja flutningskerfið um landið með þeim hætti sem Landsnet og Landsvirkjun hafa talað fyrir. „Það er fráleitt að mínu mati að leggja háspennulínu yfir hálendið eða byggja mjög öfluga línu suður fyrir jökla og hringinn um landið. Það er gríðarlega dýr framkvæmd og henni myndu fylgja mikil náttúruspjöll. Og það er auk þess engin þörf á því að fara þessa leið að sinni.“

Meðal þess sem rætt er um nú er að koma þurfi meira rafmagni norður í land, m.a. inn á Eyjafjarðarsvæðið.

Bjarni minnir á að á Norður- og Austurlandi séu nú þrjár öflugar virkjanir; Vatnsaflsvirkjun við Kárahnjúka og jarðvarmavirkjanir á Kröflusvæðinu og á Þeistareykjum. „Þessi svæði eru illa tengd í dag,“ segir Bjarni. „Það þarf að tengja þau saman í öryggisskyni. Því ef annaðhvort bregst, jarðhitinn eða vatnið, þá getur hitt hlaupið undir bagga. Það eru allir sammála um að þetta þurfi að gera.“

Hann segir að næsta skref ætti svo að vera að tengja Kröfluvirkjun með öflugri línu inn í Eyjafjörð en þar er nú orkuskortur. Þriðja skrefið gæti svo verið að tengja Blönduvirkjun við Akureyri ef þurfa þykir. „Þegar það er komið þá þurfum við ekki fleiri stórar, dýrar og umhverfisspillandi flutningslínur að sinni. Á Vestfjörðum gegnir hins vegar öðru máli en þar er rafflutningur ótryggur og verður að bæta úr.“

„Hvert land býr að sínum náttúrugæðum,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri …
„Hvert land býr að sínum náttúrugæðum,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. „Við eigum þrenns konar náttúrugæði sem eru bein söluvara ef svo mætti segja.“ Eitt er orkan, annað er fiskurinn og „þriðja söluvaran, sem er nú í hvað mestum vexti, er sjálf náttúra landsins. Þetta getur allt spilað mjög vel saman ef vandað er til verka“. mbl.is/Golli

Með þessum aðgerðum yrði allt Norðurland, Norðausturland og Austurland tengt saman í sterka heild með um 1.000–1.200 megavött að afli til skiptanna sem fengist bæði með vatnsafli- og jarðvarma.

Hann bendir svo á að á Suður- og Vesturlandi sé þegar til staðar  öflugt flutningskerfi og um 2.000 MW afls.

„Það er ekki þörf á hálendislínu að mínu mati. Megintilgangurinn með henni virðist vera að flytja rafmagn á milli Kárahnjúka og Suðvesturlands eftir því hver staðan er á vatnsbúskapnum í hvorum landshluta. Ef ræða á þessa línulögn frekar þarf að gera það á réttum forsendum.“

Ríkið eignist Landsnet að fullu

Landsnet hefur það hlutverk að tryggja uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins á Íslandi. Landsnet er nú í eigu orkufyrirtækjanna í landinu. „Það er mjög mikilvægt að ríkið eignist Landsnet að fullu og það verði alveg óháð fyrirtæki,“ segir Bjarni.

Orkuveitan á lítinn hlut í Landsneti og vill selja hann. Það er hins vegar ekki hægt eins og raforkulög eru í dag. „Við viljum ekki eiga hlut í félagi sem á að starfa sjálfstætt. Það er forgangsmál og grundvallaratriði í flutningsmálum raforku að slíta algjörlega eignartengsl á milli orkufyrirtækjanna og Landsnets.“

Bjarni segir það hafa verið mikilvægan þátt í raforkulögunum sem sett voru árið 2003 að aðskilja flutningskerfið og framleiðendurna. Því verkefni sé hins vegar ekki lokið.

Landsnet er því enn í 100% eigu framleiðenda og að mati Bjarna er það óheppilegt að orkufyrirtækin sem eigendur fyrirtækisins eigi beinna hagsmuna að gæta þegar ákveða á hvernig flutningskerfið er byggt upp. Orkuveitan hefur ítrekað bent Orkustofnun og fleirum á að flytja verði eignarhaldið á Landsneti til ríkisins.

Enginn orkuskortur yfirvofandi

Bjarni er ekki á þeirri skoðun að orkuskortur sé yfirvofandi í landinu eins og ýmsir hafi talað um. Hann segir ýmislegt tínt til í þeirri umræðu sem eigi hreinlega ekki við rök að styðjast.

Dæmi um þetta sé orkuþörf fyrir rafbíla. Orkuveitan hefur verið leiðandi í þjónustu við rafbíla hér á landi í gegnum dótturfélag sitt, Orku náttúrunnar. Vinnur félagið m.a. að því byggja svokallaðar „hlöður“ eða orkustöðvar fyrir rafbíla vítt og breytt um landið.

„Það er fráleitt að mínu mati að leggja háspennulínu yfir …
„Það er fráleitt að mínu mati að leggja háspennulínu yfir hálendið eða byggja mjög öfluga línu suður fyrir jökla og hringinn um landið,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR. „Það er gríðarlega dýr framkvæmd og henni myndu fylgja mikil náttúruspjöll. Og það er auk þess engin þörf á því að fara þessa leið að sinni.“ mbl.is/Golli

Bjarni bendir á að fyrir fjórum árum hafi verið um 150 rafbílar á Íslandi. Nú séu þeir orðnir um 3.000 og útlit sé fyrir að þeim muni fjölga hratt næstu árin.

 „Við teljum þetta eitt mikilvægasta umhverfismál, orkuöryggismál og gjaldeyrissparnaðarmál sem við getum unnið að,“ segir Bjarni.

Verði bílafloti landsmanna að fullu rafvæddur myndum við hætta að flytja inn olíu og bensín fyrir bílana og spara þannig gjaldeyri. „Þá notum við alfarið innlenda, ódýra og græna orku á bílana,“ segir hann. Þetta myndi jafnframt auka orkuöryggi. „Við værum þá orðin sjálfum okkur nóg í orku fyrir flutninga um landið. Það er keppikefli allra þjóða að njóta slíks sjálfstæðis í orkumálum.“

Rafvæddur bílafloti myndi nota 3% raforkunnar

En hvað þurfa allir þessir rafbílar mikla orku?

„Það er í raun ótrúlega lítið,“ svarar Bjarni. Hann útskýrir málið á einfaldan hátt:

Á Íslandi eru í dag framleiddar 20 teravattsstundir (TWh) af raforku á ári. 100 þúsund rafdrifnir fólksbílar myndu þurfa um 0,3 teravattsstundir eða um 1,5% af því rafmagni sem við vinnum í dag. „Allur fólksbílafloti Íslands myndi taka svona 3% af öllu rafmagninu sem hér er framleitt. Það er nú ekki meira en það.“ Það mun taka einhverja áratugi að breyta öllum flotanum svo það er ekki þörf á því að virkja stórt í dag vegna þessa.

Og þetta segir ekki alla söguna því á rafbíla mætti nota umframorku kerfisins að hluta, sem fellur til á nóttunni og færi annars til spillis. „Við það eitt að breyta allri götulýsingu í landinu og skipta yfir íled-perur myndi svo sparast orka sem dygði til að knýja 5–10.000 bíla,“ tekur Bjarni sem dæmi.

Bjarni bendir á að fyrir fjórum árum hafi verið um …
Bjarni bendir á að fyrir fjórum árum hafi verið um 150 rafbílar á Íslandi. Nú séu þeir orðnir um 3.000 og útlit sé fyrir að þeim muni fjölga hratt næstu árin. mbl.is/Golli

Í þriðja lagi bendir hann á að ekki þurfi að styrkja flutningskerfi raforku sérstaklega vegna rafbílanna. „Bílarnir eru einkum hlaðnir á nóttinni þegar álagið er minnst í flutningskerfinu. Það jafnar álag á flutningskerfið og því rímar þessi þróun mjög vel við raforkukerfið okkar.“

Stóriðjuveri verður lokað á næstu áratugum

Fleira gæti komið til sem yrði til þess að jafnvægi myndi haldast á orkumarkaði. Bjarni bendir á að á næstu áratugum sé líklegt að einhverju stóriðjuveri á Íslandi verði lokað, það er eðli fjárfestinga að þær úreldast. „Ég ætla ekki að leggja mat á hvenær það gerist en það mun gerast,“ segir hann. „Og þá myndi losna raforka sem væri margfalt það magn sem þarf til að knýja allan bílaflota landsins.“

Bjarni segir því engan bráðan orkuskort fyrirsjáanlegan, „nema að menn vilji halda áfram að virkja til að byggja stóriðjuver. Þar hefur síðustu misseri verið horft til kísilbræðslu sem er mjög mengandi starfsemi.“

Að sögn Bjarna er slík bræðsla þrisvar sinnum meira mengandi en álframleiðsla. Hann tekur annað dæmi: Við framleiðslu eins tonns af áli losnar um 1,5 tonn af koltvísýringi. Við framleiðslu á einu tonni af járnblendi, eins og gert er á Grundartanga, losna 3,6 tonn. „En við framleiðslu á einu tonni af kísli þá losna fimm tonn af koltvísýringi. Þetta er því einhver mest mengandi starfsemi sem við getum boðið til okkar. Að mínu mati ættum við ekki að leggja áherslu á að virkja náttúruperlur til að útvega orku fyrir slíkt.“ Hreinsun á kísli, eins og til stóð að gera hjá Silicor á Grundartanga sem nú er hætt við, losar hins vegar ekki koltvísýring.

Ákvarðanir byggðar á takmarkaðri þekkingu

Orkuveita Reykjavíkur á og rekur tvær virkjanir í Henglinum; Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Sú fyrrnefnda var á sínum tíma byggð til að afla heits vatns fyrir Hitaveitu Reykjavíkur. Síðar var tekin ákvörðun um að nýta svæðið einnig til raforkuvinnslu og er aflgetan nú 120 MW. Rekstur virkjunarinnar hefur gengið mjög vel, að sögn Bjarna.

Hellisheiðarvirkjun var einnig byggð til að framleiða heitt vatn og rafmagn. „Sú virkjun var byggð of hratt og of stór,“ segir Bjarni. Hann segir að ákvarðanir um virkjunina hafi verið byggðar á mjög takmarkaðri þekkingu á jarðhitasvæðunum á Hellisheiði og  vinnslusaga var þar engin. „Það olli því að þegar virkjunin stóð fullbyggð árið 2011 reyndist ekki næg gufa á þeim svæðum sem henni var ætla að nytja til þess að reka hana á fullum afköstum. Við þessu urðum við að bregðast og það hefur gengið betur en við þorðum að vona.“

Í stjórnstöð Landsnets er fylgst með raforkuframleiðslu og flutningi um …
Í stjórnstöð Landsnets er fylgst með raforkuframleiðslu og flutningi um landið. mbl.is/Golli

Því hefur verið náð með því að endurskoða allar forsendur og fara í „djúpa jarðfræði- og vísindagreiningu á svæðinu.“

Til stóð að byggja nýja jarðvarmavirkjun í Hverahlíð í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Ráðgert var að sú virkjun yrði 90 MW. „Niðurstaða greiningar okkar var hins vegar sú að hætta við þá virkjun og leggja þess í stað lögn frá Hverahlíð og niður að Hellisheiðarvirkjun til að tryggja henni orku. Hellisheiðarvirkjun er nú rekin á fullum afköstum og okkur sýnist að svo verði til frambúðar þó aldrei sé hægt að vita slíkt með vissu þegar háhitinn er annars vegar.“

Þarna hafi tekist að bjarga mikilli fjárfestingu. „Þetta er mjög ánægjulegt og hefur tekist á aðeins örfáum árum.“

Heimatilbúin hreinsitækni

Þá er nú unnið að ýmsum verkefnum hjá Orkuveitunni tengdum jarðhitasvæðunum í dag. Árið 2007 hóf Orkuveitan að rannsaka hvort hægt væri að hreinsa koltvísýring úr jarðgufunni. „Þetta var vísindaverkefni á sínum tíma en nú höfum við náð góðum tökum á þessari tækni í sérstakri lofthreinsistöð.“

Það vill síðan svo til að sama aðferð nýtist til að hreinsa brennisteinsvetni úr gufunni. „Okkur tókst þannig, í samstarfi við Háskóla Íslands og fleiri, að þróa til þess aðferð sem kostar aðeins brot af því sem þessi hreinsun myndi kosta með öðrum aðferðum.“ Við höfum átt gott samstarf við Landsvirkjun og HS Orku í brennisteinsverkefninu og það er líklegt að þessi aðferð verði notuð í fleiri virkjunum hérlendis á næstu árum.

Núna eru um 60% af öllu brennisteinsvetni sem kemur frá Hellisheiðarvirkjun hreinsað og um 20–30% af koltvísýringnum. „Við hreinsum efnin úr gufunni, blöndum þeim undir þrýstingi saman við vatn sem við dælum svo niður á 1000–2000 metra dýpi. Þar breytist bæði koltvísýringurinn og brennisteinsvetnið í stein.“

Þessar aðferðir hafa vakið heimsathygli.

Árið 2007 hóf Orkuveitan að rannsaka hvort hægt væri að …
Árið 2007 hóf Orkuveitan að rannsaka hvort hægt væri að hreinsa koltvísýring úr jarðgufunni. mbl.is/Golli

Nú er stefnt að því að hreinsa brennistein að fullu úr gufunni og er í þeim tilgangi verið að ljúka við að tengja tvær síðustu vélarnar við lofthreinsistöðina á Hellisheiði. „Við stefnum að því að innan örfárra ára fari ekkert brennisteinsvetni út í andrúmsloftið. Það er gerlegt. Þá þarf ekki lengur að ræða brennisteinsmengun frá þessari virkjun. Ef allt gengur eftir heyrir sú umræða sögunni til.“

Stefna að sporlausri vinnslu

Sömu leið er hægt að fara með koltvísýringinn en til greina kemur að í stað þess að breyta honum öllum í stein verði hann unninn úr gufunni og seldur. „Koltvísýringur er til dæmis notaður í gróðurhúsum og í gosdrykki,“ útskýrir Bjarni. „Þannig að við stefnum að því sem kalla má sporlausa vinnslu. Það þýðir að við myndum hvorki menga loft, land né vatn. Þá yrði Hellisheiðarvirkjun fyrsta virkjunin í heiminum sem gæti státað af því.“

Bjarni vonast til þess að innan fárra ára verði Hellisheiðarvirkjun orðin dæmi um „hvernig hægt sé að gera hlutina“ og verði um flest til fyrirmyndar.

„Á örfáum árum er Hellisheiðarvirkjun að breytast úr virkjun sem var í stórfelldum vanda, svo miklum vanda að um tíma sáum við vart fram úr því hvernig við gætum leyst úr mengunarmálunum og aflað gufu. Við urðum að leysa hvort tveggja. Það er okkur að takast nú.“

Í dag er virkjunin rekin á fullum afköstum og hún skilar fullum tekjum. „Og ekkert útlit fyrir að hún verði fjárhagslegur baggi á sveitarfélögunum sem eiga hana, þvert á móti.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka