Jon Henley, blaðamaður The Guardian, segist í samtali við mbl.is ekki hafa heyrt af því að farið hafi verið fram á lögbann á fréttaflutning fjölmiðilsins í Bretlandi upp úr gögnum gamla Glitnis.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti í gærkvöldi lögbann á Reykjavík Media og Stundina, sem fjallað hafa með ítarlegum hætti um gögn sem varða viðskipti Bjarna Benediktssonar, þá þingmanns, og fjölskyldu hans fyrir hrun. Umfjöllunin hefur verið unnið með The Guardian, sem einnig hefur birt fréttir upp úr gögnunum.
Jon segist hafa heyrt af málinu í gærkvöldi og lesið fréttaflutning af þeirri stöðu sem uppi er á Íslandi. „En ég hef ekkert heyrt um aðgerðir sem þessar gegn The Guardian,“ segir hann við mbl.is. Hann segist ekki vera í aðstöðu til að veita viðbrögð við fréttunum fyrir hönd fjölmiðilsins.
Í lögbannsbeiðninni sem Glitnir HoldCo ehf. lagði fram í gær kemur fram að lögmenn félagsins á Englandi séu að „skoða réttarstöðu gerðarbeiðanda gagnvart Guardian samkvæmt enskum lögum“.