„Virkjanalæti“ óþörf

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir ekki aðkallandi að virkja …
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir ekki aðkallandi að virkja allt sem „rennur og kraumar“. mbl.is/Golli

„Allur fólksbílafloti Íslands myndi taka svona 3% af öllu rafmagninu sem hér er framleitt. Það er nú ekki meira en það.“

Þetta segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann er ekki á þeirri skoðun að orkuskortur sé yfirvofandi í landinu eins og margir hafi talað um. Bjarni segir ýmislegt tínt til í þeirri umræðu sem eigi hreinlega ekki við rök að styðjast. Dæmi um það sé orkuþörf fyrir rafbíla. Staðreyndin sé hins vegar sú að þeir noti „í raun ótrúlega lítið“ af raforku.

Sparnaðar- og öryggismál

Orkuveitan hefur verið leiðandi í þjónustu við rafbíla í gegnum dótturfélag sitt, Orku náttúrunnar. „Við teljum þetta eitt mikilvægasta umhverfismál, orkuöryggismál og gjaldeyrissparnaðarmál sem við getum unnið að,“ segir Bjarni.

Verði bílafloti landsmanna að fullu rafvæddur myndum við hætta að flytja inn olíu og bensín fyrir bílana og spara þannig gjaldeyri. „Þá notum við alfarið innlenda, ódýra og græna orku á bílana,“ segir hann. Þetta myndi jafnframt auka orkuöryggi. „Við værum þá orðin sjálfum okkur nóg í orku fyrir flutninga um landið. Það er keppikefli allra þjóða að njóta slíks sjálfstæðis í orkumálum.“

Það mun taka nokkra áratugi að breyta öllum flotanum svo það er ekki þörf á því að virkja stórt í dag vegna þessa. Að mati Bjarna mætti „draga úr virkjanalátum“ til að jafna sveiflur í hagkerfinu, „og nýta betur þá orku sem við vinnum í stað þess að virkja eins og við eigum lífið að leysa og selja svo rafmagnið í kísilbræðslur sem eru einn mest mengandi iðnaður á jarðarbóli“.

Átta til viðbótar í orkunýtingarflokk

Fjölmargar virkjanahugmyndir, stórar sem smáar, eru í farvatninu á Íslandi. Tíu kostir eru nú þegar í orkunýtingarflokki rammaáætlunar og nýverið var lagt til að átta til viðbótar færu í þann flokk. Að auki er í bígerð fjöldi smávirkjana, þ.e. virkjana undir 10 megavöttum (MW). Slíkar virkjanir þurfa ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar og metið er hverju sinni hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Á sama tíma er mikil nýsköpun og þróun í tækni til öflunar og dreifingar orkunnar að eiga sér stað víða um heim.

Ítarlega er fjallað um framtíðarsýn í orkumálum í Morgunblaðinu í dag. Viðtöl við viðmælendur þeirrar greinar verða aðgengileg á mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka