Svört náttúruvernd valdi sundrungu

Á gangi um fáfarna slóð sem var lokað í Vonarskarði.
Á gangi um fáfarna slóð sem var lokað í Vonarskarði. Ljósmynd/Snorri Ingimarsson

„Það hefur verið alið á fordómum í garð tiltekins ferðamáta, sem er umferð vélknúinna ökutækja. Það hefur þótt beinlínis fínt að ala á fordómum í okkar garð en við bendum á að öflugustu náttúruverðirnir eru þeir sem þekkja landið sitt og fá að ferðast um það,“ segir Snorri Ingimarsson, sem er fulltrúi samtaka útivistarfélaga í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hann segir að svokölluð svört náttúrvernd hafi unnið mikið tjón gegn raunverulegri náttúruvernd á Íslandi og skapað bæði úlfúð og sundrungu á meðal náttúruunnenda. Hann skilgreinir svarta náttúruvernd sem öfgakennda náttúruvernd þar sem fólk gangi of langt gagnvart ákveðnum tegundum ferðamáta.

Góðar hugsjónir í bland við annarlegar hvatir

Snorri vakti máls á svartri náttúruvernd í pistli sem hann skrifaði á Facebook og vakti mikla athygli. „Vandinn birtist þegar fólk blandar saman góðum hugsjónum eins og náttúruvernd við annarlegar hvatir í garð annarra. Það notar svo náttúruverndina til að koma höggi á þá sem þeim er í nöp við. Öfgar þar sem fólk sveipar sig heilagleika náttúruverndarinnar til að réttlæta meðulin, sem eru ekki alltaf vönduð,“ skrifaði hann og benti á að í Vatnajökulsþjóðgarði megi hvorki fara á reiðhjólum né vélknúnum farartækjum um sandana í Vonarskarði. Bannið hafi verið réttlætt með tilvísun í náttúruvernd.

Ekkert að gera með vernd svæða

Hann nefnir í samtali við mbl.is að ákvörðun stjórnvalda varðandi Vonarskarð hafi verið verulega umdeild á sínum tíma og tekin í andstöðu við útivistarsamtök „Þegar við fórum að kryfja málið og grandskoða Vonarskarðið sáum við að lokunin hefur í raun og veru ekkert að gera með vernd ákveðinna svæða eins og gefið var í skyn í öllum skjölum. Vonarskarðið er risastórt og viðkvæm svæði eru þar tiltölulega staðbundin. Ákvörðunin um lokun þess var í rauninni einhvers konar allsherjar lokun á vélknúinni umferð, undir formerkjum náttúruverndar en var í rauninni ekki að þjóna því grunnmarkmiði,“ greinir Snorri frá.

Í austanverðu Vonarskarði, á svæði sem fáir geta notið vegna …
Í austanverðu Vonarskarði, á svæði sem fáir geta notið vegna akstursbanns, eru fallegar jarðmyndanir. Ljósmynd/Jón Gauti Jónsson

Sameinast um að skilgreina víðerni

Hann bætir við að þessi ákvörðun hafi valdið skaða og skipt náttúruunnendum í  tvo hópa og fyrir vikið geti sundrungin komið í veg fyrir stækkun þjóðgarða. Til að ná sátt til framtíðar sé nauðsynlegt að skilgreina víðerni á annan hátt. „Einhverra hluta vegna eru fáfarnar slóðir ekki leyfðar í víðernum. Þetta þýðir að til þess að geta skilgreint víðerni verður að útrýma fáförnum slóðum sem þýðir að fjölmargir sjá rautt þegar minnst er á víðerni.  Ef við berum gæfu til að sameinast um að skilgreina víðerni þannig að þau hafi þol fyrir fáförnum slóðum, þá verður mikið meiri samstaða um að stækka skilgreind víðerni.“

Snorri bendir á að rannsóknir hafi verið gerðar sem hafa sýnt fram á að upplifun ferðamanna gagnvart víðernum skaðast ekki þótt þar séu fáfarnar slóðir. Upplifunin skaðast aftur á móti ef í víðernunum eru mannvirki eða byggðir vegir. Í pistli sínum kvartar hann einmitt yfir því að vegna svartrar náttúruverndar hafi einungis eitt orð verið notað yfir leiðir fyrir umferð á hálendinu, eða „vegur“. Þannig sé sama orð notað yfir fáfarna slóð og uppbyggða hraðbraut og talað um að ekki megi vera „vegir“ í víðerni.

Hann segir samtök útivistarfélaga vilja stuðla að náttúruvernd á Íslandi og telja þau þjóðgarða að mörgu leyti góða til að gæta náttúrunnar. Binda þurfi þannig um hnútana að sátt ríki við þá sem búa í landinu og hafa notið hálendisins óháð ferðamáta.

Utanvegaakstur er vandamál

Spurður hvort óvildin í garð umferðar vélknúinna ferðatækja á hálendinu stafi af hræðslu við utanvegaakstur, segir Snorri að vissulega sé utanvegaakstur vandamál en bendir á að ferðaklúbburinn 4X4 hafi unnið ötult starf í að minnka vandamálið með fræðslu og stikunum á slóðum. „Við teljum að ef öll sú orka sem hefur farið í núninginn við Vatnajökulsþjóðgarð hefði verið beitt í jákvæðari uppbyggingu værum við á betri stað en við erum í dag. Þessi barátta snýst um að verjast því að það sé verið að loka slóðum í nafni náttúruverndar sem hefð er fyrir akstri á, þar sem í rauninni er ekki um raunverulega áníðslu að ræða vegna legu slóðar eða aksturs.“

Snorri Ingimarsson.
Snorri Ingimarsson.

Blómvöndur með hníf fyrir aftan bak

Að sögn Snorra hafa samtökin náð árangri með því að fá Vikrafellsleið í Vatnajökulsþjóðgarði opnaða aftur, auk þess sem þau hafa varist því að öðrum leiðum hafi verið lokað og nefnir hann sem dæmi vatnaleiðina meðfram Langasjó. „En við erum uggandi um framtíðina,“ segir hann og nefnir tölvupóst sem hann hefur undir höndum úr stjórnkerfi Vatnajökulsþjóðgarðs. „Þar kemur berlega í ljós að menn plottuðu það að vera jákvæð út í samtök útivistarfélaga og leiðir hafðar opnar til bráðabirgða, sem síðar verði endurskoðað þegar þjóðgarðurinn festir sig í sessi,“ segir hann og talar um að svona hlutir valdi samtökunum áhyggjum. „Við teljum nauðsynlegt að þetta fari meira í opinbera umræðu til að við getum byggt upp nýja þjóðgarða án þess að óttast að verið sé að sýna okkur blómvönd með hnífinn fyrir aftan bak.“

Hann bætir við að með vélknúnum farartækjum sé átt við öll fjórhjóladrifin ökutæki. „Við búum í þannig landi að við teljum ekki raunhæft að það sé hægt að njóta hálendisins nema með aðstoð vélknúinna ökutækja. Það þurfi að gera á skynsaman hátt en ekki með fordómum og of ströngum bönnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert