„Málið er formlega í höndum slitabús Glitnis. Þeir hafa eina viku til að ákveða hvort þeir fari með málið fyrir héraðsdóm til að freista þess að fá lögbannið staðfest,“ segir Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar í samtali við mbl.is.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í gær lögbannskröfu þrotabús Glitnis á hendur Stundinni og Reykjavík Media vegna umfjöllunar fjölmiðlanna um gögn innan úr bankanum. Að viku liðinni tekur héraðsdómur málið fyrir – sem tekur líka tíma. „Okkur var sagt á þessum fundi með fulltrúa sýslumanns í gær að þetta tæki nokkrar vikur. Ég veit ekki hvort einhver hraðmeðferð er möguleg,“ segir hann.
Frétt mbl.is: Ekki heyrt af lögbanni gegn The Guardian
Jón Trausti segir að kröfugerðin hafi verið lögð fram hjá sýslumanni fyrir helgi. Síðan þá hafi Stundin birt mikilvæg gögn um persónulega ábyrgð sem aflétt hafi verið af Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, 50 milljóna króna láni sem hann hafi persónulega tekið hjá Glitni vegna kaupa í Olíufélaginu. Skuldin hafi í febrúar 2008 verið færð yfir á eignarhaldsfélag föður hans, Hafsilfur ehf., félagi sem síðar hafi verið slitið.
Hann segir að næsta skref hjá Stundinni sé að fara á fund lögmanna fjölmiðilsins. Stundinni hafi ekki í gær gefist tækifæri til að verja hendur sínar eða búa sig undir lögbannið.
Jón Trausti segir aðspurður að frá því málið kom upp í gær hafi margir haft samband og viljað styrkja Stundina, ýmist með framlögum eða með því að gerast áskrifendur. „Við finnum fyrir miklum stuðningi núna, eftir að okkur var bannað að fjalla um þetta,“ segir Jón Trausti. „Fjölmiðlaumhverfið er þannig að það er eiginlega ekki hægt að stunda rannsóknarblaðamennsku án þess að fá til þess stuðning almennings, enda er það besta leiðin,“ segir hann.
Fram kom í lögbannsbeiðni Glitnis að ljóst væri að umfjöllunin byggði á umfangsmiklum gögnum sem varða fjölmarga nafngreinda viðskiptamenn bankans. Jón Trausti bendir á að umfjöllun Stundarinnar hafi alfarið verið bundin við kjörinn fulltrúa og aðila tengdum honum. „Augljóslega eru viðskipti venjulegs fólks ekki eitthvað sem við myndum nokkurn tímann fjalla um. Það eru heldur ekki hefðbundin viðskipti þegar kjörinn fulltrúi hefur aðgengi að upplýsingum um banka og stundar svo stórfelld viðskipti,“ segir hann og bætir við að það segi sig sjálft að fjölmiðlar fjalla um það sem þeim þykir fréttnæmt – annað ekki.
Jón Trausti vill ekki gefa upp hvers eðlis gögnin eru, hvort þau séu unnin eða hrá. „Við tökum þetta hlutverk okkar að fara í gegn um þessi gögn mjög alvarlega. Við tjáum okkur sem allra minnst um eðli þeirra eða uppruna. Heimildaleynd er eitt af kjarnagildum blaðamennsku.“
Hann segir að blaðamenn Stundarinnar, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Jóhann Páll Jóhannsson, hafi vandað sig mjög við fréttaflutning af málinu. „En við myndum ekkert vilja tjá okkur um það sem er framundan.“
Hann segir þó að næsta frétt hafi verið í vinnslu. „Við eigum eftir að fjalla um fleira sem við teljum að eigi erindi til almennings og tengist kjörnum fulltrúum. Umfjöllun okkar er ekki lokið.“ Hann segir að samfélagsleg sátt hafi verið um umfjallanir sama eðlis eftir hrun, svo sem birtist í rannsóknarskýrslu alþingis. „Það hefur verið samfélagslegt samkomulag um að fara yfir það sem þarna gerðist. Það samkomulag virðist hafa verið afturkallað.“
Spurður hvort til greina komi að hunsa lögbannið segir Jón Trausti að Stundin fari að þeim samfélagslegu reglum sem settar séu. „Við hlítum því og vonumst til að kerfið og reglurnar breytist og batni til samræmis við það sem við í samfélaginu teljum að sé heilbrigt og eðlilegt.“ Næsta skref sé að kanna lagalega stöðu fjölmiðilsins.